Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018

Mál nr. 2021030672

19.3.2021

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018

Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 16. mars 2021 um umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (þskj. 993, 585. mál á 151. löggjafarþingi).

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lagabálkum til að styrkja lagagrundvöll fyrir vinnslu persónuupplýsinga til samræmis við lög nr. 90/2018 hjá þeim stofnunum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Persónuvernd fékk drög að ofangreindu frumvarpi send til umsagnar á fyrri stigum, fyrst þann 29. janúar 2020, því næst þann 28. ágúst s.á. og loks þann 28. janúar 2021. Veitti stofnunin umsögn um frumvarpsdrögin 24. nóvember 2020 auk viðbótarumsagnar 16. febrúar 2021. Þá var haldinn var einn fundur vegna málsins. Afrit beggja umsagna Persónuverndar eru hjálögð, en þegar hefur verið tekið tillit til flestra athugasemda stofnunarinnar.

Persónuvernd gerir athugasemdir við eftirfarandi atriði:

1.

Í 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir heimild framhaldsskóla til vinnslu persónuupplýsinga að því marki sem nauðsynlegt er til að sinna lögbundnu hlutverki þeirra, meðal annars í tengslum við viðburði á vegum nemendafélaga samkvæmt 39. gr. laga nr. 92/2008. Í þeirri grein kemur fram að nemendafélög starfi á ábyrgð skóla en í athugasemdum með 5. gr. frumvarpsins segir hins vegar að skólameistara sé veitt heimild til að vinna með upplýsingar í tengslum við starfsemi nemendafélaga.

Persónuvernd gerði athugasemd við þetta atriði í umsögn sinni, dags. 24. nóvember 2020 og benti á að ábyrgðaraðili vinnslu er almennt sú stofnun sem tekur ákvörðun um tilgang og aðferðir við vinnslu, en ekki einstaka starfsmenn. Lagði stofnunin til að umfjöllun í athugasemd með 5. gr. frumvarpsdraganna yrði breytt til að endurspegla framangreint. Orðið var við þessari ábendingu Persónuverndar í þeirri útgáfu frumvarpsdraganna sem stofnunin fékk senda þann 28. janúar 2021. Svo virðist hins vegar sem umfjöllun í athugasemd með 5. gr. fyrirliggjandi frumvarps sé samhljóða þeirri sem Persónuvernd gerði athugasemd við í umsögn sinni, dags. 24. nóvember 2020. Persónuvernd áréttar því síðastnefnda athugasemd og vekur athygli á að í núverandi mynd er ósamræmi milli orðalags frumvarpsgreinarinnar og athugasemdar með henni að þessu leyti.

_____________________

 

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Vigdís Eva Líndal                     Vigdís Sigurðardóttir



Var efnið hjálplegt? Nei