Bréf til Íslandsbanka um heimild til að afhenda skattrannsóknarstjóra vöktunarefni

Persónuvernd hefur svarað fyrirspurn frá Íslandsbanka um hvort honum sé heimilt að senda skattrannsóknarstjóra upptökur úr eftirlitsmyndavélum vegna rannsóknar máls. Í svari Persónuverndar er fjallað um heimild samkvæmt persónuverndarlögum og reglum um rafræna vöktun til að senda vöktunarefni til lögreglu. Vísað er til þess í því sambandi að skattrannsóknarstjóri er á meðal lögbærra yfirvalda samkvæmt lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi og að rannsóknir hans eru sambærilegar lögreglurannsóknum. Með vísan til þess er talið að hann geti talist fyllilega sambærilegur lögreglu í tengslum við heimild til að fá afhent vöktunarefni. Af því megi jafnframt álykta að afhenda megi honum slíkt efni á grundvelli þeirra ákvæða laga og reglna sem hér á reynir.

Reykjavík, 10. október 2024
Tilvísun: 2024091460/ÞS

Efni: Um heimild Íslandsbanka til að afhenda skattrannsóknarstjóra myndefni úr eftirlitsmyndavélum

1.

Almennt

Persónuvernd vísar til fyrri samskipta af tilefni fyrirspurnar í tölvupósti frá Íslandsbanka hf. 30. september 2024, þ.e. um hvort heimilt sé að verða við beiðni frá skattrannsóknarstjóra um myndefni úr eftirlitsmyndavélum vegna rannsóknar á vegum embættis hans. Eins og fram kemur í fyrirspurninni komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu í áliti 2017, þ.e. frá 8. mars það ár í máli nr. 2016/1529, að ríkisskattstjóra brysti heimild til upplýsingaöflunar sem þessarar og er spurt hvort forsendur séu nú aðrar í ljósi breytinga sem orðið hafa á löggjöf. Í símtali 1. október 2024 fór Persónuvernd yfir helstu sjónarmið í því sambandi, með fyrirvara um skriflegt svar sem ráðgert væri að veita, og degi síðar barst stofnuninni viðbót við fyrirspurnina þar sem sjá má rökstuðning skattrannsóknarstjóra fyrir beiðni um vöktunarefni, sem og lýsingu á því hvernig Íslandsbanki hyggst tryggja meðalhóf við afhendingu þess, þ.e. með því að skoða hvort myndefni sýni óviðkomandi einstaklinga og hvort afhending stillimynda geti nægt.

Þess gerist ekki þörf að fjalla hér sérstaklega um fyrrgreindan rökstuðning skattrannsóknarstjóra, en taka má fram að honum svipar til þeirra umfjöllunar Persónuverndar sem sjá má hér að neðan. Þá skal tekið fram, hvað snertir lýsingu Íslandsbanka á hvernig gögn verða afhent að öðru leyti, að mikilvægt er að gæta meðalhófs við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. einkum 3. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. og c-lið 1. mgr. 5. gr. almennu persónuverndarreglugerðarinnar (ESB) 2016/679. Telur Persónuvernd lýsingu bankans ekki gefa tilefni til sérstakra athugasemda í ljósi þessara ákvæða.

2.

Svar um heimild til afhendingar vöktunarefnis

Í áliti Persónuverndar 8. mars 2017 var vísað til þess að um ræddi upptökur með upplýsingum um refsiverða háttsemi sem þá töldust til viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. þágildandi laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Einnig var vísað til banns 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. laganna við afhendingu vöktunarefnis með slíkum upplýsingum, án heimildar í lögum eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar, nema þær lytu að slysi eða refsiverðum verknaði og væru afhentar lögreglu. Bent var á í því sambandi að skattrannsóknarstjóri er ekki á meðal handhafa lögregluvalds samkvæmt 9. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, svo og að ekki er fjallað um öflun vöktunarefnis í löggjöf sem sérstaklega veitir skattyfirvöldum heimildir til gagnaöflunar, sbr. 94. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Taldi Persónuvernd því verða að leggja til grundvallar að heimild til afhendingar vöktunarefnis til ríkisskattstjóra skorti en benti jafnframt á 6. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, þess efnis að skattyfirvöld geti leitað úrskurðar héraðsdóms um ágreining um skyldu til afhendingar gagna. Með vísan til þess ákvæðis taldi Persónuvernd það ekki falla í sinn hlut heldur dómstóla að taka bindandi afstöðu til álitamála í þeim efnum.

Síðan þetta var hafa orðið breytingar á lögum. Má þar nefna að í stað laga nr. 77/2000 hafa nú verið sett ný almenn persónuverndarlög, þ.e. áðurnefnd lög nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. nánari ákvæði í almennu persónuverndarreglugerðinni (ESB) 2016/679. Þá hafa verið sett sérlög um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við löggæslu, þ.e. lög nr. 75/2019 um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Í hvorum tveggja lögunum er byggt á því að upplýsingar um refsiverða háttsemi þarfnist nokkuð ríkrar verndar, sbr. 12. gr. laga nr. 90/2018 og m.a. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 75/2019, en þær eru þó ekki lengur skilgreindar sem viðkvæmar persónuupplýsingar.

Með tilkomu laga nr. 75/2019 hefur jafnframt orðið til sérstök skilgreining á lögbærum yfirvöldum sem hafa heimildir til vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli laganna, samfara skyldum í því sambandi. Á meðal þessara lögbæru yfirvalda er skattrannsóknarstjóri svo sem greinir í 11. tölul. 2. gr. laganna. Var ekki minnst á skattrannsóknarstjóra í frumvarpi til laganna, en honum var svo bætt við upptalningu á lögbærum yfirvöldum með rökstuðningi í nefndaráliti, þess efnis að rannsóknir hans væru sambærilegar lögreglurannsóknum.

Enn er í gildi sambærilegt bann við miðlun vöktunarefnis með upplýsingum um refsiverða háttsemi og áður var að finna í 2. tölul. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000, sbr. nú 2. tölul. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018. Sem fyrr er gerð undantekning frá því banni hvað snertir miðlun upplýsinga til lögreglu, sbr. og 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. og 2. tölul. 10. gr. reglna Persónuverndar nr. 50/2023 um rafræna vöktun.

Persónuvernd telur rök geta staðið til þess, í ljósi skilgreiningar á skattrannsóknarstjóra sem lögbæru yfirvaldi samkvæmt lögum nr. 75/2019, að hann skuli teljast fyllilega sambærilegur við lögreglu í tengslum við að fá afhent vöktunarefni með upplýsingum um refsiverða háttsemi, sbr. áðurnefnt ákvæði 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 90/2018, sbr. og 2. tölul. 10. gr. reglna nr. 50/2023. Af því megi jafnframt álykta að afhenda megi honum vöktunarefni á grundvelli þessara ákvæða.

Að lokum skal tekið fram að ekki er hér tekin endanleg, bindandi afstaða til þeirra álitaefna sem á getur reynt í tengslum við afhendingu gagna til skattyfirvalda. Til frekari umfjöllunar getur því komið síðar, svo sem í ljósi kvörtunar sem Persónuvernd kann að berast.

F.h. Persónuverndar,

Þórður Sveinsson                               Helga Sigríður Þórhallsdóttir

Afrit:
Skattrannsóknarstjóri



Var efnið hjálplegt? Nei