Úrlausnir

Ósannað að leynileg, rafræn vöktun hafi farið fram

7.2.2014

Persónuvernd hefur lokið afskiptum af máli þar sem kvartað var yfir að sett hefði verið upp leynileg njósnamyndavél sem tæki upp hljóð og mynd í garði kvartanda. Ekki var staðreynt að slík vöktun hefði farið fram. Af þeim sökum var ekki unnt að skera úr um hvort brotið hafi verið gegn lögum nr. 77/2000.

Ákvörðun

 

Í samræmi við niðurstöðu á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 16. janúar 2014 hefur verið tekin eftirfarandi ákvörðun í máli nr. 2013/662:

 

I.

Málavextir og bréfaskipti

Hinn 22. maí 2013 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur „kvartandi“), dags. s.d., yfir að [B], nágranni hans, tæki upp bæði hljóð og mynd í garði hans. Samhliða afhendingu kvörtunarinnar sendi kvartandi stofnuninni ljósmynd af myndavélinni í tölvupósti. Í kvörtun segir:

„Kvartað er yfir örsmárri felumyndavél sem tekur upp hljóð og mynd sem [B] hefur beint út í garð sem einungis íbúar efri hæðar nota, í þeim augljósa tilgangi að njósna um íbúa og þar með valda miklum óhug á heimili okkar.“

Þá kemur fram að kvartandi hafi aflað sér upplýsinga um eiginleika umræddrar myndavélar. Um þá segir:

„– Mini DV 1280x960, 5,0 mega-pixla-vél, video-upptaka 85 mín, hljóðupptaka 3 tímar, myndavél, video, hljóðupptaka og vefmyndavél.

– Hreyfiskynjari sem tekur upp ef einhver hreyfing er við myndavélina.

– HD-video-upptaka.“

Með bréfi, dags. 4. júní 2013, var [B] veitt færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun, en hjálögð var útprentun af fyrrnefndri ljósmynd. Hinn 6. s.m. barst tölvubréf frá honum þar sem hann óskaði eftir að fá ljósmyndina á stafrænu formi. Sú beiðni var ítrekuð með tölvubréfi hinn 17. s.m., en auk þess tekur [B] þar meðal annars fram að kvartandi hafi aldrei haft samband við sig vegna umræddrar myndavélar. Að öðru leyti taldi [B] sér ekki fært að tjá sig efnislega um málið þar eð hann hefði ekki fengið fyrrnefnda ljósmynd í hendur á stafrænu formi. Með tölvubréfi hinn 26. júní 2013 varð Persónuvernd við beiðni hans þar að lútandi og veitti honum jafnframt viðbótarfrest til 4. júlí s.á. til að koma á framfæri efnislegum athugasemdum.

Hinn 28. júní 2013 hafði kvartandi samband við Persónuvernd símleiðis og spurði hvort svör hefðu borist frá [B]. Greindi Persónuvernd þá kvartanda frá framangreindum tölvupóstsamskiptum 6., 17. og 26. júní 2013. Síðar um daginn kom eiginkona hans á skrifstofu stofnunarinnar og sótti afrit af þeim.

Með bréfi til [B], dags. 24. júlí 2013, minnti Persónuvernd á að ekki hefði borist efnislegt svar við fyrrnefndu bréfi stofnunarinnar til hans, dags. 4. júní s.á. Var honum ítrekað veitt færi á athugasemdum og bárust þær hinn 8. ágúst 2013. Þar kemur fram af hans hálfu að ljósmynd af myndavél á glugga á heimili hans, sem fylgt hafi kvörtun, hafi verið tekin í óleyfi. Þá segir meðal annars að kvörtunin sé byggð á röklausum forsendum.

Hinn 8. ágúst 2013 hafði kvartandi samband við skrifstofu Persónuverndar símleiðis og spurði hvort stofnuninni hefði borist svar frá [B]. Starfsmaður, sem var með málið, var í sumarleyfi en sendi kvartanda texta svars [B]  í tölvupósti að leyfinu loknu, þ.e. hinn 4. september 2013. Þá var kvartanda veitt færi á að tjá sig um svarið. Hann gerði það með bréfi, dags. 17. september 2013. Þar segir meðal annars:

„Mál þetta á sér nokkra forsögu en í október 2012 ræða [A] og móðir hans [C], við [B] meðal annars vegna stórs myndavélaþrífótar sem við íbúar efri hæðar sáum að búið var að koma fyrir útí glugga og honum þar beint útí garð okkar.

[B] brást ókvæða við spurningum þess efnis hvort hann væri að taka okkur íbúa efri hæðar upp í garðinum eða í hvaða tilgangi þessum búnaði væri beint útí garð okkar.

Það mátti því vera [B] fullljóst að við mundum ekki sætta okkur við slíka háttsemi, því lítum við svo á að um mjög skýran brotavilja sé að ræða, þ.e.a.s að verða sér útum búnað sem samkvæmt upplýsingum okkar fæst ekki á landinu og gengur undir nafninu spycam og nýta í tilgangi sem okkur er hulin ráðgáta.

Við undirrituð getum ekki vitað hvenær [B] kom búnaðinum fyrir, okkur varð það aftur á móti ljóst 22. maí 2013 og leitum þá strax með málið til Persónuverndar, að sama skapi vitum við ekki hvar hann er niðurkominn í dag en ekki er hægt að sjá þann upptökubúnað sem um ræðir í þeim sama glugga og þegar kvörtun okkar var lögð fram þegar þetta er ritað.

Einsog fram hefur komið þá fylgdi stafræn mynd kvörtun okkar til staðfestingar, hafi það aftur á móti ekki verið fullnægjandi þá hefur á annan tug vitna skrifað undir að hafa séð upptökubúnaðinn máli okkar til enn frekari staðfestingar.“

Framangreindu svari kvartanda fylgdi skjal með framangreindum undirskriftum, alls tólf talsins.

Með bréfi, dags. 20. september 2013, var [B] boðið að tjá sig um umrætt svar kvartanda, en ljósrit af áðurnefndum undirskriftum var hjálagt. Hann svaraði með tölvubréfi hinn 2. október 2013. Þar er meðal annars áréttuð sú afstaða hans að rökstuðning vanti fyrir ásökun um uppsetningu felumyndavélar. Þá kemur fram að hann telur ekki nógu skýrt í hverju meintar njósnir eigi að felast eða að hverju myndavélinni hafi verið beint.

Með bréfi, dags. 30. október 2013, óskaði Persónuvernd þess af [B] að hann svaraði til um (a) hvort hann hefði tekið upp hljóð og mynd í garði kvartanda, (b) í hvaða mæli slíkar mynda- og upptökur hefðu þá verið (t.d. hvort þær hefðu verið reglubundnar eða viðvarandi) og (c) hvaða rök hann teldi þær þá styðjast við. [B] svaraði með tölvubréfi hinn 11. nóvember 2013. Þar er rakin saga deilna hans og kvartanda í allítarlegu máli. Þá kemur fram sú afstaða að kvartandi fari ekki með rétt mál, sbr. eftirfarandi orð:

„Einnig skal kvartari bara gjöra svo vel að framreiða hver önnur gögn sem styðja fullyrðingar hans um aðrar meintar „njósnir“ og vera ekki að láta ímyndunaraflið hlaupa með sig í gönur og ljúga öllu illu uppá kvörtunarþola.“

II.

Niðurstaða

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. laganna. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 6. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Hugtakið tekur til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga og sjónvarpsvöktunar sem fram fer með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðrar aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.

Eins og rakið hefur verið lýtur kvörtun að því að sett hafi verið upp leynileg njósnamyndavél sem taki upp hljóð og mynd í garði kvartanda. Í notkun slíkrar myndavélar fælist vinnsla persónuupplýsinga um hann, sem og rafræn vöktun í framangreindum skilningi.

Í máli þessu liggur ekki fyrir sönnun um að sú myndavél, sem kvörtun tilgreinir, hafi í raun verið nýtt til leynilegrar, rafrænnar vöktunar og söfnunar persónuupplýsinga í tengslum við hana. Ekki er því staðreynt að [B] hafi viðhaft slíka vöktun í garði [A] og safnað persónuupplýsingum í tengslum við hana þannig að fari í bága við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í samræmi við það er niðurstaða stofnunarinnar sú að ekki sé unnt að skera úr um hvort brotið hafi verið gegn lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 



Var efnið hjálplegt? Nei