Úrlausnir

Svar við fyrirspurn

12.1.2012

Persónuvernd hefur móttekið erindi þitt, dags. 27. október 2011, þar sem segir:

„Það er að mínu viti algerlega óásættanlegt að lagður sé steinn í götu þess að skattsvikarar séu afhjúpaðir á meðan einkafyrirtækjum leyfist að verja sig með sama hætti. Erfitt getur reynst fyrir starfsmann í fyrirtæki að bera af sér sakir ásaki annar starfsmaður hann um óheiðarleika eða sviksemi við fyrirtækið. Þar er ekki hlutlaus aðili sem tekur við málinu og rannsakar. Miklu líklegra er að fyrirtækið láti starfsmanninn fara en að kosta til dýrri rannsókn á málinu. Ég skil hins vegar vel að fyrirtæki verji sig gegn þjófnaði og svikum, en að réttur þeirra sé meiri til að verja sig en réttur þjóðarinnar til þess sama skil ég ekki.Sorglegt er að Persónuvernd sem vernda á borgara þessa lands, heldur verndarhendi yfir þeim sem stela frá okkur hinum sem borgum skatta okkar og skyldur. Vegna skattsvikarana er verið að skera niður þjónustu við sjúklinga, aldraða, öryrkja, nemendur, fatlaða o.s.frv. Auk þess þarf ég að borga hærri skatta fyrir vikið. Hvernig get ég leitað réttar míns og kært þennan þjófnað frá mér sem skattgreiðanda? Er það ekki hægt vegna þess að ég veit ekki hver það er?“

Af samhengi má ráða að þú teljir vera ósamræmi í afgreiðslum Persónuverndar, annars vegar á erindi um svokallaða tilkynningalínu Alcan og hins vegar um hnappa fyrir nafnlausar ábendingar á vefsíðum stjórnvalda. Til að skýra framangreint vill Persónuvernd hins vegar benda á eftirfarandi:

Afgreiðsla hennar á erindi Alcan laut að heimild til flutnings persónuupplýsinga til svokallaðra þriðju landa, en innan EES svæðisins er slíkt háð ströngum skilyrðum. Geta má þess að umrætt kerfi er þannig að þeir sem nýta sér tilkynningarlínuna þurfa í öllum tilvikum að gefa upp hverjir þeir eru. Það er m.a. til að tryggja áreiðanleika og til að þeir, sem bent er á, geti varið hendur sínar, s.s. gegn röngum sakargiftum. Að öðru leyti eru auðkenni uppljóstrara falin.

Að því er varðar afstöðu Persónuverndar í hinum málunum er bent á að hún telur ekki eðlilegt að stjórnvöld hvetji þegnana til að fara huldu höfði í samskiptum við sig, s.s.  með því að bjóða á vefsíðum sérstaka hnappa þar sem tekið er sérstaklega fram að menn þurfi ekki að segja deili á sér. Persónuvernd telur slíkt vera í ósamræmi við reglur um vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga hjá stjórnvöldum, skapa hættu á að upp safnist óáreiðanlegar persónuupplýsingar, s.s. vegna rangra ábendinga til að koma höggi á menn í skjóli nafnleysis. Þá sé slíkt villandi gagnvart uppljóstrurum enda er í raun alltaf hægt að sjá hvaðan ábending kemur. Persónuvernd telur eðlilegra að stjórnvöld greini rétt frá að þessu leyti en vandi hins vegar meðferð og verji vel þær upplýsingar sem þau fá og vinna með.


Var efnið hjálplegt? Nei