Frumvarp til laga um meðferð einkamála
Reykjavík, 18. maí 2015
Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um meðferð einkamála o.fl. (605. mál)
I.
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis hefur sent Persónuvernd til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála, lögum um aðför, lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum um dómstóla (einföldun réttarfars), þskj. 1049, 605. mál á 144. löggjafarþingi.
Frumvarpið er samið af réttarfarsnefnd að tilhlutan innanríkisráðherra og er því m.a. ætlað að auka skilvirkni við afgreiðslu dómsmála með því að einfalda reglur og auka afköst og hraða við meðferð mála. Þá er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um heimild til að birta héraðsdóma opinberlega sem og að settar verði reglur um afmáningu viðkvæmra upplýsinga úr þeim.
II.
Tillögur að breytingum á lögum nr. 90/1989, 12/1991, 21/1991 og 88/2008
Persónuvernd telur ekki tilefni til athugasemda við breytingar frumvarpsins á ákvæðum laga um um aðför, nr. 90/1989, um meðferð einkamála, nr. 19/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, og um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
III.
Tillögur að breytingum á lögum um dómstóla, nr. 15/1998
Í 33. gr. frumvarpsins er annars vegar lögð til breyting á 2. mgr. 11. gr. laga um dómstóla á þann veg að ásamt dómum Hæstaréttar Íslands skuli einnig birta úrlausnir héraðsdómstóla sem við eiga hverju sinn. Hins vegar er lögð til sú breyting að við útgáfu dóma skuli nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari eftir reglum sem rétturinn setur.
Í 34. gr. frumvarpsins er lagt til að nýtt ákvæði, 22. gr. a, verði bætt við lögin um að dómar héraðsdómstóla skuli gefnir út. Í 1. mgr. hins nýja ákvæðis segir að um tilhögun útgáfunnar fari eftir ákvörðun dómstólaráðs að fengnu
ráðherra. Í 2. mgr. segir að héraðsdómar í einkamálum sem varða viðkvæm persónuleg málefni aðila, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna og umgengi við þau, skuli ekki gefnir út. Við útgáfu annarra dóma skuli nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem eðlilegt er að leynt fari. Í því skyni skuli í sakamálum gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir, þó ekki um ákærða sé hann sakfelldur, nema um sé að ræða börn. Einnig skuli gæta nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða sé til. Þegar nöfnum sé haldið leyndum skuli jafnframt afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið. Dómstólaráð skuli setja nánari reglur um hvaða dómar skuli ekki gefnir út og hvernig standa skuli að brottnámi upplýsinga úr öðrum dómum
Í 2. mgr. 34. gr. frumvarpsins segir að þegar nöfnum sé haldið leyndum skuli jafnframt afmá önnur atriði úr dómi sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið. Leggur stofnunin til að nánar verði skilgreint hvaða upplýsingar um ræðir, s.s. upplýsingar um sjúkdómsástand, sjúkrasögu, nákvæmar læknisfræðilegar lýsingar og dvalarstað sem ekki skipta sköpum um niðurstöðu dóma, sbr. eftirfarandi tillögu að breyttu orðalagi (tillaga að breytingu feitletruð):
„Einnig skuli gæta nafnleyndar í dómum í einkamálum ef sérstök ástæða sé til. Þegar nöfnum sé haldið leyndum skuli jafnframt afmá önnur atriði úr dómi, s.s. upplýsingar um sjúkdómsástand, sjúkrasögu, nákvæmar læknisfræðilegar lýsingar og dvalarstað, sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið og skipta ekki sköpum um niðurstöðu dóms.“
Í tillögum 33. og 34. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að afmá skuli upplýsingar um einka-, fjárhags- og viðskiptahagsmuni einstaklinga (og lögpersóna, en vernd upplýsinga um þær fellur að öllu jöfnu utan verkefnasviðs Persónuverndar) sem eðlilegt er að fari leynt. Sambærilegt ákvæði 1. og 3. mgr. 16. gr. núgildandi laga nr. 88/2008 er hins vegar orðað svo að afmá skuli fyrrnefndar upplýsingar, sem sanngjarnt er og eðlilegt að fari leynt. Er slíkt orðalag núgildandi ákvæðis í samræmi við 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 sem kveður á um að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er jafnframt kveðið á um að öll vinnsla persónuupplýsinga skuli vera sanngjörn, málefnaleg og lögmæt. Af þeim sökum leggur Persónuvernd til að orðalagi 33. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að vísað verði til þess að afmá skuli upplýsingar sem sanngjarnt og eðlilegt er að fari leynt, sbr. eftirfarandi tillögu stofnunarinnar (tillaga að breytingu feitletruð):
„b. Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Við útgáfu dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari eftir reglum sem rétturinn setur.“
Á sama hátt leggur stofnunin til að orðalagi 3. mgr. 34. gr. frumvarpsins verði breytt á sambærilegan hátt, en 1. og 2. málsl. hljóði þá svo (tillaga að breytingu feitletruð):
„Héraðsdómar í einkamálum sem varða viðkvæm persónuleg málefni aðila, svo sem lögræði, sifjar, erfðir, forsjá barna og umgengni við þau, skulu ekki gefnir út. Við útgáfu annarra dóma skal nema brott úr þeim upplýsingar um einka-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuni einstaklinga ellegar lögpersóna, svo og upplýsingar um öryggi ríkisins og varnarmál, sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari.“
Þá segir einnig í tillögu 34. gr. frumvarpsins að Hæstarétti Íslands og Dómstólaráði sé falið að setja nánari reglur um þau sjónarmið sem afmáning persónuupplýsinga úr dómum skuli byggja á. Persónuvernd telur eðlilegra að löggjafinn taki skýra afstöðu til þess hvenær og þá hvaða upplýsingar afmá beri úr dómum og dómsúrlausnum fyrir birtingu þeirra og við hvaða sjónarmið skuli styðjast við afmáninguna.
Samandregnar niðurstöður Persónuverndar eru því eftirfarandi:
- Að nánar verði skilgreint hvaða önnur atriði skuli afmá úr dómum þegar nöfnum er haldið leyndum, sem tengt geta aðila eða aðra við sakarefnið, sbr. 2. mgr. 34. gr. frumvarpsins.
- Að orðalagi 33. og 3. mgr. 34. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að vísað verði til þess að afmá skuli upplýsingar sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari.
- Að löggjafinn taki skýra afstöðu til þess hvenær, og eftir atvikum hvaða, upplýsingar beri að afmá úr dómum og dómsúrlausnum fyrir birtingu þeirra og við hvaða sjónarmið skuli styðjast í þeim efnum.
- - - - - - - - - - - - -Að öðru leyti en að framan greinir gerir Persónuvernd ekki athugasemdir við frumvarpið að svo stöddu.