Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara

31.10.2013

Stjórn Persónuverndar hefur veitt umsögn um frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að uppljóstrurum, sem miðla upplýsingum um misgerð eða það sem þeir eru í góðri trú um að sé misgerð, verði veitt vernd gagnvart lögsóknum og annars konar aðgerðum. Persónuvernd taldi eðlilegt að skilgreint yrði hver skyldi taka við tilkynningum um meintar misgerðir, vega þær og meta og ákveða viðbrögð við þeim, sem og að réttindi þeirra sem bornir væru ávirðingum yrðu skilgreind. Þá taldi Persónuvernd sérstakt tilefni til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins um refsileysi gagnvart trúnaðar- og þagnarskylduákvæðum laga. Að mati stofnunarinnar er í frumvarpinu litið fram hjá því að friðhelgi einkalífs manna njóti verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með tilliti til framangreindra athugasemda og fleiri atriða taldi Persónuvernd að gera þyrfti umtalsverðar breytingar á frumvarpinu til þess að það gæti talist fela í sér viðunandi og skýran lagaramma á umræddu sviði.
Reykjavík, 28. október 2013

Frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara


Persónuvernd vísar til tölvubréfs allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis til stofnunarinnar frá 21. október 2013 þar sem óskað er umsagnar hennar um frumvarp til laga um miðlun upplýsinga og vernd uppljóstrara (þskj. 12, 12. mál á 143. löggjafarþingi).

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að uppljóstrurum, sem miðla upplýsingum um misgerð eða það sem þeir eru í góðri trú um að sé misgerð, verði veitt vernd gagnvart lögsóknum og annars konar aðgerðum. Þegar komið er á kerfum, sem vernda þá sem ljóstra upp um slíkt, má telja eðlilegt að skilgreindur sé einhver aðili sem taki við tilkynningum um meintar misgerðir, vegi þær og meti og ákveði viðbrögð. Þá má telja eðlilegt að réttindi þeirra sem bornir eru ávirðingum séu skilgreind, en þær geta m.a. falið í sér viðkvæmar persónuupplýsingar um þá, sbr. 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í þessu sambandi bendir Persónuvernd á hjálagt álit nr. 1/2006 frá starfshópi samkvæmt 29. gr. persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB sem skipaður er fulltrúum persónuverndarstofnana í aðildarríkjum ESB og gegnir ráðgefandi hlutverki um túlkun og beitingu tilskipunarinnar. Eins og fram kemur í II. þætti álitsins (sjá bls. 5 og 6) lýtur það að uppljóstrunum innan fyrirtækja, en þau sjónarmið, sem þar eru rakin, má hafa til hliðsjónar varðandi uppljóstrunarkerfi almennt. Meðal þess sem fjallað er um í álitinu eru réttindi þess sem borinn er ávirðingum (sbr. m.a. 4. kafla í IV. þætti álitsins (bls. 13 og 14)) og sérstakur vettvangur fyrir uppljóstranir sem beri ábyrgð á að rannsaka tilkynningar um meintar misgerðir og ákveða viðbrögð (sbr. 6. kafla IV. þáttar (bls. 15 og 16). Mjög skortir á umfjöllun um framangreint í frumvarpinu.

Þá telur Persónuvernd sérstakt tilefni til athugasemda við 7. gr. frumvarpsins um refsileysi gagnvart trúnaðar- og þagnarskylduákvæðum laga. Í ákvæðinu er lagt til að aldrei sé unnt að baka sér refsiábyrgð á grundvelli slíkra ákvæða nema samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Í skýringum með þessu ákvæði er m.a. vísað til 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um að trúnaðarskylda á grundvelli lögmannalaga vegna sambands lögmanns og skjólstæðings sé ein af undirstöðum réttarríkisins og réttlátrar málsmeðferðar. Ekki er unnt að skilja þetta ákvæði öðruvísi en svo að t.d. læknar og heilbrigðisstarfsmenn mættu ávallt rjúfa skyldu sína til þagmælsku um hagi sjúklingi sé slíkt trúnaðarrof þáttur í uppljóstrun samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Persónuvernd varar sterklega við því að slík regla sé lögfest. Í frumvarpinu er litið fram hjá því að friðhelgi einkalífs manna nýtur verndar 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í þessu felst að löggjafanum ber skylda til að veita einkalífi manna, þar á meðal viðkvæmum persónuupplýsingum, sérstaka lagavernd. Sú ráðagerð sem kemur fram í 7. gr. frumvarpsins að veita jafn opna og óskilgreinda undanþágu frá refsivernd á friðhelgi einkalífs manna án frekari lögákveðinna skilyrða með því að aflétta þagnarskyldu starfstétta sem fjalla um viðkvæmar persónuupplýsingar samræmist að mati Persónuverndar ekki sjónarmiðum um meðalhóf og færi því í bága við fyrrgreind ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Af tilvísunum í greinargerð frumvarpsins til alþjóðlegar samvinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins um að uppræta spillingu verður auk þess ekki ályktað að svo langt þurfi að ganga til að ná þeim almennum markmiðum sem stefnt skuli að til að vernda uppljóstrara.

Þá telur Persónuvernd m.a. að skýra þurfi betur samhengi frumvarpsins við aðra löggjöf sem veitir vernd vegna uppljóstrana, sbr. einkum 25. gr. fjölmiðlalaga nr. 38/2011 um vernd heimildarmanna.

Með tilliti til framangreindra athugasemda og fleiri atriða, svo sem óskýrs ákvæðis 3. gr. frumvarpsins um yfirstjórn forsætisráðherra á framkvæmd laganna, telur Persónuvernd að gera þurfi umtalsverðar breytingar á frumvarpinu til þess að það geti talist fela í sér viðunandi og skýran lagaramma á umræddu sviði.


Var efnið hjálplegt? Nei