Umsagnir

Umsögn Persónuverndar um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 (alþjóðlega vernd)

Mál nr. 2022010273

16.2.2022

1.

Persónuvernd vísar til draga að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga nr. 80/2016 (alþjóðlega vernd) sem birtist í samráðsgáttinni þann 28. janúar 2022.

Í 3. gr. frumvarpsdraganna er gert ráð fyrir breytingu á 17. gr. núgildandi útlendingalaga nr. 80/2016 sem fjallar um vinnslu persónuupplýsinga. Í breytingu á 1. mgr. 17. gr. laganna felst að heilbrigðisyfirvöldum verði bætt við þá aðila sem verður heimil vinnsla persónuupplýsinga útlendinga að fullnægðum heimildarákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem og að því marki sem mælt er fyrir um heimildir til slíkrar vinnslu í útlendingalögum. 

Þá er í sömu grein frumvarpsdraganna einnig lögð til breyting á 3. mgr. 17. gr. útlendingalaganna. Er tilgreindum aðilum 1. mgr., þ. m. t. heilbrigðisyfirvöldum, gert að upplýsa og afhenda lögreglu eða hlutaðeigandi stjórnvaldi þau gögn sem það gæti krafist, fái þau upplýsingar sem gætu falið í sér hugsanlegt lögbrot.

Í athugasemdum við ákvæðið segir að í ákvæðinu sé heilbrigðisyfirvöldum bætt við þær stofnanir sem hafa heimild til vinnslu persónuupplýsinga um útlendinga. Fram kemur að með heilbrigðisyfirvöldum sé átt við heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn hvort sem þeir starfa innan eða utan heilbrigðisstofnana. Einnig kemur fram í lögskýringargögnum að það sé stjórnvöldum mikilvægt að tryggja hlutaðeigandi stjórnvöldum verði gert kleift að afla allra nauðsynlegra upplýsinga og gagna frá heilbrigðisyfirvöldum sem þörf er á svo þau geti sinnt skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 80/2016 um útlendinga. Einkum til að tryggja að ekki séu fyrir hendi ástæður sem koma í veg fyrir framkvæmd flutnings, t.d. á grundvelli heilbrigðisástæðna eða skorts á vottorðum um fullnægjandi mótefna- eða bólusetningar á landamærum sem séu oft og tíðum skilyrði fyrir inngöngu í hlutaðeigandi ríki. Þá kemur fram í lögskýringargögnum að Persónuvernd hafi, í áliti sínu frá 16. desember 2021 í máli nr. 2021101969, talið fyrirliggjandi heimild í lögum nr. 80/2016 um útlendinga ófullnægjandi til öflunar lögreglu á mótefna- og bólusetningarvottorðum frá heilbrigðisyfirvöldum án samþykkis þeirra einstaklinga sem í hlut eiga eða dómsmeðferðar. Framangreindri breytingartillögu í frumvarpsdrögunum sé ætlað að tryggja fullnægjandi lagaheimild fyrir vinnslunni. 

2.

Persónuvernd áréttar mikilvægi þess að við framangreinda vinnslu persónuupplýsinga verði gætt að meginreglum persónuverndarlaga, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 og 1. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679. Sérstaklega er mikilvægt að huga að þeim meginreglum sem lúta að gagnsæi, sanngirni, meðalhófi og öryggi upplýsinga. Í því sambandi áréttar Persónuvernd að hugað verði að innbyggðri og sjálfgefinni persónuvernd á öllum stigum styðjist ábyrgðaraðilar við tæknilausnir við miðlun umræddra persónuupplýsinga og geri tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra.

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni draga frumvarpsins að svo stöddu. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.


F.h. Persónuverndar,


Vigdís Eva Líndal               Rebekka Rán Samper




Var efnið hjálplegt? Nei