Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmála (öflun sakavottorðs)
Mál nr. 2021040888
Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmála (öflun sakavottorðs).
Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 15. apríl 2021 um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviði mennta- og menningarmála (öflun sakavottorðs) (þskj. 1194, 715. mál á 151. löggjafarþingi).
Með frumvarpinu er tilteknum aðilum, svo sem leikskólum, grunnskólum og íþróttafélögum veitt heimild til að vinna með persónupplýsingar um refsiverða háttsemi umsækjenda og starfsmanna í þeim tilgangi að auka öryggi viðkvæmra hópa í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þá er lagt til bann við því að starfsfólk sömu aðila hafi hlotið dóm fyrir brot á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Persónuvernd gerir athugasemdir við eftirfarandi atriði:
1.
Í ákvæðum frumvarpsins segir að við ráðningu hjá þeim aðilum sem frumvarpið varðar skuli liggja fyrir sakavottorð eða heimild frá umsækjanda fyrir þann sem fer með ráðningarvald til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Auk þess segir að til að tryggja að starfsmenn uppfylli skilyrði til að gegna starfi sé heimilt fyrir þann sem fer með ráðningarvald að óska eftir endurnýjun á sakavottorði eða heimild til að afla upplýsinga úr sakaskrá reglulega, þó ekki oftar en einu sinni á ári. Heimilt er þó að afla framangreindra upplýsinga oftar ef fram koma upplýsingar sem gefa tilefni til þess.
Við alla vinnslu persónuupplýsinga skal gæta þess að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði er vakin athygli á að í greinargerð með frumvarpinu segir að meðal annars hafi verið höfð hliðsjón af vinnu starfshóps um upplýsingagjöf úr sakaskrá. Í skýrslu þeirri, um heimild stofnana og félagasamtaka er starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá, sem gefin var út af dómsmálaráðuneytinu í september 2020, segir meðal annars í 6. mgr. XIV. kafla að tryggja þurfi að ekki séu gefnar ítarlegri upplýsingar um sakaferil en þörf er á til að uppfylla kröfur laga. Einnig segir að ef einfalt já eða nei dugi, eða merking þess efnis að viðkomandi umsækjandi/sjálfboðaliði hafi staðist bakgrunnsskoðun ætti það að vera fullnægjandi og að ekki sé þörf á útgáfu sakavottorðs. Þá segir að eingöngu ætti að vera þörf á útgáfu sakavottorðs (fulls vottorðs) í tilviki barnaverndarlaga. Ekki verður séð að hugað hafi verið að framangreindum sjónarmiðum um meðalhóf við vinnslu persónuupplýsinga við gerð frumvarpsins.
Að mati Persónuverndar er æskilegt að frumvarpið verði yfirfarið með framangreind sjónarmið í huga og metið hvort vinnsla persónuupplýsinga sé umfram það sem nauðsynlegt er með hliðsjón af þeim tilgangi sem stefnt er að.
2.
Í fyrrnefndri skýrslu um heimild stofnana og félagasamtaka er starfa með börnum til að afla upplýsinga úr sakaskrá segir meðal annars í 5. mgr. XIV. kafla hennar að tryggja verði að ávallt liggi fyrir staðfesting á því að sá sem upplýsingarnar úr sakaskrá varði, hafi fengið fullnægjandi fræðslu um þá vinnslu persónuupplýsinga, sem fram fer hverju sinni, áður en þær eru gefnar.
Að mati Persónuverndar er æskilegt að ábyrgðaraðila verði gert að veita umsækjanda/sjálfboðaliða fræðslu um þá vinnslu persónuupplýsinga sem um ræðir. Að auki leggur Persónuvernd til að sú fræðsla verði ávallt skrifleg, eftir atvikum ásamt munnlegum skýringum.
Með vísan til framangreinds leggur Persónuvernd til eftirfarandi breytingu á ákvæðum frumvarpsins þannig að við hverja af 1.-10. gr. frumvarpsins bætist eftirfarandi málsgrein:
„[Viðkomandi stofnun eða félagasamtökum] ber að upplýsa málsaðila skriflega um fyrirhugaða upplýsingaöflun samkvæmt ákvæðinu í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 14. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/679.“
3.
Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.
F.h. Persónuverndar,
Vigdís Eva Líndal Gunnar Ingi Ágústsson