Samþykkisyfirlýsingar hjá umboðsmanni skuldara - mál nr. 2012/1298
Persónuvernd hefur lagt fyrir umboðsmann skuldara (UMS) að gera tilteknar úrbætur á samþykkiseyðublöðum sínum, nánar tiltekið hvað varðar fræðslu um afleiðingar þess ef samþykki er afturkallað og að skýrt verði tekið fram í hvaða mæli skrifleg erindi verði send til fjármálastofnana, og eftir atvikum annarra, þar sem fram kemur að viðkomandi hafi leitað til hans. Fer Persónuvernd þess á leit að UMS sendi staðfestingu um að farið hafi verið að framangreindum fyrirmælum eigi síðar en 1. ágúst nk.
Efni: Varðandi samþykki fyrir vinnslu persónuupplýsinga hjá umboðsmanni skuldara
Persónuvernd vísar til fyrri bréfaskipta af tilefni bréfs stofnunarinnar til umboðsmanns skuldara, dags. 16. október 2012. Í því bréfi var í fyrsta lagi svaraði erindi umboðsmanns frá 6. júlí s.á. þar sem óskað var athugasemda við eyðublöð fyrir samþykki fyrir öflun gagna og umboð einstaklings til þriðja manns til að fá upplýsingar um mál hans hjá umboðsmanni. Í öðru lagi óskaði Persónuvernd skýringa varðandi það hvernig þeir sem til umboðsmanns leituðu væru fræddir um miðlun upplýsinga um þá til þriðju aðila sem fram kæmu í gagnabeiðnum. Umboðsmaður skuldara svaraði með bréfi, dags. 26. nóvember 2012.
1.
Bréfaskipti
Í framangreindu bréfi Persónuverndar, dags. 16. október 2012, var gerð sú athugasemd að ekki kæmi fram í eyðublöðum fyrir samþykkisyfirlýsingar hverjar afleiðingar þess væru ef samþykki væri afturkallað, sbr. 7. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá var bent á að þegar einstaklingur á ekki kost á tiltekinni þjónustu eða úrræði hjá stjórnvaldi, nema hann riti undir samþykkisyfirlýsingu, gætu risið vafamál um hvort því skilyrði fyrir gildu samþykki, þ.e. samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, væri fullnægt að það væri veitt af fúsum og frjálsum vilja. Yrði þá að kanna hvort aðrar heimildir til vinnslu persónuupplýsinga en samþykki gætu átt við.
Í bréfi umboðsmanns skuldara, dags. 26. nóvember 2012, kemur fram að sú athugasemd Persónuverndar verði tekin til skoðunar að í samþykkiseyðublöðum sé ekki vikið að afleiðingum afturköllunar á samþykki. Þá segir að auk 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 geti 2. og 3. tölul. sömu málsgreinar rennt stoðum undir umrædda vinnslu. Samkvæmt 2. tölul. má vinna með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að efna samning sem hinn skráði er aðili eða til að gera ráðstafanir að beiðni hins skráða áður en samningur er gerður. Þá er vinnsla persónuupplýsinga heimil samkvæmt 3. tölul. sé hún nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu. Nánar tiltekið vísar umboðsmaður til þess að upplýsingar frá þeim sem leita til umboðsmanns skuldara séu nýttar í tengslum við samningsgerð við kröfuhafa, sem og til þeirra skyldna sem á embætti hans hvíla samkvæmt lögum nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga.
Í bréfi, Persónuverndar, dags. 16. október 2012, segir varðandi fræðslu um miðlun:
„Í nýlegu máli Persónuverndar (mál nr. 2012/564, ákvörðun dags. 11. október 2012), var fjallað um kvörtun manns yfir því að lánveitandi hefði fært það sérstaklega í viðskiptamannaskrá sína að borist hefði skriflegt erindi frá umboðsmanni skuldara. Þessar upplýsingar notaði lánveitandinn í starfsemi sinni. Maðurinn kvaðst aðeins hafa óskað ráðgjafar hjá embættinu. Þá kvaðst hann hafa verið grunlaus um að embættið aflaði upplýsinga með skriflegu erindi til allra fjármálastofnana fremur en uppflettingu í tölvukerfum. Má geta þess að samkvæmt samþykkisyfirlýsingu, sem fylgdi kvörtun mannsins til Persónuverndar, skyldi engum upplýsingum miðlað til þriðja aðila nema að höfðu samráði við hann og að fengnu hans leyfi.
Niðurstaða Persónuverndar var sú að umrædd færsla lánafyrirtækisins hefði samrýmst 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Hins vegar ákvað stjórn Persónuverndar að óska skýringa umboðsmanns skuldara á því hvernig staðið sé að því að uppfylla fræðsluskyldu ábyrgðaraðila samkvæmt 20. og 21. gr. gr. laga nr. 77/2000.“
Í svari umboðsmanns skuldara, dags. 26. nóvember 2012, segir:
„Embætti umboðsmanns skuldara telur rétt að taka fram að ekki er lengur notast við þá samþykkisyfirlýsingu sem tengist kvörtun til Persónuverndar í því máli sem vísað er til í bréfi stofnunarinnar, mál nr. 2012/564, ákvörðun dags. 11. október 2012. Ný samþykkisyfirlýsing um gagnaöflun vegna ráðgjafar var tekin í notkun sl. vor en þar kemur fram fræðslutexti þar sem umsækjandi er upplýstur um það hvaða gagna verður aflað og ástæður fyrir gagnaöfluninni. Í þeirri samþykkisyfirlýsingu heimilar einstaklingur einnig með undirskrift sinni að embættið sendi til kröfuhafa greiðsluerfiðleikamat og önnur nauðsynleg gögn þegar óskað er eftir milligöngu um samskipti og samninga við kröfuhafa.“
Í samþykkisyfirlýsingum frá umboðsmanni skuldara, sem fylgdu erindi hans frá 6. júlí 2012, segir að veitt sé heimild til að afla gagna, m.a. rafrænt, varðandi tekjur, gjöld, eignir og skuldir. Þá segir að veitt sé heimild til að hafa milligöngu um samskipti og samninga við kröfuhafa og senda til þeirra greiðsluerfiðleikamat og önnur nauðsynleg gögn. Í samþykkisyfirlýsingunum kemur hins vegar ekki fram að send verði skrifleg erindi til fjármálastofnana –þar sem upplýst sé um að þeir hafi leitað til umboðsmanns skuldara – umfram þá milligöngu sem að framan greinir.
2.
Ákvörðun Persónuverndar
Ekki eru gerðar athugasemdir við framangreindan skilning umboðsmanns skuldara á heimildum samkvæmt 8. gr. eins og á stendur, en tekið skal fram að til frekari umfjöllunar Persónuverndar kann að koma um það atriði síðar, s.s. ef stofnuninni berast kvartanir frá einstaklingum yfir vinnslu persónuupplýsinga á vegum umboðsmanns skuldara.
Með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000 hefur stofnunin hins vegar ákveðið að leggja fyrir umboðsmann skuldara að gera eftirfarandi úrbætur á samþykkiseyðublöðum sínum:
- Bætt verði við fræðslu um afleiðingar þess ef samþykki sé afturkallað.
- Skýrt verði tekið fram í hvaða mæli skrifleg erindi verði send til fjármálastofnana, og eftir atvikum annarra, þar sem fram komi að viðkomandi einstaklingur hafi leitað til umboðsmanns skuldara.
Senda skal Persónuvernd staðfestingu á að farið hafi verið að framangreindum fyrirmælum eigi síðar en 1. ágúst nk.