Nýtt starfsleyfi fyrir Creditinfo-Lánstraust hf.; einstaklingar

Starfsleyfi fyrir CreditInfo-Lánstraust hf.

til að annast söfnun og skráningu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, í því skyni að miðla þeim til annarra, sbr. 33. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 4. tl. 1. mgr. 7. gr. reglna Persónuverndar nr. 698/2004 og 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001, um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust .

1. gr.

Skilgreiningar og gildissvið

CreditInfo-Lánstrausti hf., kt. 710197-2109, í leyfi þessu nefnt starfsleyfishafi, er heimilt að safna og miðla tilteknum persónuupplýsingum sem varða fjárhag og lánstraust einstaklinga, samkvæmt því sem nánar greinir í leyfinu.

Starfsleyfi þetta tekur hvorki til útgáfu lánshæfiseinkunnar (credit score) né skýrslna um lánshæfi (credit-rating reports).

Starfsleyfið heimilar ekki vinnslu upplýsinga sem eðli sínu samkvæmt geta ekki haft þýðingu við mat á fjárhag og lánstrausti hins skráða. Aldrei er heimilt að taka í slíka skrá viðkvæmar persónuupplýsingar, sbr. 8. tl. 2. gr. laga nr. 77/2000, með áorðnum breytingum. Upplýsingar um fjárhagsmálefni eins manns má ekki vinna með þeim hætti að þær geti gefið vitneskju um málefni annars einstaklings.

Starfsleyfi þetta heimilar ekki samtengingu skráa sem haldnar eru á grundvelli leyfisins, nema að því leyti sem fellur undir 3. gr. starfsleyfisins. Að öðru leyti skal halda aðskildum þeim skrám sem til verða samkvæmt 2. gr. Þó má bjóða áskrifendum að leita samtímis í tveimur eða fleirum af þeim skrám sem haldnar eru á grundvelli starfsleyfis þessa.

Starfsleyfishafa er óheimilt að vinna markhópalista á grundvelli þeirra upplýsinga sem honum er heimilt að vinna á grundvelli starfsleyfis þessa.

2. gr.

Söfnun og skráning upplýsinga um vanskil o.fl.

Starfsleyfi þetta heimilar söfnun upplýsinga um nöfn einstaklinga, heimilisföng þeirra og kennitölur auk fjárhagsupplýsinga. Þeirra má afla með eftirfarandi hætti:

a. Frá áskrifendum.

Frá áskrifendum má safna upplýsingum um skuldir einstaklinga sem nema a.m.k. kr. 30.000,- að höfuðstóli, enda hafi leyfishafi fengið óyggjandi skriflegar upplýsingar er staðfesti tilvist viðkomandi skuldar og um að a.m.k. eitt eftirfarandi skilyrða sé uppfyllt:

1. Skuldari hafi skriflega gengist við því fyrir kröfuhafa (áskrifanda) að krafa sé í gjalddaga fallin.

2. Skuldari hafi fallist á að greiða skuldina með sátt sem er aðfararhæf samkvæmt 1. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.

3. Skuldari hafi með dómi, úrskurði eða áritaðri stefnu verið gert að greiða skuldina.

4. Skuldara hafi sannanlega verið birt boðun í fyrirtöku fjárnámsgerðar sem ekki hefur verið unnt að ljúka vegna fjarveru hans.

5. Skuldara hafi sannanlega verið birt greiðsluáskorun vegna skuldarinnar, enda uppfylli hún:

5.1.Öll skilyrði 7. gr. laga nr. 90/1989, og fyrir liggi að frestur samkvæmt því ákvæði sé liðinn.

5.2. Öll skilyrði 9. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, og fyrir liggi að frestur samkvæmt því ákvæði sé liðinn.

6. Fyrir liggi sannanlega vanefndur nauðasamningur sem skuldari hefur gert og áskrifandi er aðili að.

7. Skuldari hafi með sérstakri yfirlýsingu í láns- eða skuldaskjali, sem skuldin er sprottin af, fallist á að áskrifandi óski skráningar Lánstrausts á vanskilunum, enda séu skilyrði til þeirrar heimildar uppfyllt. Slík heimild skal vera áberandi og skýr í skjalinu og við það miðuð að vanskil hafi varað í a.m.k. 40 daga. Áskrifandi sem óskar skráningar á grundvelli slíkrar heimildar skal um leið ábyrgjast að honum sé ekki kunnugt um að skuldari hafi nokkrar réttmætar mótbárur gegn greiðslu skuldarinnar. Beiðni um skráningu skal undirrituð af lögmanni í þjónustu áskrifanda eða fulltrúa hans.

b. Úr opinberum gögnum.

Úr skrám sem aðgengilegar eru almenningi má starfsleyfishafi safna:

1. Upplýsingum dómstóla um skuldara skv. uppkveðnum dómum, eða skv. áritunum dómara á stefnur í málum þar sem ekki hefur verið mætt fyrir stefnda við þingfestingu máls eða þingsókn hefur síðar fallið niður af hans hálfu, sbr. 113. gr. laga nr. 91/1991. Slíkar upplýsingar má aðeins skrá ef um er að ræða skuld eða skuldir sama skuldara við tiltekinn kröfuhafa sem nema a.m.k. kr. 40.000,- að höfuðstóli hver skuld.

2. Upplýsingum um framkvæmd fjárnáms, skv. málaskrám um fjárnámsbeiðnir sem sýslumenn halda í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 17/1992. Upplýsingar um árangurslaus fjárnám má þó skrá án tillits til fjárhæðar fjárnámskrafna, en um fjárnám með árangri því aðeins að fjárhæð viðkomandi fjárnámskröfu nemi a.m.k. kr. 40.000,-.

3. Upplýsingum um uppboð, sem sýslumaður hefur þegar auglýst í Lögbirtingablaðinu, í dagblöðum eða á annan hátt í samræmi við 1. mgr. 20. gr. og 2. mgr. 26. gr. laga nr. 90/1991.

4. Upplýsingum um töku búa til gjaldþrotaskipta,sem fengnar eru í skrám þeim um gjaldþrotaskipti, sem héraðsdómstólar halda í samræmi við reglugerð nr. 226/1992. Heimild þessi tekur eingöngu til þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í 2., 3., 6. og 8. tl. 4. gr. reglugerðarinnar. Slíkar upplýsingar er einungis heimilt að varðveita þar til birt hefur verið auglýsing um skiptalok.

5. Upplýsingar um nauðasamningsumleitanir, innkallanir og skiptalok, sem birtar hafa verið í Lögbirtingablaðinu, skv. 5. mgr. 85. gr. og 2. mgr. 162. gr. laga nr. 21/1991.

6. Upplýsingar um greiðslustöðvanir sem fengar eru í skrám þeim um gjaldþrotaskipti sem héraðsdómstólar halda í samræmi við reglugerð nr. 226/1992. Aðeins er átt við þær upplýsingar sem tilgreindar eru í 2. gr. reglugerðarinnar.

7. Upplýsingum frá hlutafélagaskrá um stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjóra hlutafélaga og einkahlutafélaga, enda hafi þeir staðið að a.m.k. tveimur slíkum félögum sem úrskurðuð hafa verið gjaldþrota s.l. fjögur ár.

Sé félag án stjórnar eða framkvæmdastjórnar við uppkvaðningu úrskurðar um töku bús til gjaldþrotaskipta er heimilt að safna upplýsingum um þá einstaklinga sem síðast voru skráðir í fyrirsvari fyrir félagið allt að sex mánuðum áður en úrskurður var kveðinn upp.

8. Upplýsingum um gerða kaupmála og fjárræðissviptingar sem birtar hafa verið í Lögbirtingablaðinu, skv. 2. mgr. 86. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og 3. tl. 14. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Starfsleyfi þetta heimilar söfnun ofangreindra upplýsinga í eitt miðlægt gagnasafn og miðlun þeirra með þeim aðferðum sem eru tæmandi taldar í 4. gr. leyfis þessa.

3. gr.

Upplýsingakerfi um fjárhagsskuldbindingar

Starfsleyfi þetta heimilar rekstur upplýsingakerfis sem hefur það að markmiði að veita lánveitendum, eða öðrum aðilum sem tengdir eru upplýsingakerfinu, upplýsingar um fjárhagsskuldbindingar skráðs einstaklings.

Óheimilt er að gera fyrirspurn í upplýsingakerfi starfsleyfishafa nema að beiðni hins skráða. Slík beiðni skal vera undirrituð í viðurvist starfsmanns þess aðila sem hefur aðgang að upplýsingakerfinu og skal hinn skráði framvísa persónuskilríkjum. Beiðnin má aðeins taka til einnar fyrirspurnar og skal framkvæma hana eigi síðar en þremur virkum dögum eftir undirritun beiðninnar.

Þegar fyrirspurn er gerð í upplýsingakerfið skal starfsleyfishafi afhenda eða senda afrit niðurstöðunnar til hins skráða. Er heimilt að nota sem póstfang það lögheimili sem viðkomandi hefur samkvæmt Þjóðskrá.

Starfsleyfishafi skal varðveita upplýsingar um fyrirspurnir, þ.e. hver gerði fyrirspurn, um hvern og um niðurstöður fyrirspurnarinnar, í 2 ár.

Rekstur upplýsingakerfisins er að öðru leyti bundinn eftirfarandi skilmálum:

a. Að öll gagnaskipti milli starfsleyfishafa og þeirra sem tengjast umræddu kerfi séu á dulkóðuðu formi og útilokað að gera fyrirspurnir nema frá starfsstöð starfsleyfishafa, eða aðila sem samið hefur við hann um tengingu við kerfið.

b. Engum er heimilt að láta í té upplýsingar til nota við rekstur kerfisins nema það sé í samræmi við 8. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

c. Að einungis tilteknir starfsmenn starfsleyfishafa, sem undirriti sérstakt trúnaðarheit, vinni við upplýsingakerfið.

d. Að einungis verði unnt að gera fyrirspurnir um skuldastöðu hins skráða hjá þeim sem hafa gert samninga við starfsleyfishafa um tengingu við upplýsingakerfið.

e. Aðeins verði unnið með upplýsingar um:

Kennitölu hins skráða

Höfuðstól skuldar eða ábyrgðarkröfu

Útgáfudag láns

Lánstíma

Tegund skuldbindingar

Tegund láns (víxill / skuldabréf, o.s.frv.)

Upplýsingar um tryggingu (fasteignaveð, veð í bifreið, sjálfskuldarábyrgð o.s.frv.)

Heildarstöðu láns

Vanskilafjárhæð

Vaxtaprósentu

Árlega greiðslubyrði

Útistandandi lánsumsóknir

Einungis má vinna með upplýsingar sem hafa raunverulega þýðingu um skuldastöðu hins skráða á þeim tíma þegar fyrirspurn fer fram. Óheimilt er að vinna með upplýsingar um skuldastöðu sem orðnar eru fjögurra ára gamlar og hafa ekki lengur þýðingu fyrir mat á skuldastöðu hins skráða.

4. gr.

Miðlun upplýsinga sem safnað er skv. 2. gr.

Upplýsingum þeim sem starfsleyfishafi má safna og skrá samkvæmt 2. gr. má hann miðla með eftirfarandi hætti:

a. Með símaþjónustu og beinlínutengingu við áskrifendur

Starfsleyfishafi má veita áskrifendum upplýsingar símleiðis, en þó aðeins að því marki sem heimilt er samkvæmt 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 246/2001. Þá má veita eftirfarandi upplýsingar með beinlínutengingu, enda geri hún aðeins mögulegt að fletta einum einstaklingi upp í einu.

a.1. Upplýsingar frá áskrifendum/kröfuhöfum.

Af þeim upplýsingum sem starfsleyfishafi fær um vanskil frá einum áskrifanda, skv. a-lið 2. gr., má hann aðeins miðla til annarra áskrifenda upplýsingum um nafn, heimilisfang og kennitölu skuldara, hvort vanskil séu fyrir hendi þegar uppfletting fer fram og um fjárhæðir vanskila.

a.2. Upplýsingar úr almennt aðgengilegum skrám.

Af þeim upplýsingum sem starfsleyfishafi safnar úr opinberum gögnum og almennt aðgengilegum skrám, þ.e. skv. b-lið 2. gr., má hann aðeins miðla upplýsingum um nafn, heimilisfang og kennitölu skuldara, fjárhæð kröfu og hvort um sé að ræða dóm, áritun á stefnu, framkvæmt fjárnám, greiðslustöðvun, nauðungarsölu, gjaldþrotaskipti, innköllun eða skiptalok. Taka skal fram hvaðan viðkomandi upplýsingar eru fengnar.

Af þeim upplýsingum sem safnað er samkvæmt 2. gr., lið b.7., má þó ekki miðla upplýsingum um stofnendur nema félögin hafi verið úrskurðuð gjaldþrota á innan við þremur árum frá stofnun þeirra.

b. Með afhendingu skráar til Reiknistofu bankanna

Starfsleyfishafi má afhenda Reiknistofu bankanna heildarsafn þeirra upplýsinga sem hann safnar úr opinberum og almennt aðgengilegum skrám, sbr. b-lið 2. gr., með þeirri aðferð og þeim skilyrðum sem greinir í a-lið þessarar greinar. Um notkun Reiknistofu bankanna á þeirri skrá fer nú samkvæmt gildandi lögum og stjórnvaldsreglum um meðferð persónuupplýsinga, auk starfsleyfa sem Reiknistofan hefur eða kann að fá og vinnslusamningum sem ábyrgðaraðilar hafa gert eða kunna að gera við hana.

c. Með afhendingu skrár til einstakra banka og sparisjóða vegna heimabankaþjónustu

Starfsleyfishafi má semja beint við einstaka banka og sparisjóði um afhendingu heildarskrár gagngert og eingöngu til endursölu í heimabankaþjónustu. Sú skrá skal einungis bera með sér þær upplýsingar sem starfsleyfishafi safnar skv. 2. gr. Taka skal gjald fyrir hverja uppflettingu sem vera skal að lágmarki kr. 1000. Þá er skilyrði að sá sem fletti upp þurfi ávallt að gefa til kynna hvert sé tilefni/tilgangur uppflettingarinnar og að allar uppflettingar séu rekjanlegar til hans. Að öðru leyti skal fara samkvæmt þeim skilmálum sem almennt gilda um skrár starfsleyfishafa samkvæmt starfsleyfi þessu.

d. Með afhendingu lista yfir nauðungarsölur á fasteignum

Heimilt er að afhenda lista yfir nauðungarsölur á fasteignum. Þessi heimild er þó takmörkuð við framhaldssölur sem sýslumaður hefur auglýst í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 90/1991.

e. Með „vanskilavakt“; samkeyrsla

Starfsleyfishafi má veita þjónustu sem felst því að bera skilgreindar kennitölur, sem hann fær frá áskrifendum, saman við þá vanskilaskrá sem hann heldur. Þetta er þó að því skilyrði að hann hafi áður tryggt að samkeyrslan sé í samræmi við 7. gr. og 7. tl. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Með vanskilavakt er hér ekki átt við miðlun lista heldur þjónustu sem felst í því að fylgjast með og láta áskrifanda vita ef tiltekinn einstaklingur er færður á skrá sem starfsleyfishafi heldur.

5. gr.

Óheimil miðlun upplýsinga. Eyðing og leiðrétting upplýsinga

Óheimilt er að miðla upplýsingum um nafn skuldara ef starfsleyfishafa er kunnugt um að viðkomandi skuld sé fallin brott, s.s. vegna greiðslu, niðurfellingar eða skuldajöfnuðar. Á þetta við hvort heldur um er að ræða almennt aðgengilegar upplýsingar eða ekki. Sýni hinn skráði fram á að umrædd skuld sé fallin brott er starfsleyfishafa þ.a.l. óheimil öll frekari birting upplýsinga um viðkomandi einstakling í skrá (þ.e. vegna þessarar skuldar). Með sama hætti skal eyða upplýsingum um skráðan kaupmála ef fyrir liggur að gengið hefur verið frá lögskilnaði þeirra aðila sem hann gerðu.

Óheimilt er, á grundvelli leyfis þessa, að miðla upplýsingum um hve oft tilteknum einstaklingi eða einstaklingum hefur verið flett upp í skrám starfsleyfishafa.

Persónuupplýsingum sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal eyða eða leiðrétta.

Óheimilt er að miðla upplýsingum um töku bús til gjaldþrotaskipta þegar birt hefur verið auglýsing um skiptalok.

Óheimilt er að skrá og/eða miðla fjárhagsupplýsingum sem eldri eru en fjögurra ára. Upplýsingar um töku bús til gjaldþrotaskipta má þó varðveita þar til birt hefur verið auglýsing um skiptalok. Þegar upplýsingar verða 4 ára gamlar skal skv. framanrituðu taka þær af þeim skrám sem notaðar eru til miðlunar. Starfsleyfishafa er þó heimilt að varðveita upplýsingarnar í 3 ár til viðbótar, enda lúti þær ströngum aðgangstakmörkunum og þess gætt að ekki hafi aðrir að þeim aðgang en þeir starfsmenn sem nauðsynlega þurfa starfs síns vegna. Að þeim fresti liðnum skal þeim eytt.

6. gr.

Réttur hins skráða

Um upplýsingarétt hins skráða, um rétt hans til að fá viðvaranir og um rétt hans til að fá rökstuðning fyrir ákvörðunum sem byggja á rafrænni vinnslu, fer samkvæmt III. kafla laga nr. 77/2000.

Einstaklingur sem er skráður hjá starfsleyfishafa á hvenær sem er rétt á að fá vitneskju um hvaða upplýsingar um hann er eða hefur verið unnið með, tilgang vinnslunnar, hver fái, hafi fengið eða muni fá upplýsingar um hann, hvaðan upplýsingarnar hafi komið og hvaða öryggisráðstafanir séu viðhafðar við vinnsluna, að því marki sem það skerðir ekki öryggi vinnslunnar.

Starfsleyfishafa er skylt að afhenda skráðum einstaklingi endurrit eða ljósrit af þeim upplýsingum sem hann hefur undir höndum um viðkomandi. Ekki má krefjast hærra endurgjalds af þessari þjónustu en sem nemur kostnaði.

Starfsleyfishafi skal verða við beiðni hins skráða um upplýsingar svo fljótt sem verða má og afhenda þær eigi síðar en innan tveggja vikna frá móttöku beiðninnar. Ef sérstakar ástæður valda því að ómögulegt er fyrir starfsleyfishafa að afgreiða erindið innan þess frests er honum heimilt að gera það síðar. Í slíkum tilvikum skal, innan ofangreinds frests, gefa hlutaðeigandi skriflegar skýringar á ástæðum tafarinnar og hvenær svars sé að vænta.

Hafi starfsleyfishafi í vörslum sínum frekari upplýsingar um hinn skráða en þær sem beiðni lýtur að skal starfsleyfishafi gera beiðanda grein fyrir því. Jafnframt skal gera hinum skráða grein fyrir rétti sínum til þess að fá að kynna sér efni skrár af eigin raun.

7. gr.

Skyldur starfsleyfishafa

7.1. Viðvörunarskylda

Þegar starfsleyfishafi safnar persónuupplýsingum í samræmi við ákvæði 2. gr. leyfis þessa skal hann gera hinum skráða viðvart um það og skýra honum frá þeim atriðum sem talin eru í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 77/2000, með áorðnum breytingum. Skal hann senda slíka viðvörun eigi síðar en 14 dögum áður en hann miðlar upplýsingunum í fyrsta sinn.

Starfsleyfishafa er þó ekki skylt að senda slíka viðvörun ef ætla má að hinum skráða sé þegar kunnugt um vinnsluna, svo sem vegna þess að hann hafi áður fengið viðvörun frá starfsleyfishafa um þá vinnslu sem hann framkvæmir um hinn skráða, og ekki liggi fyrir að grundvallarbreyting hafi orðið á þeirri vinnslu. Þetta á þó ekki við hafi lengri tími en eitt ár liðið frá síðustu skráningu.

7.2. Vandaðir vinnsluhættir

Starfsleyfishafi skal, við alla meðferð persónuupplýsinga sem leyfi þetta tekur til, gæta þess að haga henni með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga. Í því felst m.a. að gæta ber þess að upplýsingarnar séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum. Persónuupplýsingar sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal afmá eða leiðrétta. Hafi röngum eða villandi upplýsingum verið miðlað eða þær notaðar ber starfsleyfishafa, eftir því sem honum er frekast unnt, að hindra að það hafi áhrif á hagsmuni hins skráða.

7.3. Samningsgerð við áskrifendur

- Í samningum starfsleyfishafa við áskrifendur skulu eftirfarandi atriði koma fram,

7.3.1.- að áskrifanda er aðeins heimilt að nota persónuupplýsingar í þeim tilgangi að kanna lánstraust tiltekins einstaklings vegna væntanlegra eða yfirstandandi viðskipta, eða ef lögvarðir hagsmunir eru að öðru leyti fyrir hendi. Undir þetta fellur ekki notkun til markhópagreiningar eða vegna annarra aðgerða til að leita æskilegra viðskiptavina.

7.3.2.- að áskrifandi skuldbindi sig til þess að senda starfsleyfishafa upplýsingar um það ef skuld er greidd eða henni með öðrum hætti komið í skil,

7.3.3.- að áskrifandi skuldbindi sig til að afrita ekki skrána, samtengja hana ekki við aðra skrá eða vinna með hana á nokkurn annan hátt, þótt hann kunni að fá tækifæri til slíks, t.d. fyrir mistök,

7.3.4.- að hver starfsmaður áskrifanda skuli hafi eigið aðgangsorð sem honum sé óheimilt að láta öðrum í té og að aðgangsorð megi ekki endurnýta, t.d. við starfsmannaskipti,

7.3.5.- að áskrifandi skuli, synji hann um lánveitingu á grundvelli upplýsinga úr skrám starfsleyfishafa, greina viðkomandi einstaklingi frá þeirri ástæðu.

- Starfsleyfishafi ber ábyrgð á því að framangreind atriði komi fram í samningum við áskrifendur. Þótt þau komi fram í slíkum samningum haggar það ekki ábyrgð starfsleyfishafa samkvæmt lögum nr. 77/2000 á þeirri vinnslu sem hann sjálfur framkvæmir. Skal hann ávallt tryggja með viðhlítandi ráðstöfunum að heimild standi til þeirrar vinnslu sem hann hefur með höndum.

- Komi í ljós að áskrifandi hefur brotið gegn skilmálum í áskriftarsamningi ber starfsleyfishafa að grípa til viðhlítandi ráðstafana með það fyrir augum að hindra að slíkt endurtaki sig. Til að tryggja að áskrifandi noti upplýsingar aðeins í samræmi við lið 7.3.1. skal haga aðgangi þannig að áskrifandi þurfi, þegar hann flettir í skránni, að tilgreina í hvaða tilgangi hann gerir það. Má slíkt vera á grundvelli tilgreindra tilvika, enda séu þau öll í samræmi við ákvæði liðar 7.3.1. Komi í ljós að áskrifandi notar skrár í öðrum tilgangi skal starfsleyfishafi hækka gjald hans fyrir áskrift. Fyrir eitt tilvik skal hækka gjald er svarar til 50% af mánaðarlegu gjaldi skv. verðskrá starfsleyfishafa á hverjum tíma. Fyrir tvö tilvik skal hækka gjald um 100%, enda líði minna en 6 mánuðir á milli tilvika Verði slík tilvik þrjú á innan við 12 mánuðum skal starfsleyfishafi segja upp áskriftarsamningi við viðkomandi. Að liðnum 6 mánuðum má semja við hann að nýju. Verði áskrifandi aftur uppvís að óheimilli notkun innan 6 mánaða frá gerð nýs samnings skal honum sagt upp og ekki gefa honum kost á nýjum samningi fyrr en að 12 mánuðum liðnum.

7.4. Öryggi vinnslu

Starfsleyfishafi skal gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir til að vernda persónuupplýsingar gegn ólöglegri eyðileggingu, gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni og gegn óleyfilegum aðgangi. M.a. skal tryggja rekjanleika uppflettinga þannig að í hvert skipti skráist hver fletti upplýsingum uppi, hvaða upplýsingum var flett upp og hvenær. Sama gildir eftir því sem við á þegar upplýsingar eru sóttar um heimabanka.

Þegar um sjálfvirkar/hálfsjálfvirkar uppflettingar er að ræða skal starfsleyfishafi tryggja að hægt sé að rekja slíkar færslur til viðkomandi áskrifanda.

Um varðveislu og eyðingu aðgerðaskrárinnar („log-skrárinnar") gilda sömu reglur og gilda um varðveislu og eyðingu upplýsinga í vanskilaskrá. Að öðru leyti þarf starfsleyfishafi að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 299/2001 um öryggi persónuupplýsinga. Eru ákvæði reglnanna hluti skilmála þessa leyfis.

7.5. Vinnsluaðili

Starfsleyfishafa er heimilt að semja við tiltekinn aðila um að annast, í heild eða að hluta, þá vinnslu persónuupplýsinga sem hann ber ábyrgð á enda hafi hann áður sannreynt að umræddur vinnsluaðili geti framkvæmt viðeigandi öryggisráðstafanir og viðhaft innra eftirlit.

Hverjum þeim er starfar í umboði starfsleyfishafa eða vinnsluaðila, að vinnsluaðila sjálfum meðtöldum, og hefur aðgang að persónuupplýsingum, er aðeins heimilt að vinna með persónuupplýsingar í samræmi við fyrirmæli ábyrgðaraðila nema lög mæli fyrir á annan veg.

7.6. Starfsmenn

Hver sá sem starfar hjá starfsleyfishafa er þagnarskyldur um þau atriði sem hann kemst að í starfi sínu og leynt eiga að fara. Sérhver starfsmaður starfsleyfishafa skal undirrita þagnarheit þegar eftir útgáfu leyfis þessa, hafi hann ekki þegar gert það. Nýir starfsmenn skulu undirrita slíkt heit þegar þeir hefja störf hjá starfsleyfishafa.

Upplýsingagjöf samkvæmt starfsleyfi þessu mega einungis annast þeir starfsmenn Lánstrausts hf. sem eru og verða sérstaklega til þess valdir og Persónuvernd tilkynnt um.

7.7. Skýrslugjöf til Persónuverndar

Starfsleyfishafi skal ársfjórðungslega tilkynna Persónuvernd um hve margir hafi aðgang að skrám hans og hverjir það eru, hve margir einstaklingar eru á skránum og hve mikið sé skráð af hverri tegund upplýsinga.

7.8. Annað

Auk ákvæða starfsleyfis þessa skal starfsleyfishafi ávallt fara að lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eins og þau lög eru á hverjum tíma, sbr. nú lög nr. 77/2000 með áorðnum breytingum, auk annarra laga og réttarreglna sem í gildi eru hverju sinni, sbr. m.a. reglugerð nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust og reglur nr. 299/2001 um öryggi persónuupplýsinga.

8. gr.

Gildistími

Starfsleyfi þetta gildir til 3. ágúst 2011.




Var efnið hjálplegt? Nei