Umsagnir

Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um Hagstofu Íslands (ákvæði um heimild til öflunar persónugreinanlegra fjárhagsupplýsinga)

15.10.2013

Reykjavík, 10. september 2013

 

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007 (ákvæði um heimild til öflunar persónugreinanlegra fjárhagsupplýsinga)

 

Persónuvernd vísar til tölvubréfs sem stofnuninni barst frá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í dag, en þar er óskað umsagnar stofnunarinnar um tillögu að breytingu á frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 163/2007 um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð (þskj. 14, 14. mál á 142. löggjafarþingi). Í frumvarpinu eru lögð til ákvæði sem heimili Hagstofu Íslands víðtæka söfnun upplýsinga um útlán til einstaklinga sem safnað verði vegna hagskýrslugerðar og til nota við mótun aðgerða í þágu skuldugra heimila. Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 25. júní 2013 var samþykkt umsögn um frumvarpið, en í niðurlagi hennar segir:

 

„Með vísan til framangreinds lýsir Persónuvernd, í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, yfir áhyggjum af þeirri víðtæku vinnslu persónuupplýsinga sem ráðgerð er í frumvarpi þessu. Persónuvernd hefur efasemdir um nauðsyn þess að komið sé á fót opinberum gagnagrunni með jafn víðtækum persónuupplýsingum og hér um ræðir til þess að grípa megi til aðgerða til að greiða úr fjárhagsvanda fjölskyldna og einstaklinga. Í frumvarpinu skortir útskýringar á því hvers vegna þörf er talin á svo viðurhlutamiklum afskiptum af friðhelgi einkalífs. Telji löggjafinn engu að síður tilefni til að veita frumvarpinu lagagildi er lagt til að gerðar verði endurbætur á því þannig að skýrt verði mælt fyrir um hvernig öryggis verði gætt við vinnslu persónuupplýsinga í umræddum gagnagrunni, um tímamörk á varðveislu þeirra og um eyðingu gagnanna að þeim liðnum.“

 

Í umræddri tillögu að breytingu á frumvarpinu er nánar fjallað um hvernig öryggis verði gætt við vinnslu umræddra upplýsinga, auk þess sem varðveislutími er afmarkaður, mælt fyrir um eyðingu og skýrar tilgreint hjá hverjum upplýsinga um útlán verði aflað og hvaða upplýsinga. Að þessu leyti hefur verið komið til móts við athugasemdir Persónuverndar. Hins vegar telur stofnunin enn skorta á rökstuðning fyrir nauðsyn umræddrar upplýsingasöfnunar sem af ákvæðum frumvarpsins er ljóst að er mjög víðtæk. Þá er til þess að líta að samkvæmt orðum fulltrúa sérfræðingahóps um höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána og kosti og galla leiðréttingasjóðs, á fundi allsherjar- og menntamálanefndar hinn 2. september 2013, ættu upplýsingar um útlán á skattframtölum að nægja hópnum við gerð tillagna um aðgerðir í þágu skuldugra heimila.

 

Fyrrgreind umsögn Persónuverndar, dags. 25. júní 2013, byggist m.a. á því að óljóst sé hvers vegna umrædd upplýsingaöflun sé nauðsynleg til að ná markmiðum frumvarpsins. Persónuvernd telur þá forsendu enn eiga við og áréttar því fyrri umsögn hvað það varðar.



Var efnið hjálplegt? Nei