Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda

Mál nr. 2021030606

9.4.2021

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda

1.

Persónuvernd vísar til beiðni velferðarnefndar Alþingis frá 9. mars 2021 um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda (þskj. 236, 233. mál á 151. löggjafarþingi).

Persónuvernd gerir athugasemdir við eftirfarandi atriði:

2.

Í frumvarpinu eru stéttarfélögum og trúnaðarmönnum þeirra veittar ríkar heimildir til öflunar persónuupplýsinga um einstaklinga frá atvinnurekendum þeirra, þegar grunur er um að atvinnurekandi hafi vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi greitt launamanni laun eða önnur starfskjör sem eru lakari en umsamin lágmarkskjör á vinnumarkaði.

Hvorki af frumvarpinu né greinargerð þess má ráða að gerð sé krafa um að öflun persónuupplýsinga um félagsmenn stéttarfélaga eða af hálfu trúnaðarmanna þeirra sé að frumkvæði eða í umboði þeirra einstaklinga sem um ræðir.

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2018 er gert ráð fyrir að vinnsla persónuupplýsinga geti verið heimil sé hún nauðsynleg til að ábyrgðaraðili eða hinn skráði geti staðið við skuldbindingar sínar og nýtt sér tiltekin réttindi samkvæmt vinnulöggjöf og hún fari fram á grundvelli laga. Einnig er gert ráð fyrir að vinnsla, sem fer fram sem liður í lögmætri starfsemi stéttarfélaga, geti verið heimil enda nái hún einungis til meðlima eða fyrrum meðlima viðkomandi aðila eða einstaklinga sem eru í reglulegu sambandi við hann, sbr. 4 tölul. 1. mgr. 11. gr. laganna.

Í framkvæmd hefur Persónuvernd litið svo á að stéttarfélögum sé heimilt að óska eftir tilteknum lágmarksupplýsingum um sína félagsmenn, s.s. upplýsingum um launaflokkaröðum og föst kjör félagsmanna. Öflun upplýsinga um heildarlaun einstakra starfsmanna, s.s. upplýsingar um tilfallandi greiðslur vegna yfirvinnu eða rekstur bifreiðar hefur hins vegar einungis verið talin heimil á grundvelli samþykkis þeirra starfsmanna sem um ræðir, sbr. t.d. álit Persónuverndar í máli nr. 2011/201.

Í ljósi framangreinds telur Persónuvernd að þær heimildir stéttarfélaga sem frumvarpið gerir ráð fyrir séu að einhverju leyti nú þegar til staðar, sbr. 2. og 4. tölul. 11. gr. laga nr. 90/2018. Í ljósi sjónarmiða um sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga getur slík vinnsla einnig byggst á samþykki og/eða umboði þeirra einstaklinga sem um ræðir.

Af framangreindum ástæðum vill Persónuvernd árétta að við öflun svo umfangsmikilla upplýsinga sem frumvarpið gerir ráð fyrir er eðlilegt að gera kröfu um að fyrir liggi umboð eða samþykki félagsmanna viðkomandi stéttarfélags.

F.h. Persónuverndar,

Helga Sigríður Þórhallsdóttir                             Vigdís Sigurðardóttir



Var efnið hjálplegt? Nei