Úrlausnir

Birting upplýsinga í fasteignaskrá um kaupmála – 2013/407

20.3.2014

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli um að Þjóðskrá Íslands hafi verið heimilt að gera kaupmála kvartanda og eiginkonu hans aðgengilegan í fasteignaskrá.

Úrskurður

 

Á fundi stjórnar Persónuverndar þann 13. febrúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli nr. 2013/407:

 

I.

Málavextir og bréfaskipti

1.

Hinn 14. mars 2013 barst Persónuvernd kvörtun frá [A] (hér eftir nefndur „kvartandi“) yfir birtingu Þjóðskrár Íslands á kaupmála hans og eiginkonu hans í fasteignaskrá. Í kvörtuninni segir meðal annars:

„Undirritaður fær ekki skilið hvernig slík birting fær staðist lög um persónuvernd þar sem þessi kaupmáli fjallar um að sú fasteign sem eiginkona mín átti fyrir hjúskap sé í okkar hjúskap hennar séreign ásamt þeim ágóða sem hlýst af henni verði hún seld.“

Einnig segir að eftir því sem kvartandi hafi kannað séu kaupmálar milli tveggja einstaklinga ekki á meðal þeirra skjala sem heimilt sé að birta. Líklegt megi telja að Þjóðskrá telji sér heimilt að birta kaupmálann þar sem hann feli í sér eignaskiptayfirlýsingu, en ekki sé um slíkt að ræða þar sem kvartandi hafi aldrei verið skráður eigandi framangreindrar fasteignar né komið að fjármögnun hennar. Þá segir:

„Ekki fæ ég séð að birting þessa kaupmála samræmist 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd þar sem innihald þessa kaupmála varðar ekki almannahagsmuni, er ekki til þess að vernda hagsmuni okkar hjóna ásamt því að við höfum ekki veitt ótvírætt samþykki okkar fyrir þessari birtingu.
Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað segir að í Lögbirtingablaði skuli birta auglýsingar um kaupmála hjóna, ekkert kemur fram um að birta skuli kaupmálann í heild sinni.“


Einnig vísar kvartandi til grunnreglu 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs og fer fram á að Persónuvernd kanni lögmæti umræddrar birtingar.

 

Með bréfi, dags. 24. apríl 2013, ítrekuðu með bréfi, dags. 18. júní s.á., var Þjóðskrá veitt færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun. Hún svaraði með tölvubréfi hinn 24. s.m. Þar segir:

„Ekki kemur fram í fyrirspurninni hvernig aðgengi að kaupmálanum er háttað en talið er víst að átt sé við aðgang viðskiptavina Creditinfo Lánstrausts að skönnuðum skjölum í þinglýsingarhluta fasteignaskrár.  Ef upplýsingar um kaupmála eru sóttar annað en úr þinglýsingarhluta fasteignaskrár eru þær upplýsingar ekki fengnar frá Þjóðskrá Íslands.  

Þinglýsing felur í sér opinbera skráningu réttinda yfir tilteknum eignum til þess að þau njóti réttarverndar gagnvart þriðja manni. 

Um upplýsingagjöf úr þinglýsingarbók er fjallað í III. kafla reglugerðar um þinglýsingar nr. 405/2008, en reglugerðin er sett með heimild í 53. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978. 

Aðgang að upplýsingum úr þinglýsingarbók má skv. ofangreindri reglugerð bæði fá hjá sýslumannsembættum landsins og með rafrænum hætti.  Bæði er um að ræða þinglýsingarvottorð sem staðfest er af embættunum og svokallað rafrænt veðbandayfirlit sem ekki er staðfest af embætti.  Auk þess má fá ljósrit af þinglýstum skjölum eða rafræn endurrit þeirra (skönnuð eintök).  

Aðgangur að þinglýstum skjölum er eingöngu með þeim hætti að leitað er eftir auðkenni eða heiti eignar. Ekki er hægt finna þinglýst skjal í þinglýsingarhluta með því að leita eftir málsaðilum skjalsins. Í ofangreindu tilviki er því gert ráð fyrir að kaupmálann hafi verið að finna í þinglýstum skjölum tiltekinnar fasteignar.

Creditinfo Lánstraust fékk þann 30. júní 2003 leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til miðlunar á upplýsingum úr tölvufærðum þinglýsingarbókum. 

Um framkvæmd skráningar í kaupmálabók og þinglýsingar kaupmála í þinglýsingarbók er vísað til viðkomandi sýslumannsembættis.“

 

Með tölvubréfi hinn 30. október 2013, ítrekuðu með tölvubréfi hinn 23. janúar 2014, var kvartanda veitt færi á að tjá sig um framangreint svar Þjóðskrár. Hann svaraði með tölvubréfi hinn 25. s.m. þar sem ekki koma fram efnislegar athugasemdir.

 

II.

Forsendur og niðurstaða

1.

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að hér ræðir um meðferð persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

 

2.

Fyrir liggur að umræddar upplýsingar eru veittar með milligöngu Creditinfo Lánstrausts hf., þ.e. á þann hátt að finna má umræddan kaupmála með leit eftir auðkenni eða heiti eignar. Af 13. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga leiðir að ábyrgðaraðila að vinnslu persónuupplýsinga er heimilt að láta annan aðila, þ.e. svonefndan vinnsluaðila, vinna með persónuupplýsingar fyrir sína hönd í samræmi við tiltekin skilyrði. Eins og hér háttar til ber að líta svo á að til staðar sé réttarsamband samkvæmt þessu ákvæði milli Þjóðskrár og Creditinfo Lánstrausts hf. þar sem Þjóðskrá telst vera ábyrgðaraðili en fyrirtækið vinnsluaðili.

 

Af framangreindu leiðir að Þjóðskrá ber ábyrgð á því að upplýsingagjöfin styðjist við viðhlítandi lagaheimildir, en í því felst nánar tiltekið að eins og ávallt við vinnslu persónuupplýsinga þarf að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Þau ákvæði þeirrar greinar, sem einkum reynir á þegar um ræðir vinnslu persónuupplýsinga á vegum stjórnvalda, eru 3., 5. og 6. tölul. 1. mgr., þess efnis að vinna má með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds.

 

Við mat á heimildum samkvæmt framangreindum ákvæðum ber að líta til ákvæða í öðrum lögum eftir því sem við á hverju sinni. Um kaupmála er fjallað í hjúskaparlögum nr. 31/1993, sem og ýmsum öðrum lögum. Eins og fram kemur í 74. gr. hjúskaparlaga geta hjón eða hjónaefni með kaupmála ákveðið að tiltekin verðmæti skuli verða séreign annars þeirra en ekki hjúskapareign, en af því leiðir að verðmætin koma ekki til skipta við skilnað eða andlát nema sérstakar heimildir leiði til annars. Þá fela 67. og 68. gr. hjúskaparlaga í sér þá meginreglu að kröfuhafar annars hjóna geta ekki gengið að séreign hins með sama hætti og ef um hjúskapareign væri að ræða. Frá því eru hins vegar undantekningar, t.d. við gjaldþrotaskipti þegar ákvörðun um séreign í kaupmála getur talist til riftanlegrar gjafar nema tiltekinn tími sé liðinn frá slíkri ákvörðun, sbr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

 

Samkvæmt 82. gr. hjúskaparlaga er kaupmáli ekki gildur milli hjóna og gagnvart þriðja manni nema hann sé skráður, sbr. nánari ákvæði í 83.–86. gr. laganna þar sem fram kemur að kaupmálar skuli færðir í sérstakar kaupmálabækur, sem og allsherjarskrá yfir alla kaupmála. Þá er í 2. mgr. 85. gr. mælt fyrir um að kaupmálar skuli auglýstir í Lögbirtingablaði, sbr. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, en auk þess á hver sem þess óskar rétt á upplýsingum um tilvist kaupmála og efni hans, sbr. 90. gr. hjúskaparlaga.

 

Lúti kaupmáli að fasteign öðlast hann ekki gildi nema honum sé þinglýst, sbr. 1. mgr. 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 þar sem segir að réttindum yfir fasteign skuli þinglýsa til þess að þau haldi gildi gegn þeim sem reisa rétt sinn á samningum um eignina og gegn skuldheimtumönnum eiganda eða annars rétthafa að eign. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. þinglýsingalaga og 4. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna skulu upplýsingar um þinglýsingu réttinda yfir fasteignum skráðar í fasteignaskrá, en hún er haldin af Þjóðskrá, sbr. 1. mgr. 1. gr. síðarnefndu laganna. Þá er í 1. mgr. 24. gr. þeirra laga mælt fyrir um heimild Þjóðskrár til að láta í té upplýsingar úr fasteignaskrá.

 

Af framangreindu verður ráðinn sá vilji löggjafans að í ljósi réttaráhrifa kaupmála – ekki aðeins gagnvart hjónum heldur einnig kröfuhöfum – skuli almenningur hafa rétt til aðgangs að upplýsingum um þá. Í ljósi 3., 5. og 6. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 og ákvæða í öðrum lögum, sem varða kaupmála og birtingu þeirra, telur Persónuvernd því upplýsingagjöfina samrýmast lögum.

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Þjóðskrá Íslands er heimilt að gera kaupmála [A] og eiginkonu hans aðgengilegan í fasteignaskrá, nánar tiltekið á þann hátt að finna megi kaupmálann með leit eftir auðkenni eða heiti eignar.

 



Var efnið hjálplegt? Nei