Fréttir

Persónuupplýsingar úr tilkynningalínu Alcan fluttar úr landi

21.10.2011

Persónuvernd hefur veitt Alcan leyfi til flutnings persónuupplýsinga úr landi, þ.e. til aðila (InTouch) í Bandaríkjunum og til Ástralíu, í tengslum við kerfi fyrir uppljóstrarnir frá starfsmönnum.

Persónuvernd hefur veitt Alcan á Íslandi hf. leyfi til flutnings persónuupplýsinga úr landi, þ.e. til aðila (InTouch) í Bandaríkjunum og til Ástralíu.

Flutningurinn tengist kerfi fyrir uppljóstrarnir frá starfsmönnum. Leyfið er veitt á þeirri forsendu að persónuupplýsingunum verði veitt vernd í samræmi við ákvæði staðlaðra samningsákvæða í samræmi við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 77/2000.Sótt var um flutning persónuupplýsinga vegna reksturs á tilkynningalínu, sem á ensku nefnist SPEAK-OUT. Með henni á starfsmönnum að vera gert kleift að gera viðvart um ýmis konar brot á lögum og reglum sem þeir treysta sér ekki til að gera upp við yfirmenn á sínum vinnustað.

Rekstur tilkynningarlínunnar er liður í því að tryggja að staðið verði við almennar skuldbindingar samkvæmt eigin kröfum, siðareglum og landslögum á hverjum stað. Alcan á Íslandi hf. hefur samið við erlend þjónustufyrirtæki til að annast móttöku tilkynninga og áframsenda þær til viðeigandi aðila innan Rio Tinto sem falið hefur verið það hlutverk að rannsaka erindin og eftir atvikum bregðast við þeim. Þjónustufyrirtækin hafa jafnframt milligöngu um upplýsingagjöf um framgang mála til þeirra sem borið hafa upp erindi.

Leyfi Alcan til flutnings persónuupplýsinga úr landi má nálgast hér



Var efnið hjálplegt? Nei