Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótun á sviði stafrænnar þróunar
Mál nr. 2021030611
Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótun á sviði stafrænnar þróunar
Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 8. mars 2021 um umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnumótun á sviði stafrænnar þróunar (þskj. 775, 455. mál á 151. löggjafarþingi).
Í tillögunni er lagt til að gerð verði stefna og aðgerðaráætlun til fimm ára sem móti framtíðarsýn stafrænnar þróunar á Íslandi sem taki til alls samfélagsins. Þá verði meðal annars lögð áhersla á netöryggismál, gagnaaðgengi og nýtingu gagna, sem bæði snýr að atvinnulífinu og hinu opinbera, stafrænt stjórnkerfi, stafræna innviði og gervigreind. Tilgangurinn er að gera Ísland samkeppnishæfara í alþjóðlegu samhengi.
Persónuvernd gerir athugasemdir við að ekki sé vísað til þess í tillögunni að lögð skuli áhersla á persónuvernd einstaklinga. Það er mat Persónuverndar að til að stafræn áform íslenska ríkisins og samfélagsins alls nái fram að ganga þurfi einnig að leggja áherslu á persónuvernd einstaklinga, enda hér um stjórnarskrárvarin réttindi einstaklinga að ræða.
Þannig áréttar Persónuvernd að við framkvæmd umræddrar stefnu og aðgerðaráætlunar, sem vísað er til í tillögunni, verði gætt í einu og öllu að lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þegar unnið er með persónuupplýsingar einstaklinga – enda í mörgum tilvikum unnt að rekja stafræn gögn til einstaklinga.
Með vísan til þess lögbundna hlutverks Persónuverndar að veita Alþingi,
stjórnvöldum og öðrum aðilum ráðgjöf á sviði lagasetningar og stjórnsýslu sem
tengist vernd einstaklinga við vinnslu persónuupplýsinga lýsir stofnunin sig
reiðubúna til að koma að frekari vinnu stjórnvalda um stefnu á sviði stafrænnar
þróunar, til að fylgja eftir þeim mikilvægu sjónarmiðum sem tengd eru vernd
persónuupplýsinga.
F.h. Persónuverndar,
Helga Þórisdóttir Rebekka Rán Samper