Aðgengisstefna

Hlutverk og tilgangur Persónuverndar afmarkar stefnuna

Hlutverk Persónuverndar er að vera leiðandi á sviði persónuverndar og meðferðar persónuupplýsinga á Íslandi og leitast við að tryggja að hagaðilar og einstaklingar þekki og fari eftir lögum og reglum um meðferð persónuupplýsinga. Stofnunin eflir þekkingu, vitund og skilning almennings á áhættu, reglum, verndarráðstöfunum og réttindum í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga í þeim tilgangi að almenningur geti staðið vörð um réttindi sín og friðhelgi, svo og vitund ábyrgðaraðila og vinnsluaðila um skyldur sínar.

Hlutverk og tilgangur:

Meginhlutverk vefs Persónuverndar, personuvernd.is, er að miðla upplýsingum og þekkingu um starfsemi stofnunarinnar til hagaðila og einstaklinga og að bjóða notendavæna þjónustu sem byggir á gildum Persónuverndar: Þekking, trúverðugleiki og fagmennska.

Á vefnum er að finna lög og reglur um persónuvernd ásamt þeim úrskurðum og álitum sem Persónuvernd hefur gefið út og helstu upplýsingar sem stofnunin veitir. Fréttir af málum tengdum persónuvernd eru reglulega birtar á vefnum ásamt ársskýrslum Persónuverndar.

Auk þess er vefnum ætlað að efla þjónustu við almenning og hagaðila og bæta aðgengi við stofnunina með rafrænni þjónustu. Þar er hægt að koma athugasemdum og kvörtunum á framfæri til starfsmanna Persónuverndar sem auðveldar samskipti og flýtir fyrir afgreiðslu mála.

Framtíðarsýn:

Vefur Persónuverndar hefur að geyma upplýsingar er gagnast almenningi og hagaðilum. Hann veitir aðgang að lögum og reglum um persónuvernd, upplýsingum um réttindi og skyldur ásamt leiðbeiningum til ábyrgðaraðila og vinnsluaðila. Með góðu aðgengi að upplýsingum á vefnum getur stofnunin aukið gæði þjónustu og bætt upplýsingaflæði samhliða því að símtölum og innsendum erindum til stofnunarinnar fækkar. Sífellt skal unnið að því að bæta þjónustu og aðgengi við stofnunina með rafrænni þjónustu. 

Stefnt er að því að vefurinn verði aðgengilegur sem flestum og hljóti vottun í aðgengismálum. Þá skal stefnt að því að auka sjálfsafgreiðslu hjá stofnuninni, m.a. með rafrænum eyðublöðum, sem hægt verði að senda rafrænt til stofnunarinnar. 

Áfram verður unnið að enska hluta vefjarins og hann bættur.

Meginmarkmið með vefnum:

· Að koma á framfæri almennum upplýsingum, leiðbeiningum, lögum og reglum um persónuvernd á vönduðu, skýru og skiljanlegu máli

· Að veita viðskiptavinum gagnvirka þjónustu

· Að koma á framfæri upplýsingum til fjölmiðla

Ritstjórnarstefna:

Lögð er áhersla á vandaða miðlun upplýsinga og að efnistök séu skýr og skiljanleg. Vefumsjónarkerfið skal byggja á notendamiðaðri hönnun og styðjast við alþjóðlega staðla um aðgengismál (WCAG 2.0) sem taka tillit til þarfa ólíkra hópa við hönnun og framsetningu svo að allir hafi jafnan aðgang að efni vefsins. 

Aðgengisstefnan er endurskoðuð reglulega ásamt því sem markmið og vefmælingar eru gerðar reglulegar. Allar upplýsingar á vefnum eiga að vera uppfærðar til að halda síðunni lifandi og réttri og efni skal sniðið að notendum í orðalagi og innihaldi. Gæta skal að því að tenglar séu virkir. Leitarvél skal vera einföld í notkun og aðgengileg. Efni vefsins skal vera óbrenglað í öllum helstu tækjum, stýrikerfum og vöfrum. 

Starfandi vefstjóri sér um að samræma útlit og vinna að heildrænni umgjörð. Þá skal starfandi vefstjóri yfirfara aðgangsréttindi starfsmanna að vefumsjónarkerfi stofnunarinnar reglulega og í það minnsta tvisvar á ári. Starfandi vefstjóri ber jafnframt ábyrgð á einstökum efnistökum eins og að yfirfara og uppfæra efni og á birtingu og yfirferð á fréttum og tilkynningum. Skal það gert í samráði við sviðsstjóra og eftir atvikum forstjóra. 



Var efnið hjálplegt? Nei