Úrlausnir

Álit um birtingu teikninga af húsum hjá Kópavogsbæ

20.10.2011

Álit


Hinn 12. október 2011 veitti Persónuvernd svohljóðandi álit í máli nr. 2011/349:

 

I.

Bréfaskipti

1.

Hinn 30. mars 2011 barst Persónuvernd bréf frá Kópavogsbæ, dags. 28. s.m., varðandi birtingu á teikningum af húsum og tengdum upplýsingum á heimasíðu bæjarins.

Í bréfinu er vísað til máls af tilefni kvörtunar til Persónuverndar, dags. 6. október 2009 (mál nr. 2009/868), yfir birtingu slíkra upplýsinga á heimasíðunni. Með bréfi, dags. s.d., veitti Persónuvernd Kópavogsbæ færi á að tjá sig um þessa kvörtun. Bærinn svaraði með bréfi, dags. 29. október 2009, þar sem fram kom að umræddrar upplýsingar væru ekki lengur aðgengilegar á heimasíðunni. Með vísan til þessa sendi Persónuvernd kvartanda bréf, dags. 30. s.m., þess efnis að ekki yrði í ljósi þessa aðhafst frekar í málinu þar sem ágreiningur væri ekki til staðar. Ekki kom því til þess að Persónuvernd kvæði þá upp úrskurð um lögmæti birtingarinnar.

Í framangreindu bréfi Kópavogsbæjar, dags. 28. mars 2011, segir hins vegar:

„Kópavogsbær telur að þörf sé á að veita aðgang að teikningum og tengdum upplýsingum á netinu, enda hafa allmargir viðskiptavinir lýst yfir óánægju með að búið sé að loka aðganginum. Meðal þeirra sem þörf hafa fyrir slíkar upplýsingar eru fasteignasalar og aðilar sem annast viðhald fasteigna. Mikill sparnaður fæst með því að að veita aðgang að upplýsingunum í gegnum vefinn í stað þess að afgreiða þær handvirkt. Mörg önnur sveitarfélög veita aðgang að hliðstæðum upplýsingum á netinu, sbr. meðfylgjandi samantekt sem gerð var í tilefni af fyrrgreindri kvörtun árið 2009..... Af því tilefni er óskað eftir að Persónuvernd gefi álit sitt á því hvort birting upplýsinganna brjóti gegn lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.“

2.

Með bréfi, dags. 8. júní 2011, óskaði Persónuvernd þess að Kópavogsbær greindi frá því hvernig hann teldi birtingu umræddra upplýsinga samrýmast 8. gr. laga nr. 77/2000. Með bréfi, dags. 21. s.m., greindi sveitarfélagið frá því að bæjarráð hefði vísað erindinu til sviðsstjóra umhverfissviðs til umsagnar. Hinn 22. september 2011 ítrekaði Persónuvernd ósk sína um skýringar. Í kjölfar þess barst Persónuvernd bréf frá sveitarfélaginu, dags. 3. október 2011. Þar segir m.a. að hæpið sé að fella teikningar af húsum undir persónuupplýsingar. Bent er á að eigendur eða íbúar viðkomandi húsa séu ekki nafngreindir á vefsíðu Kópavogsbæjar. Þá segir m.a.:

„Ekki verður séð að þær upplýsingnar sem fram koma á teikningum bæti miklu við þá vitneskju sem öllum er aðgengileg. Teikningar af húsum eru þar að auki þegar komnar í hendur fjölda aðila sem komið hafa að hönnun, byggingu, sölu og eignarhaldi húsa. Um áratuga skeið hafa afrit af teikningum verið afhent þeim sem þess óska hjá embættum byggingarfulltrúa um land allt, enda hefur ekki verið litið svo á að um sé að ræða gögn um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari í skilningi Upplýsingalaga nr. 50/1996.“

Einnig segir í bréfi Kópavogsbæjar:

„Umrædd vinnsla upplýsinga er nauðsynleg til þess að Kópavogsbær geti rækt skyldu sína til upplýsingamiðlunar varðandi byggingarmál. Mikill fjöldi beiðna berst um afrit af teikningum. Samkvæmt talningu sem framkvæmd var hjá byggingarfulltrúa Kópavogs má ætla að um sé að ræða 15-20 afgreiðslur á dag. Það eru m.a. eigendur sjálfir, fasteignasalar, hönnuðir, byggingaraðilar og tryggingafélög sem óska eftir þessum gögnum. Handvirk afgreiðsla þessara gagna tekur mikinn tíma og veldur verulegum kostnaði. Tafir á afhendingu gagna geta staðið í vegi fyrir viðskiptum með fasteignir og tafið hönnun og framkvæmdir og valdið þar með umtalsverðum kostnaði sem komast má hjá með rafrænum aðgangi að gögnum. Þegar lokað var fyrir aðgang að gögnum í kjölfar kvörtunar til Persónuverndar bárust fjölmargar kvartanir frá þeim sem þurfa á þjónustunni að halda. Þegar litið er til þess að teikningar upplýsa ekki mikið um persónulega hagi íbúa umfram það sem öllum er aðgengilegt í öðrum upplýsingamiðlum verður að telja að uppfyllt séu skilyrði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000.

Þess ber að geta að eigendur húsa geta óskað eftir því að teikningar af húsum þeirra verði teknar af vefnum. Gerðar voru endurbætur á vefnum áður en hann var opnaður að nýju. Með merkingu teikninga er hægt að stýra því hvort teikningar birtist á netinu eða ekki og með því móti er fyllilega komið á móts við óskir húseigenda sem ekki vilja láta teikningar af húseignum sínum birtast á netinu.

Bent er á að fjölmörg sveitarfélög á landinu birta upplýsingar á sama hátt og Kópavogsbær. Kópavogsbær leggur áherslu á að jafnræðis sé gætt hvað þetta varðar.“

II.

Álit Persónuverndar

1.

Gildissvið

Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá.
Hugtakið persónuupplýsingar er skilgreint svo í 1. tölul. 2. gr. laganna: „Sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi.“ Af skilgreiningunni leiðir m.a. að þótt hugtakið persónuupplýsingar taki fyrst og fremst til upplýsinga sem beinlínis eru um einstaklinga kunna ýmsar upplýsingar um hluti að falla undir það. Það á við ef þær hafa slík tengsl við viðkomandi einstaklinga að vinnsla með þær geti haft gagnvart þeim. Það á  við um upplýsingar um fasteignir sem varpa ljósi á persónulega hagi manna og fjárhag.
Hugtakið vinnsla er skilgreint svo í 2. tölul. 2. gr. laganna: „Sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn.“ Í ljósi þessarar skilgreiningar, sem og þess sem fyrr segir um hugtakið persónuupplýsingar, telur Persónuvernd mál þetta lúta að vinnslu slíkra upplýsinga, þ.e. að því marki sem þær varpa ljósi á framangreind atriði. Af því leiðir jafnframt að málið fellur undir valdsvið stofnunarinnar.

 

2.

Niðurstaða

Svo að vinnsla persónuupplýsinga sé heimil þarf ávallt að vera fullnægt einhverju skilyrðanna í 8. gr. laga nr. 77/2000. Í 3. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar segir að vinna megi með persónuupplýsingar þegar vinnslan sé nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, þ.e. þeim sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna, sbr. 4. tölul. 2. gr. laganna, í þessu tilviki Kópavogsbæ.

Á Kópavogsbæ sem stjórnvaldi hvílir skylda samkvæmt 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 til að veita almenningi aðgang að gögnum í einstökum málum þegar farið er fram á slíkan aðgang. Í skyldu samkvæmt þessu ákvæði felst ekki að stjórnvald verði að birta upplýsingar að eigin frumkvæði, en stjórnvaldi getur engu að síður verið það heimilt. Af skýringum Kópavogsbæjar verður ráðið að hann telji birtingu umræddra teikninga nauðsynlega, til að fullnægja lagaskyldum sínum, í ljósi mikillar eftirspurnar eftir teikningunum.

Grunnregla 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga er ekki án undantekninga. Á meðal undantekninganna er að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á, sbr. 5. gr. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fjallar um það hvort lögmætt hafi verið að synja um aðgang að gögnum, m.a. á grundvelli þessa ákvæðis, sbr. V. kafla laganna.

Í úrskurði nefndarinnar, dags. 22. desember 2006 (mál nr. A-236/2006), var komist að þeirri niðurstöðu að 5. gr. upplýsingalaga legði bann við því að Kópavogsbær afhenti grunnmyndir af hæðum í íbúðarhúsi. Hins vegar taldi nefndin að afhenda bæri teikningu af þaki og þaksvölum, sem og útlitsteikningar. Í úrskurðinum segir m.a.:

„Á grunnmynd 1 og 2 er lýst allnákvæmlega innra skipulagi fyrirhugaðs íbúðarhúss að [X-götu nr. Y] og verður að leggja til grundvallar að það sé sérstaklega hannað samkvæmt persónulegum óskum eigandans og lýsi sérstökum þörfum hans og fjölskyldu. Þegar til þessa er litið og afstöðu hans til takmarkaðs aðgangs almennings að teikningunum, á grundvelli öryggishagsmuna sinna verður að telja að ekki sé útilokað að framangreindir hagsmunir hans geti skaðast ef þær upplýsingar sem þar koma fram verða veittar.

Með vísun til þess sem að framan greinir er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Kópavogsbæ sé óheimilt að veita kæranda aðgang að grunnmyndum vegna 1. og 2. hæðar [X-götu nr. Y], en að öðru leyti eigi kærandi rétt á aðgangi að þeim gögnum sem hann hefur beðið um.“

Ljóst er að samkvæmt framangreindu getur birting allra teikninga af hýbílum manna ekki samrýmst 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Meta verður hvaða teikningar eru þess eðlis að þær varði slíka hagsmuni sem í framangreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar greinir. Þegar engin slík sjónarmið eiga við verður hins vegar ekki gerð athugasemd við birtingu teikninga - að því marki sem hún telst vera Kópavogsbæ nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldum sínum.

Komið hefur fram af hálfu Kópavogsbæjar að ásamt birtingu teikninga sem slíkra geti komið til birtingar tengdra upplýsinga. Bærinn hefur ekki afmarkað nánar hvaða upplýsingar það séu, en að því marki sem um getur verið að ræða persónuupplýsingar verður birting þeirra að eiga sér stoð í einhverju af ákvæðum 8. gr. laga nr. 77/2000. Í því sambandi er til leiðbeiningar bent á 2. mgr. 45. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 um rétt manna til að upplýsingar um heimilisfang þeirra séu ekki birtar.

Á l i t s o r ð:

Við birtingu teikninga af húsum ber Kópavogsbæ að virða 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 um að stjórnvöldum sé óheimilt að birta upplýsingar um einkamálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Þegar engin slík sjónarmið eiga við er ekki gerð athugasemd við birtingu teikninga sem er Kópavogsbæ nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldum sínum.



Var efnið hjálplegt? Nei