Umsagnir

Umsögn Persónuverndar um drög að frumvarpi til breytinga á lögreglulögum nr. 90/1996, með síðari breytingum (afbrotavarnir og vopnaburður)

Mál nr. 2022030515

30.3.2022

1.
Almennt

Persónuvernd vísar til draga að frumvarpi um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996, með síðari breytingum (afbrotavarnir og vopnaburður), sem birt var í samráðsgáttinni þann 8. mars 2022.

Í frumvarpsdrögum er gert ráð fyrir heimild lögreglu til að afla upplýsinga og viðhafa eftirlit í þágu afbrotavarna við framkvæmd almennra löggæslustarfa og frumkvæðisverkefna auk heimildar til lögreglu til að viðhafa sérstakt eftirlit með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða sem kann að stafa sérgreind hætta af fyrir almannaöryggi.

2. 
Eftirlit með aðgerðum lögreglu

Í 2. mgr. 3. gr. frumvarpsdraga segir að hafi lögregla upplýsingar um að tiltekinn einstaklingur eða hópur einstaklinga hafi tengsl við skipulagða brotastarfsemi eða að af þeim starfi sérgreind hætta fyrir almannaöryggi sé lögreglu heimilt að hafa eftirlit með viðkomandi, þ. á m. að afla upplýsinga um hann og fylgjast með ferðum hans á almannafæri eða öðrum stöðum sem almenningur á aðgang að.

Í 4. gr. frumvarpsdraga er fjallað um eftirlit með aðgerðum lögreglu. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að sé eftirliti skv. framangreindu ákvæði 2. mgr. 3. gr. frumvarpsdraga hætt án þess að grunur sé um afbrot skuli lögregla tilkynna nefnd um eftirlit með lögreglu um aðgerðina eins fljótt og unnt er og að tilkynningu skuli fylgja upplýsingar og rökstuðningur fyrir viðkomandi aðgerð. Í 2. mgr. 4. gr. segir meðal annars að ef afstaða nefndarinnar sé sú að aðgerðir lögreglu hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna eða að eftirlit með einstaklingum hafi verið að ósekju geti nefndin beint því til lögreglustjóra að tilkynna viðkomandi að hann hafi sætt eftirliti. Einnig segir að vakni grunur um refsiverða háttsemi skuli nefndin án tafar senda mál til héraðssaksóknara eða eftir atvikum ríkissaksóknara til meðferðar.

Samkvæmt athugasemdum við 4. gr. frumvarpsdraga er ekki gert ráð fyrir því að afstaða nefndarinnar verði birt opinberlega eða komi almennt til vitundar þess sem þurfti að sæta aðgerðum lögreglunnar. Þá segir að tilkynningarskylda til nefndarinnar komi í stað þess að lögreglu beri að tilkynna viðkomandi einstaklingi að hann hafi sætt eftirliti og að tilkynningarskylda af því tagi væri til þess fallin að takmarka árangur og draga úr skilvirkni aðgerða í þágu afbrotavarna.

Í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er mælt fyrir um grunnregluna um friðhelgi einkalífs og skilyrði þess að sá réttur sé takmarkaður. Þau eru ströng og þarf brýna nauðsyn að bera til skerðingar vegna réttinda annarra. Ljóst er að eftirlit lögreglu með einstaklingum felur almennt í sér viðamikla skerðingu á friðhelgi einkalífs, auk þess sem hér er um að ræða heimildir til eftirlits með einstaklingum þótt ekki liggi fyrir rökstuddur grunur um að framið hafi verið tiltekið afbrot.

Eins og rakið hefur verið er í frumvarpsdrögum gert ráð fyrir heimild lögreglu til að hafa eftirlit með einstaklingum án þess að þeir fái almennt vitneskju þar að lútandi. Að mati Persónuverndar þarf að gæta ítrustu varfærni við lögfestingu slíkra heimilda til skerðinga á rétti einstaklinga til friðhelgi einkalífs. Þá telur Persónuvernd að ef vilji er fyrir slíku sé það lágmarkskrafa í ljósi gagnsæis að einstaklingum sé tilkynnt um að þeir hafi sætt eftirliti þegar því er hætt, með fyrirvara um heimild til að fresta slíkri tilkynningu þar til rannsóknarhagsmunir eru liðnir undir lok.

3.
Tilkynning til nefndar um eftirlit með lögreglu

Í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsdraga segir að sé eftirliti skv. 2. mgr. 15. gr. a. hætt án þess að grunur sé um afbrot skuli lögregla tilkynna nefnd um eftirlit með lögreglu um aðgerðina eins fljótt og unnt er.

Í ljósi þeirra viðamiklu skerðinga á friðhelgi einkalífs sem eftirlit lögreglu felur í sér, er að mati Persónuvernd nauðsynlegt að skilgreina innan hvaða frests lögreglu beri að tilkynna nefndinni um að eftirliti hafi verið hætt án þess að grunur sé um afbrot. Leggur Persónuvernd því til að lögreglu beri að tilkynna nefndinni um aðgerðir eins fljótt og unnt er, þó eigi síðar en 30 dögum eftir að aðgerð var hætt.

4.
Eftirlit með upplýsingaöflun lögreglu.

Í 3. mgr. 3. gr. frumvarpsdraga er gert ráð fyrir heimild lögreglu til þess að afla persónuupplýsinga hjá öðrum stjórnvöldum, stofnunum og opinberum hlutafélögum ef upplýsingarnar eru nauðsynlegar og til þess fallnar að hafa verulega þýðingu fyrir starfsemi hennar í tengslum við að rannsaka eða afstýra brotum gegn ákvæðum X. og XI. kafla almennra hegningarlaga. Viðkomandi stjórnvaldi, stofnun eða hlutafélagi er þá skylt að verða við slíkri beiðni. Í athugasemdum við ákvæðið segir meðal annars að sambærilegt ákvæði sé í dönskum lögum um starfsemi öryggisstofnunar dönsku lögreglunnar (d. lov om Politiets efterretningstjeneste (PET)).

Í frumvarpsdrögum er ekki ráð fyrir sérstöku eftirliti með upplýsingaöflun lögreglu, eins og er t.d. gert þegar lögregla hefur eftirlit með einstaklingum, sbr. 2. kafla hér að framan. Upplýsingaöflun lögreglu mun því falla undir almennt eftirlit Persónuverndar samkvæmt lögum nr. 75/2018 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Af því leiðir m.a. að Persónuvernd hefur heimildir til að fjalla um slíka upplýsingaöflun, að eigin frumkvæði eða í kjölfar kvörtunar, en þess ber hins vegar að geta að stofnunin hefur ekki getað sinnt frumkvæðiseftirliti sínu sem skyldi undanfarin ár vegna mikils verkefnaálags og undirmönnunar.

Athygli er jafnframt vakin á því að samkvæmt 9. kafla laga um öryggisstofnun dönsku lögreglunnar sætir hún eftirliti sjálfstæðrar eftirlitsnefndar (d. Tilsynet med efterretningstjenesterne), auk þess sem sérstök þingnefnd hefur eftirlit með vinnslu persónuupplýsinga á vegum stofnunarinnar í samræmi við lög þar um (d. lov om etablering af et udvalg om forsvarets og politiets efterretningstjenester).

Að mati Persónuverndar væri þörf sérstaks eftirlits með upplýsingaöflun lögreglu sambærilegu því eftirliti sem er með aðgerðum lögreglu samkvæmt 2. mgr. 3. gr. frumvarpsdraganna. Leggur Persónuvernd því til að lögreglu verði að lágmarki gert að senda nefnd um eftirlit með lögreglu tilkynningar um upplýsingaöflun með rökstuðningi fyrir nauðsyn hennar og hvernig upplýsingarnar séu til þess fallnar að hafa verulega þýðingu fyrir starfsemi lögreglunnar í tengslum við að rannsaka eða afstýra brotum gegn X. og XI. kafla almennra hegningarlaga. Komist nefndin að þeirri niðurstöðu að upplýsingaöflunin hafi ekki uppfyllt framangreind skilyrði skuli nefndin senda Persónuvernd ábendingu um málið og eftir atvikum senda það til héraðssaksóknara eða ríkissaksóknara til meðferðar.

5.
Almennar athugasemdir

Í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu er mælt fyrir um grunnregluna um friðhelgi einkalífs og skilyrði þess að sá réttur sé takmarkaður. Þau eru ströng og þarf brýna nauðsyn að bera til skerðingar vegna réttinda annarra. Ljóst er að beiting þeirra heimilda sem lagðar eru til í frumvarpsdrögum myndi fela í sér viðamikla skerðingu á friðhelgi einkalífs. Persónuvernd leggur því áherslu á að ítrustu varfærni sé gætt við mat á því hvort lögfesta beri slíkar heimildir. Til að þær geti átt rétt á sér er til að mynda ljóst að þær mega einungis beinast að allra alvarlegustu brotum, sem og að skilgreiningin á slíkum brotum verður að vera mjög skýr; ella kann að skapast hætta á misnotkun heimildanna þannig að þeim sé beitt um tilvik sem með réttu ættu ekki að heyra undir þær.

Þá er athygli vakin á því að í 3. gr. frumvarpsdraga er lagt til að á eftir 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 komi ný grein, 15. gr. a., ásamt fyrirsögn. Í 4. gr. frumvarpsdraga er lagt til að á eftir 15. gr. b. sömu laga komi nú 15. gr. c., ásamt fyrirsögn. Hvorki í frumvarpsdrögum né í lögum nr. 90/1996 er að finna 15. gr. b. og leggur Persónuvernd því til að 4. gr. frumvarpsdraga verði breytt til að endurspegla það.

                                                       __________________

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni draganna, en Persónuvernd áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum við þinglega meðferð málsins ef stofnunin telur þörf á. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

                                                       F.h. Persónuverndar,

                              Þórður Sveinsson                           Gunnar Ingi Ágústsson



Var efnið hjálplegt? Nei