Umsagnir
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2009 um sjúkraskrár
Stjórn Persónuverndar hefur veitt umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um sjúkraskrár. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar og viðbætur á lögunum um að ákvæði um aðgang að eigin sjúkraskrá og sjúkraskrá látins aðstandanda á grundvelli ríkra ástæðna feli í sér rétt til afrits af skránni. Þá eru m.a. lagðar til breytingar á ákvæðum um meðferð ágreinings varðandi rétt til aðgangs. Persónuvernd áréttaði umsögn um samhljóða frumvarp sem áður hefur verið lagt fram. Í því fólst að ekki voru gerðar athugasemdir við frumvarpið að því undanskyldu að mæla mætti fyrir um skyldu til að leiðbeina um kærurétt þegar synjað væri um aðgang að sjúkraskrá látins aðstanda eins og þegar um ræðir eigin sjúkraskrá.
23. október 2013
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkraskrár, m.a. ákvæðum um kærur á synjunum um aðgang að eigin sjúkraskrá
1.
Persónuvernd vísar til tölvubréfs velferðarnefndar Alþingis frá 18. október 2013 þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2009 um sjúkraskrár (þskj. 24, 24. mál á 143. löggjafarþingi). Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar og viðbætur á lögunum sem eiga að taka af allan vafa um að ákvæði um aðgang að annars vegar eigin sjúkraskrá og hins vegar sjúkraskrá látins aðstandanda á grundvelli ríkra ástæðna feli í sér rétt til afrits af skránni. Þá er lögð til viðbót við lögin sem ætlað er að taka af vafa um að allar synjanir um aðgang séu kæranlegar til landlæknis, en eins og rakið er í almennum athugasemdum með frumvarpinu og athugasemdum við 3. og 4. gr. þess hafa lögin ekki verið álitin nógu skýr um það. Jafnframt þessu er lagt til ákvæði þess efnis að ef synjað sé um veitingu aðgangs að eigin sjúkraskrá skuli leiðbeint um að kæra megi slíka ákvörðun til landlæknis.
Samkvæmt frumvarpinu verður ekki lengur hægt að kæra umræddar ákvarðanir til ráðherra heldur verða þær endanlegar á stjórnsýslustigi. Í niðurlagi athugasemda við 4. gr. frumvarpsins er það rökstutt með eftirfarandi orðum:
„Nægilegt þykir að í málum sem þessum sé eitt kærustig. Því taki umsjónaraðili sjúkraskrár ákvörðun um hvort veiti eigi aðgang að sjúkraskrá en embætti landlæknis geti síðar endurskoðað synjanir um aðgang, sé óskað eftir því.
Í þessu sambandi skiptir einnig máli að ákvörðun um aðgang að sjúkraskrá er almennt faglegs eðlis og því eðlilegra að leitað sé til landlæknisembættisins fremur en ráðuneytisins um endurskoðun á ákvörðun um aðgang sjúklings að eigin sjúkraskrá eða aðgang að sjúkraskrá látins einstaklings.“
Auk framangreinds er í frumvarpinu lagt til að starfsmenn, sem vinna að þjónustu við tölvu- og upplýsingakerfi, geti fengið nauðsynlegan aðgang að sjúkraskrárkerfi í þeim tilgangi að sinna vinnslu, uppfærslu og viðhaldi kerfisins. Starfsmennirnir skuli undirgangast sambærilega trúnaðar- og þagnarskyldu og heilbrigðisstarfsmenn.
2.
Samhljóða frumvarp og hér um ræðir hefur áður verið lagt fram (þskj. 639, 497. mál á 141. löggjafarþingi), en Persónuvernd veitti umsögn um það með bréfi, dags. 14. febrúar 2013 (mál nr. 129/2013). Í niðurlagi þeirrar umsagnar segir:
„Viðamesta breytingin á lögum um sjúkraskrár, sem lögð er til í umræddu frumvarpi, er sú að ákvarðanir landlæknis um réttmæti synjana um aðgang að eigin sjúkraskrá eða sjúkraskrá látins aðstandanda verða ekki lengur kæranlegar til ráðherra. Persónuvernd fellst á þau rök sem í athugasemdum með frumvarpinu eru færð fyrir þessari breytingu og gerir því ekki athugasemdir við hana.
Hins vegar skal bent á að þegar um ræðir synjun um aðgang að sjúkraskrá látins aðstandanda mætti mæla fyrir um skyldu til að leiðbeina um kærurétt með sama hætti og þegar um ræðir synjun um aðgang að eigin sjúkraskrá. Að öðru leyti telur Persónuvernd ekki tilefni til athugasemda við frumvarpið.“
Persónuvernd áréttar framangreint. Þá skal bent á að tilefni kann að vera til að endurskoða einnig reglur um aðgang að sjúkraskrám vegna vísindarannsókna. Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga er sá aðgangur nú háður leyfi Persónuverndar, en auk þess þarf vísindasiðanefnd eða siðanefnd heilbrigðisstofnunar að leyfa rannsóknina, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna. Það kann að einfalda stjórnsýslu að nægilegt sé að tilkynna umræddan aðgang til Persónuverndar, en stofnunin setji reglur um það hvernig öryggis við meðferð rannsakenda á gögnum úr sjúkraskrám skuli gætt, sbr. nánar kafla 2.2 í umsögn Persónuverndar til velferðarráðuneytisins, dags. 14. febrúar 2012, um drög að frumvarpi til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 110/2000 um lífsýnasöfn (mál nr. 2011/381). Hjálagt er afrit af þeirri umsögn.