Umsagnir

Umsögn um frumvarp til kosningalaga

Mál nr. 2020123106

18.1.2021

Efni: Umsögn um frumvarp til kosningalaga, 339. mál

Persónuvernd vísar til beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis frá 18. desember 2020 um umsögn um frumvarp til kosningalaga (þskj. 401, 339. mál á 151. löggjafarþingi).

Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um kosningar. Lagt er til að lögin gildi um kosningar til Alþingis og sveitarstjórna, um framboð og kjör forseta Íslands og um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Með bréfi, dags. 20. apríl 2020, veitti Persónuvernd umsögn til starfshóps um endurskoðun kosningalaga varðandi drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um kosningar. Í umsögn Persónuverndar voru gerðar athugasemdir við tiltekin ákvæði frumvarpsdraganna auk þess sem vakin var athygli á áliti stjórnar Persónuverndar, dags. 5. mars s.á. þar sem fjallað var um notkun stjórnmálasamtaka á samfélagsmiðlum fyrir kosningar til Alþingis 2016 og 2017.

Í því frumvarpi sem nú er óskað umsagnar Persónuverndar um hefur verið tekið tillit til athugasemda stofnunarinnar við ákvæði frumvarpsins. Þá segir í greinargerð með frumvarpinu að þrátt fyrir mikilvægi umfjöllunarefnis álits stjórnar Persónuverndar þá snúi það ekki að framkvæmd kosninga og eigi betur heima í frumvarpi til heildarlaga um starfsemi stjórnmálasamtaka, sem starfshópur á vegum forsætisráðherra vinnur nú að, fremur en í frumvarpi til kosningalaga. Persónuvernd fellst á þær röksemdir sem fram koma í greinargerð og er tilbúin að vera starfshópnum innan handar ef óskað er eftir frekari aðkomu Persónuverndar í tengslum við þá vinnu.

Með hliðsjón af framangreindu eru ekki gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins.

F.h. Persónuverndar,

Þórður Sveinsson                     Helga Sigríður Þórhallsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei