Viðbótarumsögn um frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði
Stjórn Persónuverndar hefur veitt viðbótarumsögn um frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Lýtur umsögnin að ákvæði um heimild ráðherra til að mæla fyrir um miðlæga gagnagrunna með heilsufarsupplýsingum hjá landlækni. Bent er á að skýrar lagaheimildir þurfi til að koma slíkum gagnagrunnum á fót. Þá segir að stórlega sé dregið í efa að ákvæðið fullnægi kröfum til slíkrar lagaheimildar. Það þarfnist því endurskoðunar við.
Viðbótarumsögn um frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði
Persónuvernd vísar til tölvubréfs velferðarnefndar Alþingis frá 29. janúar 2014 varðandi frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði (þskj. 190, 159. mál á 143. löggjafarþingi). Með bréfi, dags. 12. desember 2013, veitti Persónuvernd umsögn um það frumvarp, sem og frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 110/2000 um lífsýnasöfn (þskj. 191, 160. mál á 143. löggjafarþingi). Í framangreindu tölvubréfi er óskað viðbótarumsagnar, þ.e. um 36. gr. frumvarpsins. Þá segir:
„Í 36. gr. frumvarps til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði eru lagðar til breytingar á öðrum lögum. Í 4. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007. Er í b-lið lagt til að á eftir 2. mgr. 8. gr. laganna, en í ákvæðinu eru tilgreindar með tæmandi hætti þær skrár sem landlæknir heldur með persónugreinanlegum upplýsingum sjúklinga án samþykkis þeirra, komi nýtt ákvæði sem veitir ráðherra reglugerðarheimild til að fela landlækni að halda skrár á landsvísu um meðferð einstakra sjúkdóma eða aðra þætti er snúa að heilsufari og heilbrigðisþjónustu, og verða upplýsingarnar persónugreinanlegar og færðar í skrárnar án samþykkis viðkomandi.“
Tekið er fram í umsögn Persónuverndar frá 12. desember 2013 að frekari athugasemda megi vænta síðar frá stofnuninni. Taldi stofnunin þann fyrirvara brýnan í ljósi starfsaðstæðna hennar á liðnu ári sem gerðu það að verkum að vinna varð allar umsagnir um lagafrumvörp á mjög skömmum tíma óháð því hversu viðamikil þau voru.
Tillaga frumvarpsins að nýrri 3. mgr. 36. gr. laga nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu hljóðar svo:
„Til viðbótar skrám skv. 2. mgr. getur ráðherra með reglugerð falið landlækni að skipuleggja og halda tilteknar skrár á landsvísu um meðferð einstakra sjúkdóma eða aðra þætti er snúa að heilsufari og heilbrigðisþjónustu og færa í þær upplýsingar um nöfn sjúklinga, kennitölur og önnur tiltekin persónuauðkenni, án samþykkis sjúklinga, í þeim tilgangi að tryggja gæði og hagkvæmni þjónustunnar og stuðla að heilbrigði landsmanna.“
Í tengslum við framangreint ákvæði minnir Persónuvernd á dóm Hæstaréttar í máli nr. 151/2003 (gagnagrunnsdóm), en þar segir meðal annars:
„[Upplýsingar sem færðar eru í sjúkraskrá] geta varðað einhver brýnustu einkamálefni þess, sem í hlut á, án tillits til þess hvort þær geti talist honum til hnjóðs. Ótvírætt er að ákvæði 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar tekur til slíkra upplýsinga og veitir sérhverjum manni friðhelgi um einkalíf sitt að þessu leyti. Til að tryggja þá friðhelgi verður löggjafinn meðal annars að gæta að því að lög leiði ekki af sér raunhæfa hættu á að upplýsingar sem þessar um einkahagi tiltekins manns komist í hendur annarra, sem eiga ekki réttmætt tilkall til aðgangs að þeim, hvort sem um er að ræða aðra einstaklinga eða handhafa ríkisvalds.
Með 7. gr. laga nr. 139/1998 er gefinn kostur á því að einkaaðili, sem hvorki er sjúkrastofnun né sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmaður, geti fengið upplýsingar úr sjúkraskrám án þess að sá, sem upplýsingarnar eru um, hafi berum orðum lýst sig samþykkan því. Þótt þetta eitt út af fyrir sig þurfi ekki að vera andstætt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar verður löggjafinn að gættu því, sem að framan greinir, að stuðla að því við setningu reglu sem þessarar að upplýsingarnar verði ekki raktar til ákveðinna manna.“
Framangreindur dómur varðar gerð miðlægs gagnagrunns með sjúkraskrárupplýsingum sem ráðgert var að færa upplýsingar í án samþykkis viðkomandi einstaklinga. Í 1. gr. laga nr. 139/1998 um þennan gagnagrunn kom fram að hann ætti að þjóna vísindalegum tilgangi. Umrætt frumvarpsákvæði skilgreinir hins vegar ekki að neinu leyti þann tilgang sem gagnagrunnar samkvæmt því myndu þjóna. Í athugasemdum við ákvæðið kemur þó fram að meðal annars geti hér verið um svonefnda meðferðargrunna að ræða sem nýttir séu til að halda utan um kostnaðarsama meðferð eða meðferð sjaldgæfra sjúkdóma. Slíkir gagnagrunnar hjá stjórnvöldum verða ekki að öllu leyti lagðir að jöfnu við þann gagnagrunn sem framangreindur dómur lýtur að. Við lagasetningu um þá ber engu að síður að líta til þeirra grunnsjónarmiða um skýrleika lagaheimilda til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga sem byggt er á í dómnum. Þá er til þess að líta að með öllu er ófyrirsjáanlegt hvaða gagnagrunnar kynnu að verða haldnir á grundvelli ákvæðisins.
Það frumvarpsákvæði, sem hér er til umfjöllunar, myndi fela í sér heimild framkvæmdarvaldsins til að koma á fót þeim heilbrigðisskrám hjá landlækni sem það kýs án samþykkis hinna skráðu. Persónuvernd dregur stórlega í efa að svo víðtækt og óheft framsal löggjafans á valdi sínu til framkvæmdarvaldsins fái staðist ákvæði 71. gr. stjórnarskrár. Þegar veitt er lagaheimild til að koma á fót miðlægum gagnagrunnum án samþykkis viðkomandi einstaklinga verður löggjöfin að mæla fyrir um meginreglur þar sem fram koma takmörk og umfang þeirrar einkalífsskerðingar sem talin er nauðsynleg. Í því felst meðal annars að löggjöf afmarki (a) hvaða miðlægu heilsufarsskrár stjórnvöldum sé heimilt að halda án samþykkis hinna skráðu, (b) hvaða upplýsingar þar megi skrá, (c) í hvaða tilgangi og (d) hvernig öryggis upplýsinganna verði gætt.
Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd umrætt frumvarpsákvæði þurfa endurskoðunar við. Leggur stofnunin áherslu á að við slíka endurskoðun verði tekið tillit til framangreindra sjónarmiða.