Nýtt starfsleyfi CreditInfo-Lánstrausts; einstaklingar

Persónuvernd hefur afgreitt umsókn Creditinfo Lánstrausts um nýtt starfsleyfi til vinnslu upplýsinga um einstaklinga. Að hluta til var fallist á umbeðnar breytingar en að hluta til var þeim hafnað.

Persónuvernd hefur afgreitt umsókn Creditinfo Lánstrausts um nýtt starfsleyfi til vinnslu upplýsinga um einstaklinga. Að hluta til var fallist á umbeðnar breytingar en að hluta til var þeim hafnað.

Bæst hefur við ákvæði í 2. gr. leyfisins sem heimilar skráningu upplýsinga um eignaleysisyfirlýsingar skuldara samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum, enda hafi skuldari fallist á skráninguna. Í sömu grein hefur bæst við ákvæði sem heimilar skráningu upplýsinga um sannanlega vanefndan samning eða nauðasamning til greiðsluaðlögunar sem skuldari hefur gert og áskrifandi að upplýsingakerfi Creditinfo Lánstrausts er aðili að. Að öðru leyti er skráning upplýsinga um greiðsluaðlögun í skrá um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga hins vegar ekki heimil.

Að auki hefur verið fallist á breytingu á 3. gr. leyfisins sem fjallar um upplýsingakerfi um fjárhagsskuldbindingar sem flett er upp í vegna umsókna um lánafyrirgreiðslu. Fyrirspurnir í kerfið hafa byggst á beiðnum frá hinum skráðu sjálfum sem verða að hafa verið veittar skriflega. Þá hefur slík beiðni aðeins mátt taka til einnar fyrirspurnar sem hefur orðið að fara fram eigi síðar en þremur dögum eftir undirritun beiðni.

Í aðdraganda útgáfu leyfisins kom fram af hálfu Creditinfo Lánstrausts að beiðni um lánafyrirgreiðslu gæti komið fram í hljóðrituðu símtali, að afgreiðsla umsókna um  lánafyrirgreiðslu tæki almennt lengri tíma en þrjá daga, sem og að málefnaleg ástæða gæti verið til fleiri fyrirspurnar en einnar þar sem staða umsækjanda kynni að breytast á meðan umsókn væri til meðferðar. Með vísan til þessa var fallist á að veita heimild til skráningar samkvæmt beiðni sem fram kæmi í símtali, enda hefði hljóðritun samrýmst 48. gr. fjarskiptalaga. Þá var  frestur til að gera fyrirspurn framlengdur í 30 daga, auk þess sem fyrirspurnir mega vera fimm talsins á því tímabili.

Creditinfo Lánstraust fór fram á að heimiluð yrði miðlun upplýsinga til áskrifenda um það þegar tilteknir einstaklingar eru færðir af skrá sem fyrirtækið heldur. Persónuvernd taldi það geta leitt til þess að hjá áskrifendum yrði sérstaklega skrásett hverjir af viðskiptamönnum hefðu einhvern tímann verið á skrá og hvenær það hefði verið. Það samrýmdist ekki tilgangi skráningarnnar, þ.e. að veita kost á mati á lánshæfi manna í tengslum við ósk þeirra um viðskipti þar sem reynir á slíkt. Var því ekki fallist á að heimila umrædda miðlun.


Nýtt starfsleyfi Lánstrausts.




Var efnið hjálplegt? Nei