Úrlausnir

Heimild IKEA til að skrá kennitölur

18.4.2011

Svar við fyrirspurn Neytendasamtakanna um skráningu IKEA á kennitölum þeirra sem skila gölluðum vörum


1.
Fyrirspurn Neytendasamtakanna

Persónuvernd vísar til fyrirspurnar Neytendasamtakanna, dags. 7. mars 2011, varðandi lögmæti kennitöluskráningar Miklatorgs hf.- IKEA. Þar er ferlinu lýst með svofelldum hætti:

„Vöru skilað á þjónustuborði
Þjónustuborð gefur út inneignarnótu á kennitölu neytanda og krefst skilríkja til staðfestingar
Neytandi fer í gegnum kaupferlið aftur og kaupir vöruna aftur á sinni kennitölu
Neytandi greiðir fyrir nýju vöruna með inneignarnótunni og framvísar skilríkjum til að staðfesta að hann eigi inneignarnótuna.“


Síðan segir í bréfi samtakanna:

„Í þessu sambandi ber að hafa það í huga að kvörtunin snýr að kennitöluskráningu þegar neytandi skilar gallaðri vöru, og nýtir þannig rétt sinn til að fá bætt úr galla í skilningi laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Síðastliðið sumar úrskurðaði Persónuverndar í máli nr. 2010/53 þar sem um var að ræða kennitöluskráningu IKEA þegar neytandi nýtir sér skilarétt IKEA á ógölluðum vörum, sem er skilaréttur umfram lagaskyldu. Niðurstaðan var sú að kennitöluskráningin væri heimil m.a. vegna þess að um væri að ræða aukinn rétt en neytendur eiga skv. lögum um neytendakaup. Svo virðist sem IKEA noti sama kerfi þegar um er að ræða skil vegna gallaðrar vöru og þegar nýttur er rúmur skilaréttur IKEA, og skrái þannig niður kennitölur þeirra viðskiptavina sem vilja fá úrbætur vegna gallaðrar vöru. Neytendasamtökin telja óeðlilegt, og ekki í samræmi við 10. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að IKEA skrái niður kennitölur þeirra viðskiptavina sem krefjast úrbóta vegna gallaðrar vöru, enda er um lögvarinn rétt neytenda að ræða en ekki aukinn rétt eins og var að ræða í máli nr. 2010/53. Neytendasamtökin óska góðfúslega eftir því að Persónuvernd taki til skoðunar hvort kennitöluskráning IKEA þegar um úrbætur vegna galla er að ræða, sé í samræmi við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.“

2.
Skýringar Miklatorgs hf. /IKEA

Með bréfi, dags. 18. mars 2011, tilkynnti Persónuvernd Miklatorgi hf./IKEA um erindi Neytendastofu og óskaði nánari útskýringa á skráningu kennitölu viðskiptavina við skil á gölluðum vörum. Óskaði stofnunin sérstaklega eftir upplýsingum um það hvort kennitölur allra viðskiptavina væru skráðar á sambærilegan hátt, óháð því hvort um skil á gallaðri eða ógallaðri vöru væri að ræða. Svarbréf Þ, framkvæmdastjóra Miklatorgs hf. /IKEA, barst með tölvubréfi dags. 23. mars sl. Þar segir m.a.:

„[IKEA er] með 21 mismunandi skilunarkóða. Þessir mismunandi kóðar taka á öllum mögulegum ástæðum þess að vöru er skilað, en á endanum er tvennt sem stendur upp úr: a. að varan sé í söluhæfu ástandi og fari þ.a.l. aftur upp í hillu og er seld á fullu verði eða b. að varan sé ekki í söluhæfu ástandi og sé þá annaðhvort fargað eða seld með afföllum í gallaða horninu hjá okkur. [...]

Nú er það svo að þegar fólk er að skila til okkar vöru þá er í langflestum tilvikum verið að skila nokkuð mörgum vörum í einni og sömu skilun. Hver vara er skoðuð sérstaklega og skráð á réttan kóða, en ein skilun felur oft í sér marga mismunandi kóða. [...]Í þessu tilviki er öll skilunin skráð á sömu kennitölu og fær viðskiptavinurinn endurgreitt með inneignarnótu. Það væri sannarlega til að auka flækjustigið að vera með 2 mismunandi skráningar á þennan aðila, aðra fyrir skil á vörum þar sem ástæðan væri skipt um skoðun og síðan önnur fyrir skil þar sem undirliggjandi ástæða væri gölluð vara.

En til að svara fyrirspurn þinni þá er svarið einfalt. Við skráum allar skilanir á kennitölur, burtséð frá ástæðu skilunnar. Tölvukerfið hjá okkur er þannig uppbyggt að það er ekki hægt að [e]ndurgreiða eða gefa út inneignarnótu nema gild kennitala sé skráð í þar til gerðan reit. Það er heldur ekki hægt að innleysa inneignarnótu nema gefa upp gilda kennitölu og þarf hún a[ð] stemma við þá kennitölu sem inneignarnótan var upphaflega skráð á.

Sem fyrr segir þá gerum við ekki kröfu um að viðkomandi viðskiptavinur sýni fram á kaup á vörunni með kassakvittun, burtséð frá ástæðu skilunarinnar. Þetta er eins og áður hefur komið fram mjög víðtækur réttur til handa viðskiptavinum og viljum við í lengstu lög bjóða neytendum uppá þe[nn]an aukna rétt. Þetta er talsvert umfram það sem IKEA er að gera erlendis og langt umfram það sem tíðkast í viðskiptum hér á landi. [...]
 
Hvað varðar skráningu á kennitölum þá var gripið til þess ráðs m.a. til að stemma stigu við sívaxandi þjófnaði í versluninni þar sem menn síðan seldu útgefnar inneignarnótu með afföllum á barnalandi og víðar. Með því að tengja inneignarnótur við ákveðna kennitölu var, að ég tel algerlega komið í veg fyrir þessi viðskipti og hefur þetta því náð tilætluðum árangri. Því má svo við bæta að í þessu felst ákveðið öryggi fyrir þann sem er að skila, því týnd inneignarnóta þýðir ekki að viðkomandi hafi orðið fyrir skaða, þar sem viðkomandi getur fengið nýja nótu útgefna. Ef breytingar yrðu gerðar á þessum skilareglum í þá átt að þeir sem væru með gallaða vöru þyrftu ekki að sýna fram á persónuauðkenni, þá væri óheiðarlegum aðilum í lófa lagið að taka upp fyrri iðju og gefa upp galla, sem ástæðu skilunar. Þeir væru þá komnir með inneignarnótu í hendurnar sem þeir gætu þá breytt í peninga á sama hátt og þeir gerðu áður. [...]

Hvað varðar gallaðar vörur þá eru þær einungis lítill hluti af heildarskilun hjá okkur, þannig að þetta snertir tiltölulega fáa. Það sem af er þessu ári hefur verið skilað inn vörum fyrir rétt rúmar 35 milljónir og þar af eru gallaðar vörur 1,1 milljón eða 3,2% af heildarskilun, eða 0,01% af veltu á tímabilinu. Ég tel núverandi kerfi nýtast yfirgnæfandi meirihluta viðskiptavina okkar mjög vel og fá þeir fulla úrlausn sinna mála. Ef það þarf að gera breytingar á þessu fyrirkomulagi þá mun það því miður verða til þess að okkar rúmu skilareglur þrengjast, þorra viðskiptavina til skaða, því við getum ekki horfið til sama fars og áður var, þegar óheiðarlegir aðilar gerðu sér mat úr þessu.“


3.
Svar við fyrirspurn Neytendasamtakanna, dags. 7. mars 2011

Samkvæmt 6. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 skal Persónuvernd tjá sig, samkvæmt beiðni eða að eigin frumkvæði, um álitaefni varðandi meðferð persónuupplýsinga. Með vísun til þessa hlutverks tjáir hún sig um það atriði sem erindi Neytendasamtakanna lýtur að - þ.e. þegar gerð er krafa um kennitölu viðskiptavinar sem skilar gallaðri vöru og um almenn staðgreiðsluviðskipti er að ræða.  Til að skýra reglur um notkun kennitalna, og framkvæmd Persónuverndar við eftirlit með þeim reglum, þykir mega rekja eftirfarandi mál:


3.1.
Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2010/53

Hinn 22. júní 2010 kvað Persónuvernd upp úrskurð í máli nr. 2010/53 varðandi kvörtun [R] yfir skráningu á kennitölu hennar þegar hún skilaði ógallaðri vöru til Miklatorgs hf.- IKEA. Það var niðurstaða Persónuverndar að skráning kennitölunnar hafi verið heimil en veittur hafði verið aukinn réttur m.t.t. laga nr. 48/2003 um neytendakaup. Þar sagði m.a.:

„[...] skiptir máli að mati Persónuverndar að félagið veitir aukinn rétt m.t.t. laga nr. 48/2003, um neytendakaup, en í umsögn Neytendastofu kemur fram að seljendur hafa frjálsar hendur um rétt viðskiptavina til að skila vörum. Með vísan til alls framangreinds telur Persónuvernd að skráningu Miklatorgs hf. - IKEA á kennitölum viðskiptavina sem skila vörum sé ætlað að þjóna málefnalegum tilgangi í skilningi 10. gr. laga nr. 77/2000. Þá telur Persónuvernd, með vísun til þeirra skýringa sem fram koma í bréfi Miklatorgs hf. - IKEA dags. 14. maí 2010, að skráningin sé félaginu nauðsynleg til að umrædd viðskipti geti farið fram og þar með sé hún nauðsynleg til að tryggja persónugreiningu í skilningi sama ákvæðis.“


3.2.
Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2010/1020

Hinn 18. janúar 2011 fjallaði stjórn Persónuverndar um mál nr. 2010/1020 varðandi skráningu kennitalna á vegum fyrirtækis sem selur pizzur, bæði í pöntunarþjónustu og gegn staðgreiðslu. Taldi hún skráningu kennitalna vera heimil nema um staðgreiðsluviðskipti væri að ræða. Þar sagði m.a.:
„Hér er um að ræða skráningu á kennitölum þeirra sem panta pizzu. Í eðli sínu er ekki um hefðbundin staðgreiðsluviðskipti að ræða heldur viðskipti sem felast í því að pöntuð er sérútbúin vara sem ekki er greitt fyrr en hún hefur verið afhent - hún sótt eða heimsend. Samkvæmt framangreindu er tilgangur [P] með skráningu kennitalna málefnalegur. Þá uppfyllir skráningin það skilyrði að teljast vera fyrirtækinu nauðsynleg í skilningi ákvæðisins, að því er varðar þau viðskipti þegar vara er pöntuð og greidd við afhendingu. Það á hins vegar ekki við um þau tilvik þegar um staðgreiðsluviðskipti er að ræða, þ.e. þegar viðskiptavinur kemur inn á sölustað fyrirtækisins, leggur inn pöntun og borgar um leið - en fær vöruna afhenta þegar hún er tilbúin.“



3.3.
Úrskurður Persónuverndar í máli nr. 2009/661
Hinn 22. júní 2010 kvað stjórn Persónuverndar upp úrskurð í máli nr. 2009/661 varðandi skráningu á kennitölu manns sem vildi fá að kaupa vöru gegn afslætti í íþróttavöruverslun. Ekki var talið að skráning kennitölunnar væri heimil enda lá fyrir að umræddur afsláttur stóð öllum til boða. M.ö.o. var um að ræða almenn viðskiptakjör auk þess sem skráning á kennitölu mannsins fór ekki fram svo mögulegt væri að eiga umrædd viðskipti við hann heldur í þágu eftirlits, einkum með starfsmönnum verslunarinnar. Þar sagði m.a.

„Skilyrði að því er varðar skráningu upplýsinga um viðskiptavini er að vinnslan eigi sér stoð í einhverju af skilyrðum til vinnslu almennra persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Í 2. tölul. þeirrar greinar er ákvæði um vinnslu sem er nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði er aðili að. Hefur vinnsla verið talin heimil sé hún nauðsynleg til þess að viðskipti geti átt sér stað með lögmætum hætti. Ekki liggur fyrir að svo hafi verið í því máli sem hér um ræðir enda stóð umræddur afsláttur öllum til boða og skráning á kennitölu kvartanda fór ekki fram svo mögulegt væri að eiga umrædd viðskipti við hann heldur í þágu eftirlits með starfsmönnum [I]. Er því ekki fullnægt skilyrði 10. gr. laga nr. 77/2000 um að skráning kennitölu hafi verið nauðsynleg til að tryggja örugga persónugreiningu.“

3.4.
Álit
Eins og rakið er í framangreindum málum er notkun kennitölu heimil ef uppfyllt er eitthvert af skilyrðum 8. gr. laga nr. 77/2000. Oft er hún nauðsynleg vegna samnings í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. þeirrar greinar. Hún þarf hins vegar einnig að samrýmast 10. gr. laga nr. 77/2000. Það gerir hún ef hún á sér málefnalegan tilgang og er nauðsynleg til að tryggja örugga persónugreiningu.

Í neytendaviðskiptum getur skráning kennitalna oft átt sér málefnalegan tilgang. Á hinn bóginn þarf hún einnig að vera nauðsynleg vegna viðskiptanna. Við mat á því hvort það skilyrði er uppfyllt skiptir í fyrsta lagi máli hvort aðeins er um staðgreiðsluviðskipti að ræða. Í öðru lagi skiptir máli hvort aðeins sé veitt þjónusta sem lögskylt er að veita eða hvort að einhverju leyti sé um viðskipti er að ræða þar sem meta þarf sérstaklega að hvaða marki skráning kennitölu sé nauðsynleg vegna þeirra.
 
Í svari þessu er við það miðað að ekki sé um reikningsviðskipti að ræða heldur almenn staðgreiðsluviðskipti. Þá tekur það ekki til þess þegar veittur er aukinn réttur heldur aðeins þegar veittur er sá réttur sem lögskylt er að veita samkvæmt ákvæðum laga um neytendakaup nr. 48/2003. Í 26. gr. þeirra er mælt fyrir um úrræði neytanda vegna galla, þ.e. um úrræði ef söluhlutur reynist gallaður og gallinn er hvorki hans sök né stafar af aðstæðum sem hann varða. Í þeim tilvikum getur hann m.a. valið á milli úrbóta eða nýrrar afhendingar samkvæmt ákvæðum 29. og 30. gr.  Í 1. málsl. 1. mgr. ákvæðis 29. gr., sem er í samræmi við 3. mgr. 3. gr. tilskipunar um neytendakaup, er fjallað um rétt neytanda sem fær afhentan gallaðan söluhlut til að velja á milli þess að krefjast þess að seljandi bæti úr galla á eigin kostnað, t.d. með viðgerð, eða afhendi honum nýjan söluhlut.
 
Það er álit Persónuverndar að þegar viðskiptavini er aðeins veitt sú skilaþjónusta sem lögskylt er að veita honum samkvæmt lögum nr. 48/2003 um neytendakaup sé ekki heimilt að skrá kennitölu hans, nema fyrirtæki geti sýnt fram sérstakar aðstæður sem geri því slíka skráningu nauðsynlega vegna samningsgerðar, í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Að öðrum kosti telst hún ekki vera nauðsynleg í skilningi 10. gr. sömu laga. Með vísan til þessa telur Persónuvernd meginregluna vera þá að skráning fyrirtækja á kennitölum viðskiptavina, sem aðeins nýta lögvarinn rétt sinn samkvæmt lögum um neytendakaup, samrýmist ekki 10. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem geti réttlætt slíka skráningu.



Var efnið hjálplegt? Nei