Starfsleyfi fyrir Lánstraust um lögaðila
Starfsleyfi fyrir Creditinfo/Lánstraust hf.
til að safna og skrá upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust lögaðila, í því skyni að miðla þeim til annarra, skv. 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga
1. gr.
Leyfi
Afmörkun
Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 9. nóvember 2010 var ákveðið að veita Creditinfo/Lánstrausti hf., kt. 710197-2109, sem hér eftir er nefnt starfsleyfishafi, heimild til að safna og miðla tilteknum upplýsingum sem varða fjárhag og lánstraust lögaðila, samkvæmt því sem nánar greinir í leyfinu.
Starfsleyfið heimilar ekki vinnslu upplýsinga sem eðli sínu samkvæmt geta ekki haft þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða. Upplýsingar um skuldastöðu aðila má ekki veita með þeim hætti að þær geti verið grundvöllur mats á fjárhagslegri stöðu annars en þess er þær varða.
Starfsleyfi þetta heimilar ekki samtengingu skráa sem falla undir ákvæði leyfisins, nema að því leyti sem fellur innan 3. gr. starfsleyfis þessa. Að öðru leyti skal halda aðskildum þeim skrám sem til verða samkvæmt 2. gr. Þó má vera mögulegt að leita samtímis í tveimur eða fleirum af þeim skrám sem haldnar eru á grundvelli starfsleyfis þessa.
2. gr.
Söfnun upplýsinga
og skráning
Starfsleyfi þetta heimilar söfnun upplýsinga um nöfn, heimilisföng og kennitölur og um vanskil, greiðsluhegðun og eignarhlut í félagi sem fellur undir lög nr. 3/2006. Þessum upplýsingum má annars vegar safna frá kröfuhöfum sem hafa gert áskriftarsamning við starfsleyfishafa eða úr opinberum gögnum:
a. Frá kröfuhöfum
i. Upplýsingar um vanskil
Frá kröfuhöfum má einungis safna upplýsingum um skuldir sem nema a.m.k. kr. 30.000,- að höfuðstóli hver um sig, og tryggt sé að fyrir liggi óyggjandi, skrifleg gögn um tilvist viðkomandi skuldar. Uppfyllt skal og vera a.m.k. eitt eftirfarandi skilyrða:
1. Skuldari hafi skriflega gengist við því fyrir kröfuhafa að skuldin sé í gjalddaga fallin.
2. Skuldari hafi fallist á að greiða skuldina með sátt sem er aðfararhæf samkvæmt 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
3. Skuldara hafi sannanlega verið birt greiðsluáskorun sem uppfylli öll skilyrði 7. gr. laga nr. 90/1989, þar á meðal að um sé að ræða skuld sem byggist á 5., 6., 7., 8. eða 10. tl. 1. mgr. 1. gr. laganna.
4. Skuldara hafi sannanlega verið birt boðun í fyrirtöku fjárnámsgerðar sem ekki hefur verið unnt að ljúka vegna fjarveru hans.
5. Skuldara hafi sannanlega verið birt greiðsluáskorun vegna skuldarinnar, enda uppfylli hún öll skilyrði 9. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og fyrir liggi að frestur samkvæmt því ákvæði sé liðinn.
6. Skuldara hafi með dómi, úrskurði eða áritaðri stefnu verið gert skylt að greiða skuldina.
7. Skuldari hafi með sérstakri yfirlýsingu í láns- eða skuldaskjali, sem skuldin er sprottin af, fallist á að kröfuhafa sé heimilt að óska skráningar á vanskilum, enda séu skilyrði til þeirrar heimildar uppfyllt. Slík heimild skal vera áberandi og skýr og þurfa vanskil að hafa varað í a.m.k. 30 daga. Kröfuhafi sem óskar skráningar á grundvelli slíkrar heimildar skal um leið ábyrgjast að honum sé ekki kunnugt um að skuldari hafi nokkrar réttmætar mótbárur gegn greiðslu skuldarinnar. Beiðni um skráningu skal undirrituð af kröfuhafa sjálfum eða fyrirsvarsmanni, lögmanni í þjónustu hans eða fulltrúa hans.
8. Fyrir liggi sannanlega vanefndur nauðasamningur sem skuldari hefur gert og áskrifandi er aðili að.
9. Skuldari hafi ekki innan þriggja vikna orðið við áskorun lánardrottins, sem birt hefur verið honum eftir sömu reglum og gilda um birtingu stefnu í einkamáli, um að lýsa því skriflega yfir að hann verði fær um að greiða skuld við hlutaðeigandi lánardrottinn eða innan skamms tíma ef hún er þegar gjaldfallin, sbr. 5. tölul. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. lög nr. 95/2010.
ii. Upplýsingar um greiðsluhegðun
Safna má frá þátttakendum í sérstöku Greiðsluhegðunarkerfi, eftirfarandi upplýsingum um greiddar kröfur:
1. Kennitölu skuldara.
2. Gjalddaga kröfu.
3. Greiðsludag kröfu.
Slíkum upplýsingum má áskrifandi ekki miðla til starfsleyfishafa nema skuldari hafi áður fengið skriflega aðvörun um að þær verði sendar starfsleyfishafa og í hvaða tilgangi. Þetta skal gert með skýrum hætti og jafnframt gerð grein fyrir rétti hins skráða.
b. Úr opinberum gögnum.
Úr skrám sem aðgengilegar eru almenningi má safna eftirtöldum upplýsingum:
1. Upplýsingum dómstóla um skuldara skv. uppkveðnum dómum, eða skv. áritunum dómara á stefnur, sbr. 113. gr. laga nr. 91/1991. Slíkar upplýsingar má aðeins skrá ef umrædd skuld er að höfuðstóli a.m.k. kr. 30.000,-.
2. Upplýsingum um framkvæmd fjárnáma, skv. málaskrám um fjárnámsbeiðnir sem sýslumenn halda í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 17/1992. Þessi heimild tekur eingöngu til þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 4. tl., 6. tl., seinni hluta 10. tl. og í 11. tl. 4. gr. reglugerðarinnar. Upplýsingar má skrá um árangurslaus fjárnám án tillits til fjárhæðar, en um fjárnám með árangri ekki nema fjárhæð skuldar nemi a.m.k. kr. 30.000,-.
3. Upplýsingum um uppboð, sem sýslumaður hefur auglýst í samræmi við 1. mgr. 20. gr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 90/1991.
4. Upplýsingum um úrskurði um töku búa til gjaldþrotaskipta, sem fengnar eru í skrám þeim um gjaldþrotaskipti, sem héraðsdómstólar halda í samræmi við reglugerð nr. 226/1992. Heimild þessi tekur eingöngu til þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 2., 3. og 6. tl. 4. gr. reglugerðarinnar. Slíkar upplýsingar er einungis heimilt að varðveita þar til birt hefur verið auglýsing um skiptalok.
5. Upplýsingum um nauðasamningsumleitanir, innkallanir og skiptalok, sem birtar hafa verið í Lögbirtingablaðinu skv. 5. mgr. 85. gr. og 2. mgr. 162. gr. laga nr. 21/1991.
6. Upplýsingum um greiðslustöðvanir sem fengnar eru í skrám þeim um gjaldþrotaskipti sem héraðsdómstólar halda í samræmi við reglugerð nr. 226/1992. Aðeins er átt við þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 2. gr. reglugerðarinnar.
7. Upplýsingum um eignarhlut, þ.e. hlutdeild félagsaðila í hlutafélögum, einkahlutafélögum og eigin fé annarra félaga (með félagsaðila er hér átt við hluthafa í hlutafélagi og eiganda eignarhluta í öðru félagi sem lög nr. 3/2006 taka til).
3. gr.
Miðlun upplýsinga
3.1.
Heimil miðlun
Þeim upplýsingum, sem starfsleyfishafi má safna og skrá, má hann miðla með eftirfarandi hætti:
a. Með símaþjónustu og beinlínutengingu:
Starfsleyfishafi má veita upplýsingar símleiðis að því marki sem samrýmist 6. gr. reglugerðar nr. 246/2001. Þá má veita eftirfarandi upplýsingar með beinlínutengingu sem gerir kleift að fletta upp einstökum aðilum, einum í einu:
a.1. Miðlun upplýsinga sem safnað hefur verið frá kröfuhöfum.
Af þeim upplýsingum, sem starfsleyfishafi hefur fengið frá kröfuhöfum um vanskil, má hann aðeins miðla upplýsingum um kennitölu skuldara, gjalddaga og eindaga kröfu, hver sé kröfuhafi og fjárhæð vanskila.
Af þeim upplýsingum, sem starfsleyfishafi fær frá kröfuhöfum skv. 2. gr., staflið a.ii, má hann aðeins miðla til annarra upplýsingum um kennitölu greiðanda og miðgildi daga sem líða frá gjalddaga krafna á hendur honum til greiðsludags þeirra. Verður uppgefið miðgildi daga að taka til allra krafna sem starfsleyfishafi hefur undir höndum. Miðgildi þetta má aðeins gefa upp sem eina tölu og því aðeins að þegar þessar upplýsingar eru veittar liggi fyrir hjá starfsleyfishafa upplýsingar frá eigi færri en tveimur kröfuhöfum, sbr. 2. gr., staflið a.ii, um greiðslu á a.m.k. 10 viðskiptakröfum samtals.
a. 2. Miðlun upplýsinga sem safnað hefur verið úr almennt aðgengilegum skrám.
Af þeim upplýsingum, sem starfsleyfishafi safnar úr opinberum gögnum og almennt aðgengilegum skrám, má hann aðeins miðla upplýsingum um kennitölu skuldara, gjalddaga og eindaga kröfu, hver sé kröfuhafi og fjárhæð vanskila. Á það við hvort sem um sé að ræða upplýsingar um dóm, úrskurð, áritun á stefnu, fjárnám, nauðungarsölu, gjaldþrotaskipti, nauðasamningsumleitanir, innköllun eða skiptalok. Taka skal fram hvaðan viðkomandi upplýsingar eru fengnar.
Af þeim upplýsingum sem færðar eru á Ársreikningaskrá, sbr. 9. tl. 2. gr. laga nr. 3/2006, og starfrækt er í því skyni að taka á móti, geyma og birta ársreikninga skilaskyldra félaga og hafa eftirlit með félögum sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu reikningsskila, má starfsleyfishafi miðla upplýsingum um eignarhlut, þ.e. um hlutdeild viðkomandi félagsaðila í hlutafélögum, einkahlutafélögum og eigin fé annarra félaga sem lögin taka til.
b. Með afhendingu skrár til Reiknistofu bankanna:
Starfsleyfishafi má afhenda Reiknistofu bankanna heildarsafn þeirra upplýsinga sem hann safnar úr opinberum og almennt aðgengilegum skrám með þeirri aðferð og þeim skilyrðum sem greinir í a-lið hér að framan. Um notkun Reiknistofu bankanna á þeirri skrá fer nú samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum um meðferð persónuupplýsinga, auk starfsleyfa sem Reiknistofan kann að fá og vinnslusamningum sem ábyrgðaraðilar hafa gert eða kunna að gera við hana.
c. Með afhendingu skrár til einstakra banka og sparisjóða vegna heimabankaþjónustu:
Starfsleyfishafi má semja beint við einstaka banka og sparisjóði um afhendingu skráar enda verði hún gagngert og eingöngu nýtt til endursölu í heimabankaþjónustu. Sú skrá skal einungis bera með sér þær upplýsingar sem starfsleyfishafi safnar skv. 2. gr. Viðkomandi banki eða sparisjóður skal taka gjald fyrir hverja uppflettingu sem fer fram í gegnum heimabanka. Skal gjaldið vera að lágmarki kr. 1.000,-. Þá skal bæði tryggt að sá sem flettir upp þurfi ávallt að upplýsa tilgang uppflettingarinnar og að allar uppflettingar séu rekjanlegar til hans. Að öðru leyti skal fara samkvæmt þeim skilmálum sem almennt gilda um skrár starfsleyfishafa samkvæmt starfsleyfi þessu.
d. Með því að afhenda lista yfir fyrirhugaðar framhaldssölur á fasteignum:
Þessi heimild er takmörkuð við þær framhaldssölur sem sýslumaður hefur þegar auglýst í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 90/1991.
e. Með „vanskilavakt“:
Starfsleyfishafi má veita þjónustu sem felst í samkeyrslum skilgreindra kennitalna, skv. listum frá áskrifendum, við þá vanskilaskrá sem hann heldur.
3.2.
Óheimil miðlun upplýsinga
Eyðing og leiðrétting upplýsinga
Við gerð áskriftarsamnings skal starfsleyfishafi setja það skilyrði að viðkomandi áskrifandi skuldbindi sig til að tilkynna starfsleyfishafa tafarlaust um niðurfall skuldar að viðlagðri, eftir atvikum, fyrirvaralausri riftun áskriftarsamings. Á þetta við hvort heldur um er að ræða almennt aðgengilegar upplýsingar eða ekki. Sýni hinn skráði fram á að umrædd skuld hafi verið að fullu greidd, eða henni komið í skil með öðrum hætti, er óheimil öll frekari miðlun upplýsinganna.
Ef starfsleyfishafi hefur unnið með upplýsingar sem eru rangar, villandi eða ófullkomnar skal hann sjá til þess að upplýsingarnar verði leiðréttar, og þeim eytt eða við þær aukið ef umræddur annmarki getur haft áhrif á hagsmuni hins skráða. Hafi slíkum upplýsingum verið miðlað eða þær notaðar ber starfsleyfishafa eftir því sem honum er frekast unnt að hindra að það hafi áhrif á hagsmuni hins skráða.
Óheimilt er að skrá og/eða miðla fjárhagsupplýsingum sem eru eldri en fjögurra ára. Upplýsingar um töku bús til gjaldþrotaskipta má þó varðveita þar til birt hefur verið auglýsing um skiptalok. Þegar upplýsingar verða fjögurra ára gamlar skal þegar taka þær af þeirri skrá sem upplýsingum er miðlað úr. Starfsleyfishafa er þó heimilt að varðveita upplýsingarnar í þrjú ár til viðbótar, enda lúti þær ströngum aðgangstakmörkunum og þess gætt að ekki aðrir starfsmenn hafi aðgang að þeim en þeir sem nauðsynlega þurfa starfs síns vegna. Að þeim fresti liðnum skal þeim eytt.
Öllum greiðsluhegðunarupplýsingum skal eytt þegar fjögur ár eru liðin frá greiðsludegi.
4. gr.
Upplýsingakerfi um
fjárhagsskuldbindingar
Starfsleyfi þetta heimilar rekstur upplýsingakerfis sem hefur það að markmiði að veita lánveitendum, eða öðrum aðilum sem tengdir eru upplýsingakerfinu, upplýsingar um fjárhagsskuldbindingar skráðs lögaðila.
Þeim sem tengdir eru upplýsingakerfi starfsleyfishafa er óheimilt að gera fyrirspurn í upplýsingakerfið nema með samþykki þess lögaðila sem fyrirspurnin lýtur að. Slíkt samþykki skal vera undirritað í viðurvist starfsmanns þess aðila sem hefur aðgang að upplýsingakerfinu og skal fyrirsvarsmaður skráðs lögaðila framvísa persónuskilríkjum og fullnægjandi umboði. Ekki má afla samþykkis til fleiri en einnar fyrirspurnar í senn og skal framkvæma hana eigi síðar en þremur virkum dögum eftir undirritun beiðninnar.
Þegar fyrirspurn er gerð í upplýsingakerfið skal starfsleyfishafi afhenda eða senda afrit niðurstöðunnar til viðkomandi skráðs lögaðila. Er heimilt að nota sem póstfang það heimilisfang sem viðkomandi lögaðili hefur samkvæmt fyrirtækjaskrá.
Starfsleyfishafi skal varðveita upplýsingar um fyrirspurnir, þ.e. hver gerði fyrirspurn, um hvern og um niðurstöður fyrirspurnarinnar, í 2 ár.
Rekstur upplýsingakerfisins er að öðru leyti bundinn eftirfarandi skilmálum:
a. Að öll gagnaskipti milli starfsleyfishafa og þeirra sem tengjast umræddu kerfi séu á dulkóðuðu formi og útilokað sé að gera fyrirspurnir nema frá starfsstöð starfsleyfishafa, eða aðila sem samið hefur við hann um tengingu við kerfið.
b. Að einungis tilteknir starfsmenn starfsleyfishafa, sem undirriti sérstakt trúnaðarheit, vinni við upplýsingakerfið.
c. Að einungis verði unnt að gera fyrirspurnir um skuldastöðu skráðs lögaðila hjá þeim sem hafa gert samninga við starfsleyfishafa um tengingu við upplýsingakerfið.
d. Aðeins verði unnið með upplýsingar um:
i. Kennitölu skráðs lögaðila
ii. Höfuðstól skuldar eða ábyrgðarkröfu
iii. Útgáfudag láns
iv. Lánstíma
v. Tegund skuldbindingar
vi. Tegund láns (víxill/skuldabréf o.s.frv.)
vii. Upplýsingar um tryggingu (fasteignaveð, veð í bifreið, sjálfskuldarábyrgð o.s.frv.)
viii.Heildarstöðu láns
ix. Vanskilafjárhæð
x. Vaxtaprósentu
xi. Árlega greiðslubyrði
xii. Útistandandi lánsumsóknir
Einungis má vinna með upplýsingar sem hafa raunverulega þýðingu um skuldastöðu skráðs lögaðila á þeim tíma þegar fyrirspurn er gerð. Óheimilt er að vinna með upplýsingar um skuldastöðu sem orðnar eru fjögurra ára gamlar og hafa ekki lengur þýðingu fyrir mat á skuldastöðu skráðs lögaðila.
5. gr.
Réttur hins skráða
Starfsleyfishafa er skylt að afhenda skráðum aðila endurrit eða ljósrit af þeim upplýsingum sem hann hefur undir höndum um viðkomandi aðila. Ekki má krefjast hærra gjalds en sem nemur beinum kostnaði, s.s. við ljósritun gagna.
Starfsleyfishafa er skylt að greina skráðum aðila, endurgjaldslaust, frá því með hvaða hætti miðgildi daga, sem tilgreint er í 3. gr., er fengið. Leggi skráður aðili fram sönnun þess að útreikningur miðgildis sé rangur ber starfsleyfishafa að gera viðhlítandi leiðréttingu án tafar.
Starfsleyfishafi skal verða við beiðni hins skráða um upplýsingar svo fljótt sem verða má og afhenda þær eigi síðar en innan tveggja vikna frá móttöku beiðninnar. Ef sérstakar ástæður valda því að ómögulegt er fyrir starfsleyfishafa að afgreiða erindið innan þess frests er honum heimilt að gera það síðar. Í slíkum tilvikum skal, innan ofangreinds frests, gefa hlutaðeigandi skriflegar skýringar á ástæðum tafarinnar og hvenær svars sé að vænta.
Hafi starfsleyfishafi í vörslum sínum frekari upplýsingar um hinn skráða en þær sem beiðni lýtur að skal starfsleyfishafi gera beiðanda grein fyrir því. Jafnframt skal gera hinum skráða grein fyrir rétti sínum til þess að fá að kynna sér efni skrár af eigin raun.
6. gr.
Skyldur starfsleyfishafa
6.1.Viðvörunarskylda
Þegar starfsleyfishafi safnar persónuupplýsingum í samræmi við ákvæði leyfis þessa skal hann gera hinum skráða viðvart og skýra honum frá þeim atriðum sem talin eru upp í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 77/2000, með áorðnum breytingum. Skal hann senda slíka viðvörun eigi síðar en 14 dögum áður en hann miðlar upplýsingunum í fyrsta sinn.
Starfsleyfishafa er þó ekki skylt að senda slíka viðvörun ef ætla má að hinum skráða sé þegar kunnugt um vinnsluna, s.s. vegna þess að hann hafi áður fengið viðvörun frá starfsleyfishafa um þá vinnslu sem hann framkvæmir um hinn skráða, og ekki hafi orðið grundvallarbreyting á þeirri vinnslu. Þetta á þó ekki við hafi lengri tími en eitt ár liðið frá síðustu skráningu.
6.2. Samningsgerð
Þegar starfsleyfishafi semur við áskrifanda skal tryggt að í samningi komi fram að áskrifanda sé skylt að senda starfsleyfishafa upplýsingar um það ef skuld er greidd eða henni með öðrum hætti komið í skil. Þá skal koma fram að áskrifanda sé óheimilt að afrita skrána, samtengja hana við aðra skrá eða vinna með hana á nokkurn annan hátt, þótt viðkomandi kunni að fá tækifæri til slíks, t.d. fyrir mistök. Við gerð áskriftarsamnings skal áskrifandi einnig heita því að synji hann manni um lánveitingu á grundvelli upplýsinga frá starfsleyfishafa, muni hann greina hinum skráða frá þeirri ástæðu. Þá skal hann heita því að gera viðkomandi grein fyrir rétti sínum til að fá að vita hvaða upplýsingar um hann séu til hjá starfsleyfishafa.
6.3. Öryggi vinnslu
Starfsleyfishafi skal gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar gegn ólöglegri eyðileggingu, gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi. Starfsleyfishafi skal viðhafa innra eftirlit með reglubundnum hætti. Að öðru leyti þarf starfsleyfishafi að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 299/2001 um öryggi persónuupplýsinga. Eru ákvæði reglnanna hluti skilmála þessa leyfis.
6.4. Vinnsluaðili
Starfsleyfishafa er heimilt að semja við tiltekinn aðila um að annast, í heild eða að hluta, þá vinnslu persónuupplýsinga sem hann ber ábyrgð á, enda hafi hann áður sannreynt að umræddur vinnsluaðili geti framkvæmt viðeigandi öryggisráðstafanir og viðhaft innra eftirlit.
Hverjum þeim er starfar í umboði starfsleyfishafa eða vinnsluaðila, að vinnsluaðila sjálfum meðtöldum, og hefur aðgang að persónuupplýsingum, er aðeins heimilt að vinna með persónuupplýsingar í samræmi við fyrirmæli ábyrgðaraðila nema lög mæli fyrir á annan veg.
6.5. Starfsmenn
Hver sá sem starfar hjá starfsleyfishafa er þagnarskyldur um þau atriði sem hann kemst að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Sérhver starfsmaður starfsleyfishafa skal undirrita þagnarheit þegar eftir útgáfu leyfis þessa, hafi hann ekki þegar gert það. Nýir starfsmenn skulu undirrita slíkt heit þegar þeir hefja störf hjá starfsleyfishafa.
6.6. Skýrslugjöf til Persónuverndar
Starfsleyfishafi skal ársfjórðungslega tilkynna Persónuvernd um hve margir hafi aðgang að skrá hans og hverjir það eru, hve margir lögaðilar eru á skránni og hve mikið sé skráð af hverri tegund upplýsinga.
6.7. Annað
Auk ákvæða starfsleyfis þessa skal starfsleyfishafi ávallt fara að þeim ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 sem tilgreind eru í 2. mgr. 45. gr. þeirra laga auk annarra laga og réttarreglna sem í gildi eru hverju sinni, sbr. m.a. reglugerð nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust og reglur nr. 299/2001 um öryggi persónuupplýsinga.
7. gr.
Gildistími
Brottfall eldra leyfis
Starfsleyfi þetta gildir til 1. desember 2011. Samhliða útgáfu þess fellur úr gildi eldra starfsleyfi, dags. 16. desember 2009.
~