Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og málefni aldraðra

26.11.2013

Stjórn Persónuverndar hefur veitt umsögn um frumvarp til laga um breytingar á lögum um almannatryggingar og málefni aldraðra. Í frumvarpinu eru meðal annars lagðar til auknar heimildir TR til vinnslu persónuupplýsinga vegna eftirlits. Taldi Persónuvernd ákvæði í frumvarpinu þar að lútandi þurfa endurskoðunar við.
26. nóvember 2013

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og málefni aldraðra



Persónuvernd vísar til beiðni velferðarnefndar Alþingis frá 7. nóvember 2013 um umsögn stofnunarinnar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og lögum nr. 129/1999 um málefni aldraðra (þskj. 162, 144. mál á 143. löggjafarþingi). Þau ákvæði frumvarpsins, sem einkum varða starfssvið Persónuverndar, er að finna í 2. gr. þess þar sem lagðar eru til breytingar og viðbætur við ákvæði um eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar ríkins (TR) samkvæmt lögum nr. 100/2007. Er þeim ætlað að koma í veg fyrir rangar ákvarðanir og draga úr of- eða vangreiðslum og sviksamlegu athæfi eins og fram kemur í IV. kafla almennra athugasemda í greinargerð með frumvarpinu.

Á 142. löggjafarþingi var einnig lagt fram frumvarp (þskj. 40, 25. mál) þar sem lögð voru til svipuð ákvæði um eftirlit TR og hér um ræðir, en þau ákvæði voru ekki lögfest á því þingi. Persónuvernd veitti umsögn um frumvarpið, dags. 2. júlí 2013 (mál nr. 2013/805 hjá stofnuninni), þar sem fram kemur að með samþykkt d- og g-liða tillögu 2. gr. frumvarpsins, þar sem gert var ráð fyrir viðamiklum heimildum TR til öflunar persónuupplýsinga án vitneskju viðkomandi einstaklinga, yrði sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga skertur að ófyrirsynju, sem og yfirsýn þeirra yfir vinnslu persónuupplýsinga um sig. Lagðist því stofnunin gegn umræddum ákvæðum.

Meðal þess sem fram kom í umsögn Persónuverndar var að mjög skorti á afmörkun á því frá hverjum afla mætti upplýsinga. Í því frumvarpi, sem nú hefur verið lagt fram, hefur verið komið til móts við athugasemdir stofnunarinnar þar að lútandi, sbr. einkum 1. mgr. g-liðar tillögu 2. gr., þar sem taldir eru upp þeir aðilar sem ráðgert er að afla megi upplýsinga frá, sem og 1. mgr. i-liðar tillögu sömu greinar þar sem vísað er til þeirrar upptalningar. Þá hefur verið skerpt á skilyrði fyrir öflun upplýsinga frá þriðja aðila á grundvelli gruns um greiðslur á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga frá greiðsluþega, sbr. 4. mgr. i-liðar tillögu 2. gr. Ólíkt því sem var í fyrra frumvarpi kemur nú þar fram að grunur þurfi að vera rökstuddur. Að auki má nefna að í 3. mgr. tillögu j-liðar 2. gr. frumvarpsins er nú að finna ákvæði sem áréttar reglur 11. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, en þar er mælt fyrir um skyldu til að tryggja öryggi slíkra upplýsinga og skjalfesta hvernig það er gert.

Einnig hefur hins vegar verið bætt við ákvæði þess efnis að framangreindar heimildir TR vegna eftirlits gildi einnig við öflun upplýsinga vegna afgreiðslu umsókna, sbr. 3. mgr. tillögu 3. gr. frumvarpsins að breyttu ákvæði 52. gr. laga nr. 100/2007. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laganna, eins og hún er nú, þarf að afla samþykkis fyrir slíkri upplýsingaöflun, en með þessu yrði horfið frá því.

Persónuvernd gerir eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið:

1.
Öflun persónuupplýsinga vegna eftirlits
Í g-lið sbr. 1.mgr. i. liðar 2. gr. frumvarpsins er tiltekið hvaða lögaðilar skuli láta Tryggingastofnun ríkisins í té upplýsingar til að unnt sé að framfylgja lögunum. Í ákvæðinu kemur hins vegar ekki fram hversu lengi slíkar upplýsingar skuli varðveittar. Í því sambandi skal bent á að samkvæmt lögum nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands er stjórnvöldum almennt óheimilt að eyða gögnum, sbr. 7. gr. laganna. Lögfesting víðtækra heimilda til handa stjórnvöldum til gagnaöflunar án þess að mælt sé fyrir um eyðingu upplýsinga getur því orðið til þess að til verði umfangsmiklir gagnagrunnar um einkahagi fólks. Eins og hér háttar til má ætla að þær upplýsingar, sem TR myndi afla á grundvelli umrædds ákvæðis, væru oft þess eðlis að ekki væri nein þörf á að varðveita þær innan stofnunarinnar þegar tímabundinni vinnslu í þágu eftirlits væri lokið. Þá gæti einnig komið til þess að í gagnaskrám, sem TR fengi afhentar með vísan til ákvæðisins, væru upplýsingar sem ekki hefðu neitt gildi vegna starfsemi TR. Engu að síður gæti TR verið lögskylt að varðveita þær á grundvelli laga um Þjóðskjalasafn. Því telur Persónuvernd æskilegt að í frumvarpinu verði tekin af tvímæli um að upplýsingar sem aflað er vegna eftirlits verði ekki varðveittar lengur en þar til tímabundinni vinnslu í þágu eftirlitsins sé lokið og verði þeim þá eytt.

Gæta verður að sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga um upplýsingar um sig og því að þeir geti haft yfirsýn yfir hvar sé unnið með þær og hvernig. Lögfesting víðtækra heimilda til handa stjórnvöldum til kerfisbundinnar öflunar upplýsingana um borgarana í þágu eftirlits, án þess að þeir séu fræddir um upplýsingaöflunina, er til þess fallin að draga úr slíkri yfirsýn. Í frumvarpinu kemur ekkert fram um hvernig einstaklingar skuli upplýstir um þá miklu gagnaöflun sem það gerir ráð fyrir. Má þó telja eðlilegt að slíkt sé gert, t.d. með skýrri fræðslu sem veitt er samhliða móttöku umsóknar um bætur hjá TR. Þegar litið er til þessa skorts á fræðslu telur Persónuvernd frumvarpið geta orðið til þess, verði það að lögum, að fram fari bæði ógagnsæ og viðamikil vinnsla persónuupplýsinga um einkahagi manna umfram það sem málefnalegt geti talist. Með vísan til þess telur Persónuvernd æskilegt að við 1. mgr. a.-lið 2. gr. frumvarpsins, um leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar ríkisins, verði bætt ákvæði um skyldu stofnunarinnar til að greina umsækjanda frá því hvaða upplýsinga stofnunin afli vegna eftirlits síns.

2.
Öflun persónuupplýsinga vegna afgreiðslu umsókna
Eins og fyrr er lýst er í frumvarpinu gert ráð fyrir að afnumin verði krafa um að TR afli samþykkis fyrir öflun persónuupplýsinga í tengslum við meðferð umsókna, sbr. 3. mgr. tillögu 3. gr. frumvarpsins að breyttu ákvæði 52. gr. laga nr. 100/2007. Þá er gert ráð fyrir að heimildir til gagnaöflunar vegna umsókna verði þær sömu og vegna eftirlits, sbr. umfjöllun í 1. kafla hér að framan. Í athugasemdum við frumvarpsákvæðið segir meðal annars:

„Má gera ráð fyrir að rafræn öflun upplýsinga geti auðveldað umsækjendum umsóknarferlið og sparað þeim fjármuni þar sem Tryggingastofnun mun geta aflað allra þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til þess að geta afgreitt umsóknina.“

Í framangreindri athugasemd felst í raun að samkvæmt frumvarpinu eigi að svipta menn ráðstöfunarrétti yfir upplýsingum um þá sjálfa með vísan til þess að það sé almennt til þæginda fallið fyrir umsækjendur um bætur hjá TR. Persónuvernd telur hins vegar æskilegt, í ljósi sjónarmiða um sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga og rétt þeirra til yfirsýnar yfir ráðstöfun persónuupplýsinga um sig, að umsækjendum verði áfram veitt færi á að afla sjálfir nauðsynlegra upplýsinga og afhenda þær TR, kjósi þeir að gera það. Má telja óeðlilegt að val einstaklinga í þeim efnum sé afnumið með vísan til þess að almennt megi telja umsækjendum auðveldara að TR hafi alla gagnaöflun með höndum.

- - - - - - - - 

Í ljósi þess sem að framan greinir telur Persónuvernd umrætt frumvarp þurfa nokkurrar endurskoðunar við. Þá skal tekið fram að síðar kann að koma til frekari athugasemda stofnunarinnar í tengslum við meðferð frumvarpsins eftir því sem tilefni kann að gefast til. Að svo stöddu gerir stofnunin hins vegar ekki frekari athugasemdir en að framan greinir.

.



Var efnið hjálplegt? Nei