Úttekt á því hvernig gerð skýrslna um lánshæfi getur verið sem áreiðanlegust
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið
Skúlagötu 4
101 Reykjavík
Seðlabanki Íslands
Kalkofnsvegi 1
101 Reykjavík
Reykjavík, 12. janúar 2022
Tilvísun: 2021071517/HF
Efni: Úttekt á því hvernig gerð skýrslna um lánshæfi getur verið sem áreiðanlegust
Starfræksla fjárhagsupplýsingastofa er bundin leyfi Persónuverndar samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. einnig 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sbr. nú 2. mgr. 15. gr. laganna.
Hinn 3. maí 2021 gaf Persónuvernd út staðlaða skilmála í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa og birti á vefsíðu sinni. Drög að þeim voru birt til umsagnar 8. október 2020 á vefsíðu stofnunarinnar. Umsagnir bárust frá Creditinfo Lánstrausti hf., Greiðslumiðlun ehf., Hagsmunasamtökum heimilanna, Motus ehf., Lögheimtunni ehf., Neytendasamtökunum og Alþýðusambandi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Símanum hf. og umboðsmanni skuldara.
Í aðdraganda útgáfu stöðluðu skilmálanna hafði Creditinfo Lánstraust hf. sótt um uppfært starfsleyfi hjá Persónuvernd á grundvelli nýrrar persónuverndarlöggjafar, en ljóst er að vinna við gerð hinna stöðluðu skilmála var nátengd meðferð þeirrar umsóknar.
Samhliða útgáfu staðlaðra skilmála í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa 3. maí 2021 afgreiddi Persónuvernd umsókn Creditinfo Lánstrausts hf. með útgáfu nýs starfsleyfis og átti það að taka gildi 10. s.m. Að ósk fyrirtækisins var gildistöku starfsleyfisins frestað og tók leyfið gildi þann 1. júlí 2021 með gildistíma til 31. desember 2022.
Við afgreiðslu umsókna um starfsleyfi fjárhagsupplýsingastofu munu hinir stöðluðu skilmálar framvegis verða notaðir sem grunnur að leyfisskilmálum. Þar sem Creditinfo Lánstraust hf. er nú eina fjárhagsupplýsingastofan á Íslandi mótast skilmálarnir mjög af starfsemi hennar eins og hún hefur þróast samfara leyfisveitingum frá Persónuvernd þar sem ýmist hafa verið gerðar breytingar á leyfisskilmálum í samræmi við tillögur frá stofunni eða slíkum tillögum verið synjað.
Með stöðluðum skilmálum í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa var birt greinargerð. Í 33. kafla hennar er lagt til, í samræmi við tillögu frá Neytendasamtökunum og Alþýðusambandi Íslands, að gerð verði úttekt óháðs aðila á tölfræðilíkani sem Creditinfo Lánstraust hf. notar við gerð skýrslna um lánshæfi.
Persónuvernd áréttar mikilvægi þess að gagnsæi ríki um umrædda vinnslu. Í samræmi við það er í 4. mgr. 3. gr. skilmálanna mælt fyrir um að hinir skráðu skuli, þegar þeir leggja fram beiðni um öflun skýrslu um lánshæfismats, vera upplýstir um á hvaða breytum byggt er við gerð þess, auk þess sem þeim skal veittur kostur á frekari fræðslu um vægi einstakra breytna.
Auk gagnsæis er meðal annars mikilvægt að persónuupplýsingar séu áreiðanlegar, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 90/2018. Persónuvernd telur það myndu verða mjög til bóta að gera slíka úttekt og fyrr greinir. Ljóst er að sá aðili sem hana gerði þyrfti að hafa sérþekkingu á lánshæfi og þeim þáttum sem áhrif hafa á það.
Persónuvernd telur það ekki falla undir starfssvið stofnunarinnar, eins og það er skilgreint í 39. gr. laga nr. 90/2018, að ákveða nákvæmlega hvernig mat á lánshæfi skuli gert og hvert vægi einstakra þátta skuli þar vera, með sama hætti og hún metur til að mynda ekki hvernig staðið skal að greiningu sjúkdóma eða því hvort einelti hefur átt sér stað á vinnustað. Þegar um ræðir slík sérfræðileg atriði og hér um ræðir álítur stofnunin það fremur falla í sinn hlut að huga að hinni almennu umgjörð um vinnslu persónuupplýsinga og hvort til staðar séu ferlar til að tryggja gæði og áreiðanleika við vinnsluna.
Jafnframt er bent á að samkvæmt 4. tölul. 2. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sbr. 15. gr. stjórnarskrárinnar og 4. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands, fer atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með margvísleg málefni sem varða viðskiptalífið. Þá er ljóst af IX. kafla laga nr. 151/2019 um Seðlabanka Íslands að honum er ætlað mikilvægt hlutverk í tengslum við rannsóknir á sviði fjármálastarfsemi.
Með vísan til þessa vekur Persónuvernd athygli ráðuneytisins og Seðlabankans á mikilvægi þess að gerð sé óháð úttekt á því hvernig gerð skýrslna um lánshæfismat getur verið sem áreiðanlegust og þannig gagnast viðskiptalífinu sem best samhliða því að réttindi einstaklinga séu virt. Myndi slík úttekt og stuðla að því að vinnsla persónuupplýsinga vegna gerðar umræddra skýrslna samrýmdist sem best grunnreglum persónuverndarlöggjafarinnar, sbr. einkum 8. gr. laga nr. 90/2018 og 5. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.
Þess er vinsamlega óskað að svör um viðbrögð við framangreindu berist Persónuvernd eigi síðar en 1. febrúar nk.
F.h. Persónuverndar
Helga Þórisdóttir Þórður Sveinsson
Fylgiskjöl:
Greinargerð með stöðluðum skilmálum í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa
Afrit:
Creditinfo Lánstraust hf.