Fréttir

Leiðbeiningar fyrir forsetaframbjóðendur í aðdraganda kosninga

6.5.2024

Fjölmiðlanefnd, Fjarskiptastofa og Persónuvernd hafa í samstarfi við landskjörstjórn og Ríkislögreglustjóra sett saman leiðbeiningar fyrir frambjóðendur til forsetakjörs sem fer fram þann 1. júní nk. Leiðbeiningarnar varða rétt einstaklinga til réttra upplýsinga, friðhelgi og persónuverndar í aðdraganda kosninga.

Fyrir alþingiskosningarnar árið 2021 var settur á laggirnar samráðshópur um vernd einstaklinga í aðdraganda kosninga. Meginmarkmið hópsins er að tryggja að stjórnvöld, samkvæmt þeim lagaramma sem hvert um sig starfar eftir, fái viðeigandi upplýsingar sem geri þeim kleift að bregðast við, eins fljótt og auðið er, ef tilefni gefst til þess. Hugsanlegar ógnir við framkvæmd almennra kosninga sem hér geta verið undir varða m.a. persónuvernd, upplýsingaóreiðu, netöryggi og þjóðaröryggi.

Tækniþróun síðustu ára hefur skapað aðstæður sem geta leitt af sér nýjar ógnir við lýðræði. Samtal fyrrgreindra aðila er talið henta best til að koma í veg fyrir að slíkar ógnir raungerist.

Samráðshópurinn hélt upplýsingafund og setti hver stofnun fyrir sig fram leiðbeiningar fyrir frambjóðendur í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga árið 2022. Hópurinn hefur nú ákveðið að setja fram sameiginlegar leiðbeiningar fyrir frambjóðendur í aðdraganda forsetakosninganna. Þau stjórnvöld sem eiga fulltrúa í samráðshópnum eru Fjölmiðlanefnd, Fjarskiptastofa, Persónuvernd, Ríkislögreglustjóri og landskjörstjórn. Hlutverk samráðshópsins er að auðvelda upplýsingaskipti milli viðeigandi stjórnvalda í aðdraganda kosninga.

Sameiginlegar leiðbeiningar Persónuverndar, Fjölmiðlanefndar og Fjarskiptastofu fyrir frambjóðendur til forsetakjörs

Leiðbeiningar Persónuverndar fyrir frambjóðendur til embættis forseta Íslands 2024

 



Var efnið hjálplegt? Nei