Varðandi skilyrði af hálfu fjárhagsupplýsingastofu fyrir veitingu fræðslu til hins skráða
Creditinfo Lánstraust ehf.
Höfðabakka 9
110 Reykjavík
Reykjavík, 12. janúar 2022
Tilvísun: 2021071518/HF
Efni: Varðandi skilyrði af hálfu fjárhagsupplýsingastofu fyrir veitingu fræðslu til hins skráða
Starfræksla fjárhagsupplýsingastofa er bundin leyfi Persónuverndar samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. einnig 2. gr. reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sbr. nú 2. mgr. 15. gr. laganna.
Hinn 3. maí 2021 gaf Persónuvernd út staðlaða skilmála í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa og birti á vefsíðu sinni. Drög að þeim voru birt til umsagnar 8. október 2020 á vefsíðu stofnunarinnar. Umsagnir bárust frá Creditinfo Lánstrausti hf., Greiðslumiðlun ehf., Hagsmunasamtökum heimilanna, Motus ehf., Lögheimtunni ehf., Neytendasamtökunum og Alþýðusambandi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Símanum hf. og umboðsmanni skuldara.
Í aðdraganda útgáfu stöðluðu skilmálanna hafði Creditinfo Lánstraust hf. sótt um uppfært starfsleyfi hjá Persónuvernd á grundvelli nýrrar persónuverndarlöggjafar, en ljóst er að vinna við gerð hinna stöðluðu skilmála var nátengd meðferð þeirrar umsóknar.
Samhliða útgáfu staðlaðra skilmála í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa 3. maí 2021 afgreiddi Persónuvernd umsókn Creditinfo Lánstrausts hf. með útgáfu nýs starfsleyfis og átti það að taka gildi 10. s.m. Að ósk fyrirtækisins var gildistöku starfsleyfisins frestað og tók leyfið gildi þann 1. júlí 2021 með gildistíma til 31. desember 2022.
Við afgreiðslu umsókna um starfsleyfi fjárhagsupplýsingastofu munu hinir stöðluðu skilmálar framvegis verða notaðir sem grunnur að leyfisskilmálum. Þar sem Creditinfo Lánstraust hf. er nú eina fjárhagsupplýsingastofan á Íslandi mótast skilmálarnir mjög af starfsemi hennar eins og hún hefur þróast samfara leyfisveitingum frá Persónuvernd þar sem ýmist hafa verið gerðar breytingar á leyfisskilmálum í samræmi við tillögur frá stofunni eða slíkum tillögum verið synjað.
Með stöðluðum skilmálum í starfsleyfum til fjárhagsupplýsingastofa var birt greinargerð. Í 39. kafla hennar er brugðist við tillögum Neytendasamtakanna og Alþýðusambands Íslands um breytingar á tilteknum ákvæðum skilmálanna til að koma í veg fyrir að einstaklingar þurfi að sæta íþyngjandi skilyrðum af hálfu fjárhagsupplýsingastofu til að geta notið réttar síns til fræðslu um vinnslu persónuupplýsinga. Eins og farið er yfir í kaflanum féllst Persónuvernd ekki á umræddar tillögur, enda taldi hún þennan rétt nægilega tryggðan með skilmálunum óbreyttum. Jafnframt var hins vegar tekið fram að kannað yrði hvort einhverjum skilyrðum eins og hér um ræðir væri fyrir að fara hér á landi, þ.e. hjá Creditinfo Lánstrausti hf.
Í ljósi framangreinds er þess hér með óskað, á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 90/2018, að Creditinfo Lánstraust hf. upplýsi um hvort skráðum einstaklingum séu sett einhver skilyrði fyrir því að fá fræðslu um vinnslu persónuupplýsinga um sig. Sé svo er þess jafnframt óskað að upplýst verði um hvaða skilyrði þetta eru og hvernig fyrirtækið telur þau samrýmast lögum nr. 90/2018 og almennu persónuverndarreglugerðinni (ESB) 2016/679. Þess er óskað að svör berist eigi síðar en 1. febrúar nk.
F.h. Persónuverndar,
Helga Þórisdóttir Þórður Sveinsson