Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutning verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta og annarra embætta og stofnana

23.12.2013

Stjórn Persónuverndar hefur veitt umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta og annarra embætta og stofnana. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir nýju ákvæði í 78. gr. laga um fullnustu refsingu um að náðunarnefnd megi afla upplýsinga um heilsufar náðunarbeiðanda eða kæranda ef beiðni um náðun eða kæra er byggð á heilsufarsástæðum. Lagði Persónuvernd áherslu á að meðalhófs væri gætt þannig að ekki yrði aflað heilsufarsupplýsinga sem ekki hefðu þýðingu vegna afgreiðslu á náðunarbeiðni. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á 82. gr. lögræðislaga sem feli í sér að yfirlögráðandi haldi eina miðlæga málaskrá yfir mál sín. Lagði Persónuvernd til að áréttaðar yrðu í ákvæðinu skyldur samkvæmt lögum nr. 77/2000 auk þess sem lögð var til viðbót við ákvæðið um skjalfestingu upplýsingaöryggis.

Reykjavík, 12. desember 2013

 

Umsögn varðandi flutning verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta og annarra stofnana

 

Persónuvernd vísar til tölvubréfs allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 14. nóvember 2013 þar sem óskað er umsagnar stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna frá innanríkisráðuneytinu til sýslumannsembætta og annarra embætta og stofnana  (þskj. 192, 161. mál á 143. löggjafarþingi). Fjallað var um frumvarpið á fundi stjórnar Persónuverndar í dag og var ákveðið að gera eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið:

 

1. Í b-lið 14. gr. er lagt til að við 78. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga bætist ákvæði þess efnis að náðunarnefnd megi afla upplýsinga frá heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisstofnunum til staðfestingar á fyrirliggjandi vottorðum, sem og að afla nýrra gagna um heilsufar náðunarbeiðanda eða kæranda ef beiðni um náðun eða kæra er byggð á heilsufarsástæðum. Nefndinni sé einnig heimilt að krefjast þess að náðunarbeiðandi eða kærandi leggi fram gögn sem hann hefur sjálfur aflað um heilsufar sitt. Í þessu sambandi leggur Persónuvernd áherslu á að meðalhófs sé gætt þannig að ekki sé aflað heilsufarsupplýsinga sem ekki hafa þýðingu vegna afgreiðslu á náðunarbeiðni. Með vísan til þess er lagt til (a) að á eftir orðunum „heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisstofnunum“ í 1. málsl. tillögu b-liðar að nýrri 3. mgr. 78. gr. laga nr. 49/2005 bætist orðin „sem nauðsynlegar eru“, (b) að á eftir orðunum „náðunarbeiðanda og kæranda“ í sama málslið bætist orðin „sem nauðsynlegar eru í sama skyni“ og (c) að á undan orðinu „gögn“ í 2. málslið umræddrar tillögu bætist orðið „slík“. Ákvæðið myndi þá hljóða svo (með viðeigandi greinarmerkjasetningu í ljósi viðbótanna):

 

„Náðunarnefnd er heimilt að afla upplýsinga frá heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisstofnunum sem nauðsynlegar eru til staðfestingar á fyrirliggjandi vottorðum, sem og að afla nýrra gagna um heilsufar náðunarbeiðanda eða kæranda sem nauðsynlegar eru í sama skyni, ef beiðni um náðun eða kæra er byggð á heilsufarsástæðum. Nefndinni er einnig heimilt að krefjast þess að náðunarbeiðandi eða kærandi leggi fram slík gögn sem hann hefur sjálfur aflað um heilsufar sitt.“

 

2. Í 26. gr. eru lagðar til breytingar á 82. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, þ. á m. að samkvæmt 2. mgr. þeirrar greinar beri yfirlögráðendum að halda málaskrá yfir mál sín samkvæmt lögunum og að ráðuneytið geti heimilað að yfirlögráðendur haldi eina miðlæga málaskrá. Ljóst má telja að í slíkri málaskrá geti verið að finna upplýsingar mjög viðkvæms eðlis. Er því ástæða til að árétta í ákvæðinu skyldur samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ. á m. til skjalfestingar upplýsingaöryggis. Í því ljósi leggur Persónuvernd til svohljóðandi viðbót við ákvæðið:

 

„Um öryggi persónuupplýsinga í slíkri skrá fer eftir 11. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, þ. á m. 5. mgr. þeirrar greinar um skjalfestingu á upplýsingaöryggi.“

 



Var efnið hjálplegt? Nei