Viðbót við þegar veitt leyfi Persónuverndar til Embættis landlæknis
Efni: Viðbót við þegar veitt leyfi Persónuverndar til Embættis landlæknis
Persónuvernd hafa borist erindi Embættis landlæknis, dags. 25. og 28. janúar 2021. Í fyrra erindinu er sótt um leyfi stofnunarinnar til að nýta gögn úr lyfjagagnagrunni til samkeyrslu við önnur gögn sem stofnunin hefur þegar veitt embættinu leyfi fyrir í þeim tilgangi að geta betur skilgreint áhættuhópa við skipulagningu bólusetningar gegn COVID-19. Um sé að ræða leyfi Persónuverndar gefin út 26. febrúar 2020 (mál nr. 2020020950), 19. mars s.á. (mál nr. 2020031215) og 16. desember s.á. (mál nr. 2020123030). Í seinna erindinu er óskað eftir afstöðu Persónuverndar til þess hvort framangreind leyfi stofnunarinnar veiti Embætti landlæknis heimild til að nota fjölskyldunúmer úr þjóðskrá til að ná til maka/foreldra ónæmisbældra einstaklinga og bjóða þeim bólusetningu.
Persónuvernd telur ljóst að sú vinnsla sem tilgreind er í erindum Embættis landlæknis þurfi að byggjast á leyfi frá stofnuninni samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 811/2019 um leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Með vísan til þessara ákvæða tilkynnist hér með að Landlæknisembættinu er veitt leyfi til notkunar upplýsinga úr lyfjagagnagrunni við samkeyrslur til skilgreiningar á áhættuhópum við skipulagningu bólusetningar gegn COVID-19. Nánar tiltekið er heimiluð samkeyrsla upplýsinga úr lyfjagagnagrunni og þeirra skráa sem tilgreindar eru í leyfum Persónuverndar, dags. 26. febrúar 2020, 19. mars s.á. og 16. desember s.á., að því marki sem nauðsynlegt er í umræddu skyni. Nær leyfið einnig til notkunar þjóðskrár til að finna einstaklinga með sama fjölskyldunúmer og ónæmisbældir einstaklingar og bjóða þeim bólusetningu. Gert er að skilyrði að í einu og öllu sé fylgt því verklagi sem mælt er fyrir um í framangreindum leyfum Persónuverndar.
F.h. Persónuverndar,
Þórður Sveinsson Gyða Ragnheiður Bergsdóttir