Úrlausnir

Fræðsla til starfsmanna sem sæta rafrænni vöktun hjá bakaríi

18.4.2011

Ákvörðun


Á fundi stjórnar Persónuverndar hinn 7. apríl 2011 var tekin svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2010/1067:

I.
Grundvöllur máls
Málavextir og bréfaskipti

Þann 22. nóvember 2010 barst Persónuvernd kvörtun vegna eftirlitsmyndavéla í smurbrauðsdeild í Bakarí Jóa Fel í Holtagörðum. Kvörtunin kom frá starfsmanni sem óskaði nafnleyndar. Er því ekki farið með málið sem formlegt ágreiningsmál milli hans og ábyrgðaraðila. Þess í stað er fjallað um málið sem frumkvæðismál á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000. Í framangreindri kvörtun segir m.a.:

„Það var sett upp myndavél inn í smurinu (þar sem samlokur eru gerðar og fleira) en það var ekki látið vita af því og engar útskýringar gefnar á því. Eina ástæðan af hverju við (starfsfólk) vitum af myndavélinni er af því að maðurinn sem setti hana upp kom „óvart“ um hábjartan dag. Engar merkingar eru í kringum myndavélina og starfsfólk hefur ekki verið frætt um ástæður eða markmið

Vinnan sem ég er að vinna er ekki afkastatengd og engir bónusar eru veittir fyrir betri afköst þannig að myndavélin er ekki sett upp í þeim tilgangi að mæla afköst. Til eru dæmi um að eigandi sitji heima hjá sér og „njósni“ um starfsfólki. Í afgreiðslukerfinu er hægt að fylgjast með sölum einstakra starfsmanna og hefur eigandi hringt og athugað hvað hver og einn starfsmaður sé að gera, hví hann sé ekki að afgreiða og svo framvegis. Starfsfólki finnst það beitt óréttlæti og finnst óþolandi að vinna undir sífelldri pressu sem velst af myndavélinni.“


Með bréfi, dags. 14. janúar 2011, gerði Persónuvernd J grein fyrir kvörtuninni og bauð honum að koma sínum sjónarmiðum á framfæri til samræmis við 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svarbréf J, dags. 25. janúar s.á., barst stofnuninni þann 27. janúar 2011. Þar segir m.a.:

„Eins og fram kemur í bréfi þínu um kvörtun starfsmanns þann 14.jan 2011 þá var sett upp myndavél í bakaríinu hjá Jóa Fel. Eins og textinn er hjá viðkomandi sem sendir bréfið er ekki allt rétt sem þar kemur fram. Þessi umræddi starfsmaður sem skrifar bréfið [...] var að vinna hjá okkur í nokkur ár þó með hléum og vissi vel að það eru myndavélar hjá okkur eins og í flest öllum verslunum á Íslandi. Hún var eingöngu að vinna á nóttinni og var farin heim þegar umrædd myndavél var sett upp. Eins og gefur að skilja þá er ekki verið að fela neitt þegar uppsetningarmaðurinn kemur á miðjum degi til að setja upp vélina, þegar flestir eru að vinna en það tók c.a. fjóra tíma að setja hana upp.
Þessi myndavél er ekki sett upp í þeim tilgangi að „njósna“ um fólk eins og sagt er í bréfinu. Það var brotist inn hjá okkur á skrifstofuna (sem er núna á þessari myndavél). Einnig er á þessari vél okkar símarnir okkar og við höfum lent í því að starfsmenn okkar segi ekki satt um hver svaraði hverjum og f.l.þ.h. þar er „EKKI“ verið að njósna um einn eða neinn frekar en annarstaðar þar sem myndavélar eru í verslunum.
Því miður þekki ég ekki lög, 20. gr. Laga nr. 77/2000 um persónuver[n]d. En get þó sagt að hér hjá okkur í bakaríinu er ekkert verið að fela og allir vita af okkar vélum.“


Með bréfi, dags. 3. febrúar sl., óskaði Persónuvernd nánari skýringa um hvaða fræðslu starfsmenn hefðu fengið um eftirlitsmyndavélarnar. Þann 28. febrúar sl. barst svar þar sem segir m.a.:

„Við veitum starfsmönnum okkar ekki „fræðslu“ en látum jú vissulega vita hvað við erum að gera hjá okkur enda ekki verið að fela neitt með því[...] Við erum ekki að fylgjast með starfsfólki okkar enda erum við sjálf hjónin mikið á staðnum, þegar vinnslan fer fram og þurfum ekki að vera „njósna“ um okkar fólk. Vonandi skýrir þetta afstöðu okkar með þessum vélum sem við erum með í fyrirtækinu okkar.“

Með bréfi, dags. 1. mars sl., var kvartanda kynnt framangreint og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum en engar bárust.

II.
Forsendur og niðurstaða

1.
Lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, taka til rafrænnar vöktunar.  Hugtakið rafræn vöktun er skilgreint í 6. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna sem:
Vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði, og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði. Hugtakið tekur til:
   a. vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga, og
   b. sjónvarpsvöktunar sem fer fram með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðrar aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.

Í 4. gr. laga nr. 77/2000 er efnisregla um slíka vöktun. Af henni leiðir m.a. að við alla vöktun skal gæta ákvæða 7. gr. laganna. Þar segir að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.). Í þessari kröfu felst m.a. að veita ber hinum skráðu fræðslu um vinnslu persónuupplýsinga um sig í samræmi við 20. laganna þegar upplýsinga er aflað frá þeim.

Samkvæmt 24. gr. laganna skal gæta þess að gera þeim sem sætir sjónvarpsvöktun aðvart um það með merki eða á annan áberandi hátt. Af athugasemdum við 24. gr. í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 77/2000 leiðir að hún á við verði fræðslu samkvæmt 20. gr. ekki við komið, s.s. vegna þess að ekkert samband sé á milli ábyrgðaraðila og þess sem sætir vöktun. Í öðrum tilvikum þarf að veita fræðslu í samræmi við ákvæði 20. gr. jafnvel þótt ekki fari fram vinnsla persónuupplýsinga í skilningi 2. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laganna. Hér var til staðar ráðningarsamband milli ábyrgðaraðila og hinna vöktuðu, en í slíkum tilvikum nægja ekki viðvaranir samkvæmt 24. gr. heldur þarf einnig, samkvæmt framangreindu, að veita vöktuðum starfsmönnum fræðslu um vöktunina.

Ákvæði 10. gr. reglna um rafræna vöktun nr. 837/2006 gilda um alla vöktun. Þar segir að ábyrgðaraðili að rafrænni vöktun skuli setja reglur og/eða veita fræðslu til þeirra sem henni sæta. Skuli reglur eða fræðsla taka til tilgangs vöktunarinnar, hverjir hafi eða kunni að fá aðgang að upplýsingum sem safnast og hversu lengi þær verði varðveittar. Að öðru leyti skal, eftir því sem við á, fræða um það hvaða búnaður er notaður, t.d. hvort notaðar séu stafrænar myndavélar. Þá skal fræða um rétt viðkomandi til að andmæla vöktuninni og hverjar geti verið afleiðingar þess, um rétt hans til að fá að vita hvaða upplýsingar verða til um hann og til að fá upplýsingar leiðréttar eða þeim eytt. Fræða skal um önnur atriði að því marki sem þörf krefur með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni svo að starfsmenn geti gætt hagsmuna sinna.

2.
Af hálfu ábyrgðaraðila, J, hefur komið fram að eftirlitsmyndavél var komið fyrir að degi til í viðurvist þeirra starfsmanna sem þá voru á vakt. Var kvartandi ekki í þeirra hópi. Hefur ábyrgðaraðili beinlínis tekið fram, sbr. tölvubréf hans dags. 28. febrúar sl., að starfsmönnum hafi ekki verið veitt fræðsla um rafræna vöktun með notkun vélarinnar. Er því óumdeilt að ekki var veitt fræðsla í samræmi við 20. gr. laga nr. 77/2000 og 10. gr. reglna nr. 837/2006 um rafræna vöktun.

Með vísun til 5. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 beinir Persónuvernd þeim fyrirmælum til J að veita starfsmönnum sínum fræðslu um þá rafrænu vöktun sem hann ber ábyrgð á og fram fer í bakaríi sem hann rekur undir nafninu Bakarí Jóa Fel í Holtagörðum. Skal sú fræðsla, eftir því sem við á, uppfylla 20. gr. laga nr. 77/2000 og 10. gr. reglna nr. 837/2006.  

Á k v ö r ð u n a r o r ð:

J skal veita starfsmönnum í Bakaríi Jóa Fel í Holtagörðum fræðslu um rafræna vöktun á vinnustaðnum.


Var efnið hjálplegt? Nei