Upplýsingar sendar frá Tollstjóranum í Reykjavík til vinnuveitanda
Mál 2001/40
Persónuvernd barst kvörtun yfir því að Tollstjórinn í Reykjavík hefði sent upplýsingar um álögð gjöld kvartanda til vinnuveitanda hans.
Hinn 26. júlí 2001 kvað stjórn Persónuverndar upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. 2001/40:
I.
Hinn 25. september 2000 barst tölvunefnd erindi frá B varðandi mál umbjóðanda hans, A. Þar var því m.a. borið við að skattyfirvöldum hefði verið óheimilt að senda persónuupplýsingar um álögð gjöld A til vinnuveitanda hans með ósk um að halda eftir af kaupi hans til lúkningar gjaldanna. Í fyrsta lagi þar sem Tollstjórinn í Reykjavík hefði engar heimildir til að innheimta danskar skattkröfur á grundvelli 113. gr. laga nr. 75/1981 og í öðru lagi og þar sem A hefði gert samning við Tollstjórann í Reykjavík um að greiða mánaðarlega kr. 50.000 á skrifstofu embættisins inn á skuldina. Hefði framangreind meðferð á persónuupplýsingum um A því farið í bága við samkomulagið.
II.
Í bréfi lögmanns A, dags. 25. september 2000, sagði m.a. svo:
"Kvörtun þessi er tilkomin vegna máls umbjóðanda míns A. En Tollstjórinn í Reykjavík sendi út til vinnuveitenda hans upplýsingar um álögð gjöld hans áður en þau voru send honum og án þess að vanskil hefðu orðið. Það er mat umbjóðanda míns að útsending slíkra upplýsinga, sem eðli sínu samkvæmt eru viðkvæmar, sé óeðlileg og til þess fallin að setja starfsöryggi viðkomandi einstaklinga í hættu. En margir hafa aukatekjur sem þeir vilja ekki að vinnuveitandi þeirra viti af. Það er réttur hvers og eins einstaklings, að upplýsingar um tekjur hans næstliðið ár séu ekki sendar vinnuveitanda hans sem hluti af innheimtu staðgreiðslu, fyrr en vanskil hafa átt sér stað ...
Samband einstaklinga og skattyfirvalda hlýtur eðli sínu samkvæmt að vera trúnaðarsamband og má sjá það m.a. í reglum laga um tekjuskatt og eignaskatt nr. 75/1981 um trúnaðarskyldur starfsmanna skattyfirvalda. Sjá t.d. 115. gr. laganna. Það skýtur því skökku við, að svo viðkvæmar upplýsingar séu sendar út til vinnuveitanda, sérstaklega þegar það er haft í huga að slíkt getur stofnað starfsöryggi viðkomandi launamanns í hættu.
Athugun á þeim réttarheimildum sem um skattlagningu og opinbera innheimtu gilda hefur leitt í ljós að ekki eru til reglur sem taka á þessu. Í 113. gr. laga um tekjuskatt og eignaskatt nr. 75/1981 er einungis almenn heimild til að vinnuveitandi haldi eftir af launum starfsmanns. Þar er ekki heimild til að opinberir innheimtuaðilar fari svo frjálslega með þessar viðkvæmu upplýsingar.
Það er mat umbjóðanda míns að framangreint atferli Tollstjórans í Reykjavík brjóti gegn lögum um persónvuernd nr. 121/1989. Vill hann sérstaklega benda á 3. gr., sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna.
Það er ósk umbjóðanda míns að Tölvunefnd hlutist til um að ráðin verði bót á þessum ólögmætum og óeðlilegu starfsaðferðum." III.
Tölvunefnd ritaði Tollstjóranum í Reykjavík bréf, dags. 24. október 2000, og óskaði eftir því með vísan til 32. gr. laga nr. 121/1989 skráningu og meðferð persónuupplýsinga, að hann gerði grein fyrir viðhorfi sínu til málsins.
Svör Tollstjórans í Reykjavík bárust með bréfi, dags. 30. október 2000, og segir þar m.a. svo:
"Samkvæmt 113. gr. laga um tekju og eignaskatt nr. 75/1981, ber launagreiðendum, að kröfu innheimtumanns, að halda eftir af kaupi launþega til lúkningar gjöldum þeirra aðila sem launagreiðandinn ber sjálfskuldarábyrgð á og innheimta ber skv. ákvæðum 110. gr. laganna.
Í samræmi við framangreind ákvæði laga og eins og skylt er, var [...], vinnuveitanda A, send krafa vegna opinberra gjalda að fjárhæð kr. 944.389. Krafa tollstjórans var m.a. vegna kröfu frá Danmörku álagðra 1998. Af nefndri kröfu voru kr. 294.676 gjaldfallnar, þ.e. vegna áranna 1998 og 1999. Það er því rangt sem segir í erindinu að "krafa hafi verið send án þess að vanskil hefðu orðið ". Mismunurinn kr. 649.713 voru álögð opinber gjöld ársins 2000. Reglan er sú að innheimtumenn senda kröfur vegna eftirágreiddra skatta seinnipartinn í júlí ár hvert á launagreiðendur. Er þessi háttur hafður á svo að launagreiðendur hafi tíma til að vinna úr kröfunum áður en að gjalddaga kemur. Gjaldendur sjálfir fá svo álagningarseðilinn ekki fyrr en um mánaðarmótin, en skattstjórar póstleggja hann 31. júlí ár hvert.
Í ljósi þessu telur embætti tollstjórans í Reykjavík kvörtun lögmannsins með öllu tilefnislausa og að eðlilega hafi verið staðið að innheimtunni gagnvart umbjóðanda hans í máli þessu.
Tilkynningar til launagreiðenda um afdrátt af launum eru í formi útprentana, en ríkisbókhald sendir þær og á embætti tollstjóra ekki afrit af þeim."
Með bréfi, dags. 23. nóvember 2000, gaf tölvunefnd lögmanni A færi á að gera athugasemdir við framangreind svör Tollstjórans í Reykjavík.
Athugasemdir B bárust tölvunefnd með bréfi, dags. 19. desember 2000, og sagði þar m.a. svo:
"Í tilvitunuðum lagaákvæðum í umsögn Tollstjórans í Reykjavík er ekki að finna heimild fyrir vinnuveitanda til að halda eftir af kaupi launþega til lúkningar gjöldum, sem álögð eru erlendis. Umbj. m. telur því Tollstjóra enga heimild hafa haft til að senda vinnuveitanda sínum upplýsingar um kröfur frá Danmörku. Þá var umbj. m. búinn að semja við Tollstjóra um greiðslur þessarar skuldar. Hafði hann staðið að fullu við það samkomulag. Gjöldin voru því ekki í vanskilum."
Hinn 12. janúar 2001 ritaði Persónuvernd Tollstjóranum í Reykjavík bréf og óskaði eftir því að veittar yrðu upplýsingar um hvort rétt væri farið með að A hefði verið búinn að semja um greiðslufyrirkomulag þeirra gjalda, sem óskað hafði verið eftir að vinnuveitandi hans héldi eftir af kaupi hans til lúkningar.
Svör Tollstjórans í Reykjavík bárust með bréfi, dags. 18. janúar 2001, og segir þar m.a. svo:
"Það er rétt að umbjóðandi [B] er með samning við tollstjóraembættið um greiðslu skattskuldar frá Danmörku sem var í vanskilum. Umbjóðandi [B] kom og samdi um greiðslur þann 16. ágúst sl., en krafa til launagreiðanda um afdrátt fór út í október s.á. Samningur þessi er enn í gildi.
Það skal þó tekið fram að slíkir samningar koma ekki í veg fyrir að krafa sé send til launagreiðenda, m.a. er það vegna réttaráhrifa kröfu varðandi meðábyrgð vinnuveitanda verði hann ekki við kröfu innheimtumanns um að halda eftir af kaupi launþega, gildir einu þó launþegi semji um greiðslur, má gjaldandinn allt að einu eiga von á að krafa verði send á vinnuveitanda síðar óháð því hvort samningurinn sé í efndum eða ei. Er hugsanlegt að umbjóðandi [B] hafi misskilið efni samningsins hvað þetta varðar, en fráleitt er að telja að um trúnaðarupplýsingar sé að ræða í þessu sambandi.
Samkvæmt 113. gr. laga um tekju og eignaskatt nr. 75/1981, ber launagreiðendum, að kröfu innheimtumanns, að halda eftir af kaupi launþega til lúkningar gjöldum þeirra aðila sem launagreiðandinn ber sjálfskuldarábyrgð á og innheimta ber skv. ákvæðum 110. gr. laganna. Afstaða tollstjóraembættisins frá 30. október sl. til erindis lögmannsins stendur því óbreytt."
Hinn 12. janúar 2001 ritaði Persónuvernd lögmanni A bréf og óskaði eftir því að veittar yrðu nánari upplýsingar um samning þann sem A hefði gert við Tollstjórann í Reykjavík og hvort vanefndir hefðu orðið á honum.
Svör B bárust með bréfi, dags. 15. mars 2001, og segir þar svo:
"Umbj.m. A .... kveðst hafa gert munnlegt samkomulag við Tollstjórann í Reykjavík til lúkningar umræddum skattskuldum. Samið var um að hann greiddi mánaðarlega frá og með 1. október 1999 kr. 50.000,- þar til skuldin væri að fullu greidd. Umbj.m. kveðst hafa staðið við samkomulagið með þeirri breytingu þó að hann greiddi kr. 100.000 á tveggja mánaða fresti. Síðasta greiðslan var í janúar sl.
Umbj.m. hefur ekki getað fengið staðfest hjá tollstjóra, að samkomulagið hafi verið gert, né hefur hann getað fengið útskrift sem sýni greiðslur hans á skuldinni. Skýringin, sem umbj.m. var gefin var sú, að búið væri að taka í notkun nýtt tölvukerfi. Þá væri sá starfsmaður tollstjóra sem hann samdi við hættur störfum."
Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 4. maí sl. var mál þetta rætt og ákveðið að óska nánari upplýsinga um efni samkomulags þess sem fram hefur komið að Tollstjórinn í Reykjavík og A hafi gert sín á milli, þ.á m. um hvort það hafi einungis tekið til greiðslu umræddrar skattaskuldar eða jafnframt annarra atriða.
Svör Tollstjórans í Reykjavík bárust með bréfi, dags. 10. maí 2001, og sagði þar m.a. svo:
"Fram kom í svari tollstjóra dags. 18. janúar sl. að A hafi samið um greiðslu skattkröfur frá Danmörku sem var í vanskilum og hafði krafan borist tollstjóra til innheimtu frá dönskum yfirvöldum. Af framangreindu bréfi frá tollstjóra má ráða að A hafi þann 16. ágúst samið um greiðslur vegna kröfu frá Danmörku, en hið rétta er að þá samdi hann um greiðslur á kröfu tollstjóraembættisins, en hafði áður, þ.e. þann 22.11.1999, verið búinn að semja um greiðslur á hinni dönsku skattakröfu. Vísast nánar til bréfs tollstjóra frá 30. október 2000 um efni þeirra krafna. Í báðum tilvikum var um að ræða munnlegt samkomulag á milli A og C, þáverandi forstöðumanns innheimtusviðs tollstjóra. Samkomulagið var skráð inn í tekjubókhald ríkisins og skv. því samdi A um að greiða kr. 50.000 á mánuði vegna opinberra gjalda áranna 1998, 1999 og 2000. Fyrsta greiðsla átti að fara fram 1. september 2000. Fylgir útprentun á efni samkomulagsins með bréfi þessu.
Í samtali sem undirritaður átti við C kom fram að A hafi óskað eftir því að hann fengi að greiða skuldir sínar við embættið sjálfur, en að ekki yrði dregið af launum hans. C kveðst hafa samþykkt þá málaleitan og fært samkomulag þeirra inn í tekjubókhaldskerfi ríkisins. Því hafi þó farið fjarri að A hafi verið lofað að krafa yrði ekki send á launagreiðanda, enda ekki á valdi forstöðumannsins að stöðva slíka kröfu sem Ríkisbókhald sendir vélrænt á launagreiðendur og er skylt að senda skv. skýru lagaboði 113. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignaskatt. Vísast nánar til bréfs tollstjóra til Persónuverndar 18. janúar um þetta atriði.
Það skal áréttað að innheimtumönnum ríkissjóðs er skylt að senda kröfur um afdrátt af launum til launagreiðenda og skal afdrátturinn nema allt að 75% af heildarlaunargreiðslu launþegans. Það er þó algengt að gjaldendur semji um minni afdrátt og getur það átt sér stað bæði áður en krafa er send til launagreiðanda og eftir að hún er send. Hafi gjaldandinn verið búinn að semja um lægri afdrátt, eða engan, eins og í þessu tilviki, breytir það engu um að krafan er allt að einu send launagreiðandanum. Það er þá gjaldandans að vitna til samkomulagsins og hefur þá innheimtumaður heimild til að tilkynna launagreiðanda um lækkun afdráttar eða niðurfellingu á meðan samningur er í gildi. Það skal einnig tekið fram að í mörgum tilvikum óska launagreiðendur beinlínis eftir að þeir annist afdrátt vegna skattkrafna. Er það m.a. vegna meðábyrgðarinnar sem krafa á launagreiðandann hefur í för með sér.
Samkvæmt framansögðu er það afstaða embættisins að ekki hafi verið gerður áskilnaður um trúnað í máli þessu af hálfu A, en jafnvel þótt svo hafi verið þá hefði innheimtumaður ekki geta orðið við slíkum áskilnaði eins og lýst hefur verið."
Með bréfi, dags. 25. maí 2001, upplýsti B, að A gerði ekki athugasemdir við frásögn Tollstjórans í Reykjavík um tilurð og efni samkomulags þess, sem tollstjóri og A gerðu sín á milli um greiðslu skattskuldar til embættisins og fram kæmi í bréfi tollstjóra, dags. 10. maí 2001.
IV.
Forsendur
1.
Samkvæmt 31. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, er í gildi voru fram til 1. janúar 2001, hefði það fallið í hlut tölvunefndar að fjalla um það hvort umrædd miðlun persónuupplýsinga hefði verið í samræmi við fyrrnefnd lög. Hinn 1. janúar 2001, tók Persónuvernd við hlutverki tölvunefndar þegar lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga tóku gildi. Persónuvernd fjallar því um mál þetta, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000. Þar sem atvik máls þessa gerðust hins vegar í gildistíð laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, fer um efnisúrlausn málsins eftir þeim lögum og öðrum þeim sérlögum sem málið varða.
2.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga var kerfisbundin skráning persónuupplýsinga því aðeins heimil að skráningin væri eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi aðila og tæki einungis til þeirra er tengdust starfi hans eða verksviði, svo sem viðskiptamanna, starfsmanna eða félagsmanna.
Upplýsingar um fjárhag s.s. álagða skatta teljast persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 121/1989, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Þar sem upplýsingar um fjárhag og álagða skatta féllu ekki undir ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1989 fór um heimild til að miðla þeim skv. 3. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt því ákvæði var því aðeins heimilt að skýra frá slíkum persónuupplýsingum án samþykkis hins skráða að upplýsingamiðlun væri eðlilegur þáttur í venjubundinni starfsemi skráningaraðilans.
Framangreind ákvæði voru byggð á því grundvallarviðhorfi um einkalífsvernd að nota bæri persónuupplýsingar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti, afla þeirra í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og ekki nota þær í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, sbr. samning Evrópuráðsins nr. 108/1981, um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga, sem Ísland er aðili að, sbr. auglýsingu utanríkisráðuneytisins nr. 5 27. mars 1991, er birtist í Stjórnartíðindum C-deild 1991, en lög nr. 121/1989 voru m.a. byggð á þeim samningi, sbr. Alþt. 1988-1989, A-deild, bls. 17_ _.
3.
Í bréfi lögmanns A, dags. 23. nóvember 2000, var því borið við að skattyfirvöld hefðu ekki haft heimild til að senda atvinnurekanda hans upplýsingar um skattkröfur frá Danmörku. Stjórn Persónuverndar skilur þessa málsástæðu svo að Tollstjórinn í Reykjavík sé ekki talinn hafa verið bær að lögum til að standa að innheimtu á danskri skattskuld og beita ákvæði 113. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt við slíka innheimtu.
Samkvæmt 117. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er ríkisstjórninni heimilt að gera samninga við stjórnir annarra ríkja um gagnkvæmar ívilnanir á tekju- og eignarskatti erlendra og íslenskra skattaðila sem eftir gildandi skattalöggjöf ríkjanna eiga að greiða skatt af sömu tekjum eða eignum bæði á Íslandi og erlendis. Enn fremur er ríkisstjórninni heimilað að gera samninga um gagnkvæm upplýsingaskipti og um innheimtu opinberra gjalda við önnur ríki. Á grundvelli framangreinds lagaákvæðis hefur verið gerður samningur milli Norðurlandanna um aðstoð í skattamálum, sbr. Stjórnartíðindi C-deild nr. 16/1990. Í 20. gr. þess samnings er að finna sérstök ákvæði um framkvæmd samningsins, m.a. það ákvæði að bær stjórnvöld geti gert samkomulag um nánari framkvæmdaratriði. Hefur slíkt samkomulag um innheimtu og yfirfærslu skatta verið gert, sbr. Auglýsingu nr. 480/1991, en markmið þess er að framfylgja framangreindum Norðurlandasamningi. Í þessum samningi kemur m.a. fram að því ríki, þar sem aðili er heimilisfastur, sé, að vissum skilyrðum uppfylltum, heimilt að krefjast staðgreiðsluskatta, þótt þeir séu vegna launa fyrir starf sem innt er af hendi í öðru aðildarríki. Þetta gildir þó ekki ef skattyfirvald í heimilisfesturíki telur að launagreiðslur eigi að réttu að gjaldfærast hjá fastri atvinnustöð eða fastri stofnun í atvinnuríki.
Samkvæmt framansögðu verður ekki séð að um valdþurrð eða skort á viðhlítandi valdheimildum hafi verið að ræða hjá Tollstjóranum í Reykjavík til að standa að innheimtu á hinni dönsku skattkröfu. Þá verður ekki annað séð en að ákvæði 117. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt heimili að beitt sé innheimtuúrræðum 113. gr. laganna við slíka innheimtu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Verður því ekki fallist á að þegar af þessari ástæðu hafi það ekki talist eðlilegur þáttur í starfsemi Tollstjórans í Reykjavík að miðla upplýsingum um þessa skattkröfu þótt dönsk væri, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.
4.
Í máli þessu er um það deilt hvort Tollstjóranum í Reykjavík hafi verið heimilt að miðla upplýsingum um skuldastöðu A til vinnuveitanda hans og óska eftir því að haldið yrði eftir af launum hans til lúkningar opinberum gjöldum í samræmi við 1. mgr. 113. gr., sbr. 18. gr. laga nr. 49/1997. Er því borið við að búið hafi verið að semja um greiðslur skuldanna og hafi þessi ráðstöfun farið í bága við það samkomulag.
1. mgr. 113. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 18. gr. laga nr. 49/1987, hljóðar svo:
"Allir þeir, er hafa menn í þjónustu sinni og greiða laun fyrir starfa, sbr. 1. mgr. 92. gr., eru skyldir að kröfu innheimtumanns að halda eftir af kaupi launþega til lúkningar gjöldum þeirra aðila sem launþegar bera sjálfskuldarábyrgð á og innheimta ber samkvæmt ákvæðum 110. gr. Aldrei skulu launagreiðendur þó halda eftir meira en nemur 75% af heildarlaunagreiðslu hverju sinni til greiðslu á gjöldum samkvæmt lögum þessum og gjöldum samkvæmt IV. kafla laga nr. 73/1980. Í reglugerð skulu sett nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar."
Ákvæði 1. mgr. 113. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, voru tekin upp í lög, í þeirri mynd sem hún er nú í, með 49. gr. laga nr. 7/1980. Í athugasemdum við 49. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 7/1980, segir m.a. svo:
"Hér er kveðið á um skyldur launagreiðanda til að halda eftir af launum starfsmanna sinna til greiðslu skatta. Eru reglur þessar að ýmsu leyti skýrari en reglur núgildandi laga en ekki er um verulega efnisbreytingu að ræða." (Alþt. 1979-1980, A-deild, bls. 462).
Ákvæðinu var síðan breytt með 18. gr. nr. 49/1987 varðandi það, til hvaða gjalda þetta innheimtuúrræði tæki.
Eins og áður segir var því aðeins heimilt að skýra frá almennum persónuupplýsingum án samþykkis hins skráða skv. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga að slík upplýsingamiðlun væri eðlilegur þáttur í venjubundinni starfsemi skráningaraðilans. Lögboðin innheimtuúrræði innheimtumanna ríkissjóðs, s.s. þau sem mælt er fyrir um í 113. gr. laga nr. 75/1981, teljast eðlilegur þáttur í venjubundinni starfsemi þeirra í skilningi 3. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989. Af þeim sökum verður að telja að innheimtumönnum ríkissjóðs hafi verið heimilt að veita launagreiðendum nauðsynlegar upplýsingar til að halda eftir af kaupi launþega til lúkningar gjöldum þeirra og standa innheimtumanni skil á því, enda væru uppfyllt lagaskilyrði til beitingar innheimtuúrræðisins.
Í máli þessu er því haldið fram að eins og sérstaklega hafi staðið á hafi ekki verið fyrir hendi skilyrði til að beita því innheimtuúrræði, sem 113. gr. laga nr. 75/1981 hefur að geyma, þar sem búið hafi verið að gera samkomulag um innheimtufyrirkomulag skuldarinnar, sem hafi verið byggt á því að vinnuveitandi A yrði ekki beðinn um að halda eftir af kaupi hans, heldur yrðu hinar umsömdu greiðslur inntar af hendi af A hjá Tollstjóranum í Reykjavík.
Í máli þessu er ekki tilefni til að fjalla almennt um heimild skattyfirvalda til að semja um innheimtufyrirkomulag gjaldfallinna skulda. Í bréfi Tollstjórans í Reykjavík til Persónuverndar, dags. 10. maí 2001, er gerð almenn grein fyrir efni algengustu samninga af þessum toga. Slíkir samningar hagga að sjálfsögðu ekki við skattskyldu og lögboðnum gjalddögum, heldur lúta aðallega að því að ákveðnum innheimtuúrræðum er ekki beitt á meðan skuldari stendur við samkomulag um að greiða upp gjaldfallnar skuldir sínar á hinn umsamda hátt. Með gerð slíkra samninga eru innheimtumenn ríkisjóðs því að freista þess að ná markmiðum starfa sinna með úrræði sem er hvað vægast í garð skuldara af þeim úrræðum, sem þeir hafa að lögum við framkvæmd starfa sinna. Tekið skal fram að nú hefur verið sett reglugerð nr. 124/2001 um launaafdrátt. Í 4. gr. reglugerðarinnar koma fram reglur er varða efni slíkra samninga. Ákvæði reglugerðarinnar koma ekki til álita í þessu máli þar sem reglugerðin tók gildi eftir að atburðir máls þessa gerðust.
Af hálfu Tollstjórans í Reykjavík hafa verið færðar fram tvær málsástæður fyrir því að þrátt fyrir þá samninga, sem gerðir hafi verið, hafi verið heimilt að miðla persónuupplýsingum um gjaldfallnar skuldir til vinnuveitanda A um leið og óskað var eftir launafrádrætti. (1) Í fyrsta lagi þar sem Tollstjóranum í Reykjavík sé skylt að óska eftir launaafdrætti við slíkar aðstæður og (2) í öðru lagi þar sem samningur við A hafi ekki falið í sér sérstaka yfirlýsingu um að upplýsingarnar yrðu ekki sendar vinnuveitanda hans.
Það var meginregla laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga að heimild til að vinna með og miðla upplýsingum byggðist á samþykki hins skráða. Undantekningar voru þó m.a. gerðar í lögunum með almennar persónuupplýsingar en skráning þeirra og miðlun var heimil ef hún gat talist eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi aðila, sbr. 3. gr. og 3. mgr. 5. gr. laganna. Löglegur samningur skrárhaldara (ábyrgðarmanns vinnslu) við hinn skráða, sem byggði á því að ákveðnum persónuupplýsingum yrði ekki miðlað, var bindandi, enda væri miðlun persónuupplýsinganna ekki lögboðin heldur aðeins lögheimiluð.
Orðalag 1. mgr. 113. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt felur ekki í sér fortakslausa lagaskyldu fyrir innheimutmenn ríkissjóðs að senda ávallt launagreiðendum kröfu um launaafdrátt, þótt lagaskilyrði greinarinnar séu uppfyllt. Lagaákvæðið felur í sér skýlausa heimild fyrir innheimtumenn ríkissjóðs að gera slíka kröfu þegar lagaskilyrði greinarinnar eru uppfyllt og skyldu launagreiðanda til að halda eftir af launum starfsmanna sinna. Hér er lagaaðstaðan því ekki eins og var t.d. í dómi Héraðsdóms Vestfjarða frá 24. október 1997 í máli nr. S-59/1996. Í ljósi orðalags ákvæðisins verður ekki annað séð en að borgararnir hafi réttmæta ástæðu til að binda traust sitt við það að innheimtumenn ríkissjóðs hafi heimild til þess að gera samkomulag um innheimtufyrirkomulag skuldar, þ.m.t. að úrræði skv. 113. gr. laganna verði ekki beitt um tiltekinn tíma enda standi skuldari við samninginn og greiði skilvíslega umsamdar greiðslur. Skal hér áréttað að í greininni er sérstaklega vísað til þess að það séu innheimtumenn ríkissjóðs sem séu að lögum bærir til að beita þessu innheimtuúrræði. Í Reykjavík er Tollstjórinn í Reykjavík innheimtumaður ríkissjóðs, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 92/1989 um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, sbr. 36. gr. laga nr. 15/1998.
Í máli þessu hefur ekki þýðingu að taka afstöðu til þess hvernig skattyfirvöld hafa með innri ákvörðunum sínum ákveðið í framkvæmd að beita innheimtuúrræði 1. mgr. 113. gr. laga nr. 75/1981 þar sem ekki verður séð að birtar reglur hafi verið um það settar.
Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á, að Tollstjóranum í Reykjavík hafi verið lögskylt að krefjast launafrádráttar samkvæmt fyrirmælum 113. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt þannig að A hafi ekki getað vænst þess með réttmætum hætti að umræddar upplýsingar yrðu ekki sendar vinnuveitanda hans, hvað sem leið samningum hans við Tollstjórann í Reykjavík.
Að því er varðar þá málsástæðu Tollstjórans í Reykjavík að samningur hans við A hafi ekki falið í sér loforð um að upplýsingarnar yrðu ekki sendar vinnuveitanda hans, ber þess fyrst að geta að báðir aðilar eru sammála um, að frásögn sú, sem fram kemur í bréfi Tollstjórans í Reykjavík, dags. 10. maí 2001, sé rétt að því er varðar tilurð og efni samningsins, sbr. bréf lögmanns A, dags. 25. maí 2001. Í bréfinu segir m.a.:
"...að A hafi óskað eftir því að hann fengi að greiða skuldir sínar við embættið sjálfur, en að ekki yrði dregið af launum hans. C kveðst hafa samþykkt þá málaleitan og fært samkomulag þeirra inn í tekjubókhaldskerfi ríkisins. Því hafi þó farið fjarri að A hafi verið lofað að krafa yrði ekki send á launagreiðanda ..."
Þótt starfsmaður Tollstjórans í Reykjavík hafi ekki gefið sérstaka yfirlýsingu um að ekki yrði krafist launafrádráttar skv. 113. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, verður engu að síður að telja að A hafi mátt binda réttmætt traust við það, að það yrði ekki gert fyrst sú málaleitan hans var samþykkt að "hann fengi að greiða skuldir sínar við embættið sjálfur, en að ekki yrði dregið af launum hans," eins og segir orðrétt í bréfi Tollstjórans í Reykjavík. Efni samkomulagsins, eins og það var fært inn í tekjubókhaldskerfið, virðist einnig styðja þessa niðurstöðu, en þar segir m.a. svo:
"22.11.99 A KOM Í DAG. SA. GR. 50.000 Á MÁN. FRÁ NÓV. 99. ER FRAMKV.STJ. FYRIRT. AFA, JCD Á ÍSL. (AUGL. Á STRÆTISV.SKÝLUM.) 16.08.2000 SAMNINGUR V. AB 1998-1999-2000 GR. 50.000 Á MÁN FYRSTA GR. 05.09.00 UPPGR. 05.08.01. SKV. SSB."
Ekki verður annað séð en að þær afborganir, sem inna átti af hendi mánaðarlega, ættu að leiða til uppgreiðslu skuldarinnar hinn 5. ágúst 2001. Í samkomulaginu er ekki gert ráð fyrir öðrum innborgunum inn á skuldina þ.m.t. vegna launafrádráttar skv. 113. gr. laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt.
Í bréfum Tollstjórans í Reykjavík, dags. 18. janúar 2001 og 10. maí 2001 er það staðfest að samkomulag það, sem gert var um greiðslu hinnar dönsku skattskuldar hinn 22. nóvember 1999, sé í fullu gildi.
Af framansögðu athuguðu verður að telja að Tollstjóranum í Reykjavík hafi verið óheimilt að senda vinnuveitanda A persónuupplýsingar um opinber gjöld, sem á hann höfðu verið lögð og samkomulag hans og Tollstjórans í Reykjavík frá 22. nóvember 1999 tók til á meðan það samkomulag var í gildi.
Úrskurðarorð:
Tollstjóranum í Reykjavík var óheimilt að senda vinnuveitanda A persónuupplýsingar um opinber gjöld, sem á hann höfðu verið lögð og samkomulag A og Tollstjórans í Reykjavík frá 22. nóvember 1999 tók til.