Umsögn um tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál
Mál nr. 2020102677
Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál
Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 20. október 2020 um umsögn um tillögu til þingsályktunar um upplýsingamiðlun um heimilisofbeldismál (þskj. 86, 85. mál á 151. löggjafarþingi).
Með þingsályktunartillögunni er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að setja á fót starfshóp sem verði falið að móta tillögur um bætt verklag við miðlun upplýsinga um heimilisofbeldismál milli kerfa félagsþjónustu sveitarfélaga, heilbrigðisstofnana, skóla og lögregluembætta. Starfshópurinn á meðal annars að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga, þ. á m. með forvirkum lagaheimildum til upplýsingamiðlunar.
Í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994, er mælt fyrir um réttinn til friðhelgi einkalífs og skilyrði þess að hann sé takmarkaður. Þau skilyrði eru ströng og þarf brýna nauðsyn að bera til skerðingar á honum vegna réttinda annarra.
Persónuvernd bendir á nauðsyn þess að gætt sé að ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, við þá vinnslu persónuupplýsinga sem hér um ræðir, og að við undirbúning tillagna um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga verði sérstaklega hugað að þeim kröfum sem gera verður til slíkra lagaheimilda samkvæmt persónuverndarlögum og reglugerð (ESB) 2016/679.
Í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 segir að þegar vinnsla fari fram á grundvelli lagaheimildar skuli í þeim lögum mæla fyrir um tilgang vinnslunnar. Einnig segir að í lögunum skuli m.a. tilgreina almenn skilyrði varðandi lögmæta vinnslu ábyrgðaraðilans, tegund gagna sem vinnslan varðar, hlutaðeigandi skráða einstaklinga, hvaða stofnanir megi fá persónuupplýsingar í hendur og í hvaða tilgangi. Í því samhengi er bent á að sem endranær gildir það viðmið að eftir því sem vinnslan hefur í för með sér meiri íhlutun í einkalíf hinna skráðu, þeim mun ótvíræðari verða slík lagaákvæði að vera, sbr. t.d. athugasemdir við 2. tölul. 11. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 90/2018.
Þá er áréttað að öll vinnsla persónuupplýsinga þarf jafnframt að samrýmast grunnreglum persónuverndar, s.s. um sanngirni og meðalhóf, sbr. 1. og 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, auk þess sem huga þyrfti að því að tryggja fullnægjandi öryggi við vinnsluna, þar á meðal í tengslum við miðlun upplýsinga á milli aðila.
Að því
marki sem í lagafrumvarpi sem unnið yrði á grundvelli þingsályktunartillögunnar
yrði að finna ákvæði, sem varða myndu vinnslu persónuupplýsinga, myndi
stofnunin veita efnislega umsögn um þau. Að öðru leyti eru ekki gerðar
athugasemdir við þingsályktunartillöguna.
F.h. Persónuverndar,
Helga Sigríður Þórhallsdóttir Gunnar Ingi Ágústsson