Umsagnir

Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga

Mál nr. 2021020411

3.3.2021

Efni: Umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga

Persónuvernd vísar til beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis frá 12. febrúar 2021 um umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga (þskj. 787, 466. mál á 151. löggjafarþingi).

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sem varða að meginstefnu forseta Íslands, ríkisstjórn og verkefni framkvæmdavaldsins auk ákvæða um náttúruvernd og auðlindir náttúru Íslands.

Með vísan til fyrri umsagna Persónuverndar um frumvörp til stjórnarskipunarlaga, nú síðast á 151. löggjafarþingi (26. mál, þskj. 26) áréttar Persónuvernd eftirfarandi:

Í núgildandi stjórnarskrá er að finna ákvæði um friðhelgi einkalífs en þar kemur m.a. fram að friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skuli tryggð. Ákvæðið kom nýtt inn með 9. gr. laga nr. 97/1995 en í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að þeim lögum kemur fram að hugtakið friðhelgi einkalífs geti náð til vinnslu persónuupplýsinga. Í þessu sambandi vekur Persónuvernd athygli á því að í nýrri mannréttindaskrám, s.s. 8. gr. mannréttindaskrár Evrópusambandsins, hefur sjálft ákvæðið um friðhelgi einkalífs verið gert skýrara að þessu leyti. Þar er tekið fram í textanum sjálfum að friðhelgin taki einnig til vinnslu persónuupplýsinga. Er lagt til að sambærileg breyting verði gerð á texta 71. gr. stjórnarskrárinnar.

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins.

F.h. Persónuverndar,

Helga Þórisdóttir                       Gunnar Ingi Ágústsson



Var efnið hjálplegt? Nei