Álit um myndbirtingu úr eftirlitsheimsókn
Mál nr. 2016/1860
Persónuvernd hefur veitt álit um birtingu AFLs Starfsgreinafélags á vefsíðu sinni á ljósmyndum, teknum af starfsmönnum og sjálfboðaliðum hjá Móður Jörð ehf. í eftirlitsheimsókn hjá fyrirtækinu. Telur stofnunin ekki verða séð að birtingin hafi verið heimil samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og samrýmst kröfu þeirra um sanngirni við vinnslu slíkra upplýsinga.
Álit
Hinn 13. febrúar 2018 veitti Persónuvernd eftirfarandi álit í máli nr. 2016/1860:
1.
Tildrög máls
Tildrög máls þessa eru kvörtun sem Persónuvernd barst frá Móður Jörð ehf., dags. 15. desember 2016, vegna fréttar á vefsíðu stéttarfélagsins AFLs Starfsgreinafélags um eftirlitsheimsókn fulltrúa félagsins, ásamt fulltrúum Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra. Er lýst þeirri afstöðu í kvörtuninni að brotið hafi verið í bága við lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þá er lýst þeirri afstöðu að umfjöllun um umrætt fyrirtæki feli jafnframt í sér umfjöllun um forsvarsmann þess, [A], enda hafi hann selt landbúnaðarafurðir undir vörumerki þess árum saman.
Nánar segir í kvörtun að hinn 9. júní 2016 hafi fulltrúar frá Vinnumálastofnun og Ríkisskattstjóra komið í eftirlitsheimsókn til Móður Jarðar ehf. Tilefnið hafi verið reglubundið eftirlit með skráningu starfsfólks og hafi heimsóknin verið liður í almennri úttekt stofnananna í viðkomandi landshluta. Í för með þeim hafi verið framkvæmdastjóri fyrrnefnds stéttarfélags. Í lok heimsóknarinnar hafi Vinnumálastofnun kvatt til lögreglu sem tekið hafi skýrslu. Hafi þetta verið í fyrsta sinn sem opinberir aðilar eða félög hafi komið í eftirlitsferð sem þessa til fyrirtækisins. Hafi fulltrúar þeirra hitt forráðamenn umrædds fyrirtækis, launaða starfsmenn og sjálfboðaliða frá alþjóðlegu sjálboðaliðasamtökunum WWOOF sem starfi í þágu lífrænnar ræktunar í meira en 100 löndum. Þá segir:
„Forsendur og eðli sjálfboðaliðastarfs WWOOF samtakanna í Vallanesi hafa verið vel kynnt á Íslandi m.a. í gegnum fjölmiðla. Sjálfboðaliðarnir gera almennt stutta viðkomu í Vallanesi sem ferðamenn og aldrei áður hafa borist athugasemdir frá yfirvöldum eða stofnunum um þetta starf. Það skal tekið fram að hjá Móður Jörð eru engir starfsmenn félagsmenn í AFLI Starfsgreinafélagi.
Samdægurs þ.e. að kvöldi 9. júní birti AFL Starfsgreinafélag Austurlands, umfjöllun á vef sínum um heimsóknina, ásamt myndum af fólkinu og lögreglu á vettvangi, auk þess sem fyrirtækið, Móðir Jörð ehf. var nafngreint. Útprentun af umfjölluninni er meðfylgjandi. Þessi umfjöllun varð tilefni til fréttaflutnings Austurfréttar af málinu og nokkrum dögum síðar í RÚV þann 13. júní og Fréttablaðsins 14. júní. Fimmtudaginn 16. júní birtir AFL Starfsgreinafélag Austurlands fréttabréf sitt á vef sínum og lætur birta í vikublaðinu Austurglugganum. Í þeirri frétt er myndbirtingin endurtekin, mynd af lögreglubíl og fólkinu frá WWOOF á vettvangi undir fyrirsögninni „Meinsemd sem þarf að fjarlægja“.“
Að auki segir í kvörtun:
„Við teljum þær upplýsingar sem felast í umfjöllun AFLS og myndbirtingunni sem slíkri viðkvæmar persónuupplýsingar skv. 8. tölul. 2. gr. laga laga um persónuvernd. Móðir Jörð er lítið matvælafyrirtæki í viðkvæmri atvinnugrein sem byggir velgengni sína á góðu orðspori á markaði og jákvæðri ímynd sem einkennt hefur starfsemina frá upphafi. Í þessu sambandi bendum við sérstaklega á að lögregla var á staðnum þegar umrædd myndataka átti sér stað, eins og kemur fram í fréttinni og myndunum. Með birtingu fréttar og myndbirtingu lögreglu á staðnum mætti ætla að grunur sé um að fyrirtækið hafi gerst sekt um refsiverðan verknað, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna, þar sem sérstaklega er kveðið á um að grunur um refsiverðan verknað teljist til viðkvæmra persónuupplýsinga.
Við teljum því að framangreind umfjöllun og myndbirtingin af hálfu AFLS Starfsgreinafélags brjóti í bága við almennar reglur um vinnslu persónuupplýsinga skv.1.–5. tölul. 7. gr. laganna, ekki var fengin heimild til myndbirtingarinnar auk þess sem umfjöllunin er ómálefnaleg og úr hófi. Það skal tekið fram að ábyrgðaraðili birtingarinnar, AFL, var ekki að gæta hagsmuna sinna félagsmanna í umræddri heimsókn, því engir félagsmenn AFLS starfa hjá Móður Jörð í Vallanesi. Þegar þetta bréf er skrifað er umfjöllunin enn á heimasíðu AFLS með umræddum myndum.
Myndbirtingin er einnig viðkvæm fyrir þá einstaklinga sem myndir voru teknar af, sem ýmist voru launaðir starfsmenn eða sjálfboðaliðar sem voru á staðnum í góðri trú á ferðalagi og að hjálpa til af hugsjón. Framkvæmdastjóri AFLS fór ekki fram á leyfi fyrir myndbirtingunni hvorki hjá forráðamönnum Móður Jarðar né því fólki sem myndað var.“
Hálögð með kvörtun er yfirlýsing frá samtökunum WWOOF (World Wide Opportunities in Organic Farms), dags. 11. júlí 2016. Í henni segir að á Íslandi séu lífræn bændabýli sem skráð séu sem samstarfsaðilar samtakanna, en starfsemi þeirra sé ekki rekin í hagnaðarskyni. Þá segir að markmið þeirra sé að stuðla að menntunar- og menningartengdum samskiptum bændabýla annars vegar og sjálfboðaliða sem dveljist á þeim hins vegar. Meirihluti sjálfboðaliðanna búi ekki yfir kunnáttu í landbúnaði en hafi hins vegar áhuga og ástríðu til að bera á því sviði. Gert sé ráð fyrir að þeir búi hjá þeirri fjölskyldu sem reki viðkomandi bændabýli og séu þar í fæði, en þannig fái þeir innsýn í daglegt líf bænda í viðtökulandinu. Þeir fái einnig færi á að öðlast þekkingu á uppruna fæðuvara, sem og mikilvægi lífræns og sjálfbærs landbúnaðar og þess að styðja við staðbundna, minni matvælaframleiðendur. Í þessu felist að veitt sé aðstoð í skamman tíma við vinnufreka starfsemi en að aldrei sé um það að ræða að gengið sé í störf launaðs starfsfólks. Þá sé grundvallaratriði að ekki fari neinar peningagreiðslur á milli bændabýlis og sjálfboðaliða. Að meðaltali séu sjálfboðaliðar í eina til tvær vikur á viðkomandi býli. Tekið er fram í bréfinu að umrædd samtök séu starfandi í meira en 100 löndum og að um 12.000 bændabýli séu skráð sem viðtakendur sjálfboðaliða, en þeir séu um 80.000 talsins. Með starfsemi samtakanna sé unnið í þágu hinna 17 markmiða áætlunar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (e. UN Global Sustainable Development Agenda), en auk þess veiti hún nýrri kynslóð matvælaræktenda innblástur. Hafi starfsemin stuðlað að vinarböndum fólks með ólíkan menningarlegan bakgrunn, en með því sé stuðlað að friði og gagnkvæmum skilningi þjóða heims.
Einnig er með kvörtuninni hjálögð útprentun af frétt á vefsíðu AFLs Stéttarfélags um umrædda eftirlitsheimsókn sem þar var birt hinn 9. júní 2016. Þar má meðal annars sjá mynd sem á eru sjálfboðaliðar á vegum fyrrnefndra samtaka og er tekið fram að þeir séu við garðyrkjustörf hjá Móður Jörð ehf. Þá segir meðal annars:
„Verkalýðsfélögin semja um lágmarkskjör í landbúnaði og það eru sannarlega ekki há laun sem þar er samið um. Það gerir samningsstöðuna verri en ella – að bændur virðast geta sótt sér lífsþreytta millistéttarunglinga til nágrannalandanna sem koma hingað uppá sportið og ganga í störf fólks sem þarf að lifa af launum sínum. Þessir bændur selja síðan sínar afurðir á sömu mörkuðum og aðrir og er ekki að sjá að tekið sé tillit til þess að vinnuaflið sé ókeypis þegar varan er verðlögð.“
Að auki er með kvörtuninni hjálögð útprentun af forsíðu fréttabréfs AFLs. Kemur þar fram að því sé dreift um allt Austurland, en auk þess liggur fyrir að það er birt á vefsíðu félagsins. Á umræddri forsíðu er einnig að finna ljósmynd af sjálfboðaliðum á vegum fyrrnefndra samtaka þar sem þeir ræða við lögreglumenn. Þá segir meðal annars:
„Hingað til lands eru fluttir sjálfboðaliðar hundruðum saman – ungt fólk sem hefur lítið fyrir stafni í heimalandi og á foreldra sem splæsa í flugmiða út í óvissuna. Síðan gengur þetta fólk blygðunarlaust í störf lægst launaða fólksins hér – og nýtur lífsins áhyggjulaust enda þarf þetta fólk ekki að lifa af launum sínum – pabbi og mamma sjá um að að framfleyta þeim – og þau láta sig litlu varða hvaða áhrif þau hafa á vinnumarkað eða samkeppnisstöðu einstakra fyrirtækja hér. Minningarnar lifa svo einhverja daga á Facebook en vinnumarkaðurinn situr skemmdur eftir.“
2.
Skýringar AFLs Starfsgreinafélags
Með bréfi, dags. 16. mars 2017, var AFLi Starfsgreinafélagi veitt færi á að tjá sig um framangreinda kvörtun. Sókn lögmannsstofa ehf. svaraði fyrir hönd félagsins með bréfi, dags. 28. mars 2017. Er þar lýst þeim skilningi að ekki ræði um persónuupplýsingar sem falli undir gildissvið laga nr. 77/2000. Segir í því sambandi:
„Í grein í fréttabréfi AFLs var ekki að finna persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar og í frétt á heimasíðu félagsins var aðeins vísað til félags í atvinnurekstri, Móður Jarðar ehf., en ekki einstaklings. Kærandi kemur ekki fram f.h. þeirra einstaklinga sem birt var mynd af og getur því ekki gert athugasemdir í umboði þeirra. Þess má þó geta að sömu einstaklingar stilltu sér brosandi upp á fyrri mynd á heimasíðu félagsins og sjást ræða við lögeglu á síðari myndinni. Engar myndir voru birtar af fyrirsvarsmönnum kæranda eða merkjum eða öðru sem rekja má til hans.“
Að auki segir í bréfi Sóknar lögmannsstofu að ef litið yrði svo á, þrátt fyrir framangreint, að hér ræddi um vinnslu persónuupplýsinga yrði að líta til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 77/2000, þess efnis meðal annars að víkja megi frá ákvæðum laganna að því marki sem það sé nauðsynlegt til að samrýma sjónarmið um friðhelgi einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsi hins vegar. Í því sambandi segir að Persónuvernd fari ekki með vald til að taka bindandi ákvörðun um mörk þessara tveggja réttinda heldur heyri það undir dómstóla. Þá segir:
„AFL Starfsgreinafélag er stórt stéttarfélag. Félagssvæði þess er Sveitarfélagið Hornafjörður, Djúpavogshreppur, Breiðdalshreppur, Fjarðabyggð, Seyðisfjörður, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Vopnafjarðarhreppur og Langanesbyggð. Félagið er aðili að ýmsum starfsgreinasamböndum. Tilgangur þess er m.a. að sameina allt starfandi launafólk sem starfar á félagssvæðinu og heyrir til þeim starfsgreinasamböndum sem félagið er aðili að. Einnig að vinna að sameiginlegum hagsmunum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna. Að lokum vinnur félagið að fræðslu- og menningarmálum. Þessum tilgangi vinnur félagið m.a. að með opinberri umfjöllun er varðar vinnumarkaðinn og sérstaklega á starfssvæði þess, s.s. á heimasíðu félagsins og fréttabréfi félagsins. Sú umfjöllun sem hér átti sér stað tengist mikilsverðum hagsmunum félagsins sjálfs og félagsmanna þess, s.s. nánar er lýst í bréfi framkvæmdastjóra félagsins. Opinber umfjöllun er auk þess mikilvæg fyrir vinnumarkaðinn í heild. Eins og hér háttar til lyti efnisleg úrlausn Persónuverndar að því hvort með tiltekinni tjáningu hafi verið farið út fyrir ramma stjórnarskrárvarins tjáningarfrelsis. Er það ekki hlutverk stofnunarinnar og ber því að vísa málinu frá.“
Auk bréfs Sóknar lögmannsstofu ehf. hefur Persónuvernd borist bréf frá AFLi Starfsgreinafélagi., dags. 28. mars 2017. Eru þar áréttuð þau sjónarmið sem lýst er í bréfi lögmannsstofunnar og því bætt við að það séu „hagsmunir skúrkanna“ að ekki séu fluttar fréttir af athæfi þeirra, enda hafi Mannréttindadómstóll Evrópu verið tepptur síðustu misseri við að snúa við vitlausum dómum Hæstaréttar Íslands sem greinilega meti meira „rétt skúrkanna“ til þagnargildis en rétt almennings til upplýsinga. Einnig segir að félagið geti engan veginn fallist á að frétt um að lögregla hafi verið kvödd til Móður Jarðar ehf. til að taka skýrslu af starfsmönnum brjóti á nokkurn hátt í bága við lög nr. 77/2000 heldur sé eingöngu um að ræða frétt í sama anda og fjölmiðlar landsins birti daglega. Að auki segir að taka mynda af sjálfboðaliðum hjá fyrirtækinu hafi farið fram á svæði sem jafnan sé opið almenningi, þeir hafi stillt sér upp og ekkert hafi komið fram um að myndatökur væru bannaðar, en eftir að mynd sé tekin sé það ljósmyndari sem eigi höfundar- og birtingarrétt og geti ráðstafað henni að vild. Þá segir meðal annars að því sé algerlega hafnað að umrædd umfjöllun hafi verið ómálefnaleg og úr hófi. Hún hafi verið mjög málefnaleg og hafi kvartanda ekki tekist að benda á neitt sem ekki standist. Megi færa rök fyrir því að af því séu almannahagsmunir að samkeppnisaðilar kvartanda, viðskiptavinir hans og birgjar séu upplýstir um að hann byggi tilveru sína á sjálfboðaliðum. Hann selji vörur sínar á markaði í samkeppni við aðra garðyrkjubændur sem borgi starfsfólki sínu laun og það eigi almenningur rétt á að vita.
3.
Athugasemdir Móður Jarðar ehf.
Með bréfi, dags. 27. apríl 2017, var [A], forsvarsmanni Móður Jarðar ehf., veitt færi á að tjá sig um framangreind svör Sóknar lögmannsstofu ehf. og AFLs Starfsgreinafélags. Svarað var með bréfi, dags. 12. maí 2017. Þar segir meðal annars að á það sé lögð áhersla að það að lögregla hafi verið kvödd á vettvang hjá Móður Jörð ehf. séu í sjálfu sér viðkvæmar upplýsingar sem geti haft áhrif á orðspor og ímynd starfseminnar, þeirra einstaklinga sem þar vinna og geti valdið starfseminni tjóni.
Einnig segir að framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags hafi hinn 9. júní 2016 verið þátttakandi í eftilitsheimsókn tveggja stofnana. Í þeirri heimsókn hafi hann fengið umræddar upplýsingar og kosið að koma þeim á framfæri opinberlega. Hann hafi ekki verið á vettvangi sem vegfarandi heldur einn af eftirlitsaðilum samkvæmt lögum nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, en samkvæmt 4. gr. þeirra laga sé slíkum aðilum óheimilt að veita öðrum upplýsingar um viðkomandi starfsemi, starfsmenn eða aðra aðila hafi þeir fengið upplýsingarnar vegna eftirlits síns og ástæða sé til að ætla að upplýsingunum skuli haldið leyndum. Auk þess hafi ekki verið veitt heimild til að greina frá upplýsingum eða birta myndir. Þá segir meðal annars að tilefni, málflutningur og skrif framkvæmdastjóra AFLs Starfsgreinafélags dæmi sig sjálf.
4.
Frekari skýringar AFLs Starfsgreinafélags
Með bréfi, dags. 31. júlí 2017, veitti Persónuvernd Sókn Lögmannsstofu ehf. færi á að tjá sig um framangreind svör [A], en í því sambandi vísaði stofnunin sérstaklega til umfjöllunar í bréfinu um 4. gr. laga nr. 42/2010. Lögmannsstofan ehf. svaraði með bréfi, dags. 15. ágúst 2017, þar sem segir meðal annars að Persónuvernd sé ekki eftirlitsaðili samkvæmt lögum nr. 42/2010 og taki ekki afstöðu til þess hvort þau lög hafi verið brotin. Að auki hafi enginn rökstuðningur verið færður fyrir því að AFL Starfsgreinafélag hafi fjallað um upplýsingar sem ástæða hafi verið til að ætla að halda skyldi leyndum. Að öðru leyti eru í bréfinu ítrekuð þau sjónarmið sem lýst er í fyrrnefndu bréfi lögmannsstofunnar, dags. 28. mars 2017.
Að fengnu þessu svari Sóknar Lögmannsstofu ehf. sendi Persónuvernd henni bréf, dags. 2. október 2017, og benti á að við beitingu þeirra laga, sem hún framfylgir og starfar eftir, þ.e. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, reynist oft nauðsynlegt að líta til ákvæða í öðrum lögum, m.a. þar sem það gæti skipt máli í tengslum við heimildir til vinnslu persónuupplýsinga hvort þeirra hefði verið aflað á grundvelli stjórnsýsluheimilda eða heimilda sem jafna mætti til þeirra. Einnig vakti stofnunin athygli á því að á það gæti reynt hvort valdsvið hennar næði til að úrskurða um hvort staðið hefði verið rétt að meðferð upplýsinga um Móður Jörð ehf., enda giltu lög nr. 77/2000 ekki um meðferð upplýsinga um lögaðila og þyrfti meðferð upplýsinga um þá því jafnframt að fela í sér meðferð upplýsinga um einstaklinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 1. tölul. 2. gr. laganna, svo að lögin giltu. Hins vegar gæti Persónuvernd tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði, sbr. 1. mgr. 37. gr. laganna, þ.e. þó svo að ekki hefði borist kvörtun frá viðkomandi einstaklingi, og hefði hún til skoðunar að taka ákvörðun um lögmæti birtingar AFLs Starfsgreinafélags á ljósmyndum af einstaklingum sem teknar voru í þeirri eftirlitsheimsókn sem hér um ræðir. Var lögmannsstofunni með vísan til þessa veitt færi á að tjá sig um málið að nýju og barst í kjölfar þess bréf frá henni, dags. 16. október 2017.
Í framangreindu svari Sóknar Lögmannsstofu ehf. er lýst þeirri afstöðu að í ljósi þess að hér ræði um upplýsingar um lögaðila en ekki einstakling eigi málið ekki undir Persónuvernd. Þá er þeirri afstöðu lýst, í tengslum við lög nr. 42/2010, að eftirlit stéttarfélaga á vinnustöðum í samvinnu við opinberar stofnanir fari ekki aðeins fram á grundvelli þeirra laga heldur einnig á ólögfestum grundvelli. Segir að heimsókn AFLs Starfsgreinafélags til Móður Jarðar ehf. hinn 9. júní 2016 hafi í upphafi verið liður í sameiginlegu eftirliti félagsins, Ríkisskattstjóra og Vinnumálastofnunar. Því hafi lokið fljótlega , en þegar framkvæmdastjóri félagsins hafi verið á heimleið hafi verið hringt í hann frá Vinnumálastofnun, hann upplýstur um að kallað hefði verið eftir liðsinni lögreglu og þess óskað að hann kæmi aftur vegna þess. Það hafi ekki verið fyrr en þá sem þær ljósmyndir, sem fjallað er um í þessu máli, hafi verið teknar og frekari samskipti hafi átt sér stað við starfsmenn Móður Jarðar ehf. Með vísan til þessa segir:
„Í ljósi framangreinds er erfitt fyrir Persónuvernd að fjalla um það í hvaða skyni heimsóknir AFLs Starfsgreinafélags til Móður Jarðar ehf. þann 9. júní 2016 voru, þ. á m. hvort um þær hafi gilt lög nr. 42/2010, hvort um víðtækara ólögfest eftirlit hafi verið að ræða með stjórnsýslustofnunum eða bara almennt eftirlitshlutverk stéttarfélags. Þá þyrfti að skoða hvort það sama hafi átt við um báðar heimsóknirnar eða ekki. AFL Starfsgreinafélag áréttaði því þá skoðun sína í bréfi, dags. 15. ágúst 2017, að það væri ekki hlutverk Persónuverndar að fjalla um hvort brotið hafi verið gegn þeim lögum.“
Einnig er í bréfi Sóknar Lögmannstofu ehf. talið upp hvaða upplýsingar voru skráðar um Móður Jörð ehf. og þá sem þar unnu, þ.e. hvort viðkomandi einstaklingar hefðu verið með íslenskar kennitölur, hvort þeir væru með ráðningarsamninga, hvort þeir væru sjálfboðaliðar eða í launuðu starfi, hvenær þeir komu til landsins, hvert ríkisfang þeirra væri og við hvað þeir störfuðu. Í ljósi meðal annars þessa er þeirri afstöðu lýst að AFL Starfsgreinafélag hafi ekki notað stöðu sína til að afla annarra upplýsinga um starfsemi Móður Jarðar ehf. en þeirra sem eru eða kunna að vera nauðsynlegar í þágu eftirlits, hvort sem um ræði eftirlit samkvæmt lögum nr. 42/2010 eða annars konar eftirlit. Verði það niðurstaða Persónuverndar að um hafi verið að ræða persónuupplýsingar hafi sú vinnsla átt sér stoð í meðal annars 3., 5. og 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, auk þess sem grunnkröfum um gæði gagna og vinnslu samkvæmt 7. gr. sömu laga hafi verið fullnægt. Jafnframt er í bréfinu áréttað að kvörtun í málinu lúti aðeins að birtingu umræddra upplýsinga en ekki öflun þeirra og skráningu sem slíkri.
Hvað birtingu upplýsinga varðar er tekið fram að í fréttabréfi AFLs starfsgreinafélags hafi ekki verið fjallað um Móður Jörð ehf. heldur almennt um störf sjálfboðaliða á samkeppnismarkaði. Einnig segir að í frétt um eftirlitsheimsóknina til fyrirtækisins hafi ekki verið tilgreind nöfn viðkomandi starfsmanna eða sjálfboðaliða, dagsetningar á komu til landsins, meint launakjör eða annað slíkt. Auk þess hafi ekki aðrar upplýsingar um eðli starfsemi Móður Jarðar ehf. verið birtar en að um ræddi garðyrkjustörf. Á heimasíðu fyrirtækisins séu nöfn starfsmanna þess tilgreind, auk þess sem fram komi að hjá því starfi sjálfboðaliðar. Í ljósi þessa sé því hafnað að AFL Starfsgreinafélag hafi veitt öðrum upplýsingar sem falli undir bann 4. mgr. 4. gr. laga nr. 42/2010 um birtingu upplýsinga, þ.e. um starfsemi, starfsmenn eða aðra aðila, sem ástæða sé til að ætla að haldið skuli leyndum. Þá hafi ekki verið um að ræða vinnslu persónuupplýsinga heldur almenna umfjöllun sem heimil hafi verið á grundvelli 73. gr. stjórnarskrárinnar. Er í því sambandi áréttuð sú afstaða að um ræði vinnslu sem falli undir 5. gr. laga nr. 77/2000 þar sem fjallað er um tengsl þeirra laga og tjáningarfrelsisins, sem og að ekki verði litið svo á að Persónuvernd hafi vald til að taka bindandi ákvörðun um það hvort einhver hafi bakað sér ábyrgð að lögum með misnotkun á tjáningarfrelsi sínu samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar heldur falli slíkt undir dómstóla.
Hvað varðar birtingu mynda af sjálfboðaliðum hjá Móður Jörð ehf. er auk þess tekið fram að gert sé ráð fyrir sérstakri tilkynningu frá Persónuvernd um það ef ráðist verði í frumkvæðisathugun á þeirri myndbirtingu, enda færi hún væntanlega ekki fram samhliða meðferð kvörtunar Móður Jarðar ehf. Þá segir:
„Það er engu að síður áréttað, sem fram kom í fyrra bréfi félagsins, að umræddir einstaklingar stilltu sér brosandi upp á fyrri mynd á heimasíðu félagsins og sjást ræða við lögreglu á síðari myndinni. Ekkert bendir til þess að þeir hafi athugasemdir við birtinguna, myndatakan hafi farið fram með leynd o.s.frv. Engar myndir voru birtar af fyrirsvarsmönnum Móður Jarðar ehf. eða merkjum eða öðru sem rekja má til félagsins.“
II.
Álit Persónuverndar
1.
Almennt gildissvið – Afmörkun máls
Ábyrgðaraðili
Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar eru skilgreindar í 1. tölul. 2. gr. laganna sem sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Hugtakið vinnsla er skilgreint sem sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. sömu greinar. Í athugasemdum við það ákvæði í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.
Ljóst er að meðferð upplýsinga um lögaðila fellur ekki undir vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt framangreindu nema í undantekningartilvikum, þ.e. ef það sterk tengsl eru á milli lögaðilans og tiltekins einstaklings að upplýsingar um lögaðilann teljist jafnframt vera upplýsingar um einstaklinginn. Telur stofnunin ekki liggja fyrir að svo sé hvað varðar kvartanda í máli þessu, þ.e. Móður Jörð ehf., og að ekki sé því unnt að líta á upplýsingar um þann lögaðila sem upplýsingar það nátengdar [A] sem eiganda fyrirtækisins að þær verði álitnar lúta að honum sem einstaklingi.
Þegar litið er til þessa telur Persónuvernd meðferð upplýsinga um Móður Jörð ehf. ekki falla undir gildissvið laga nr. 77/2000 og þar með valdsvið stofnunarinnar, sbr. 37. gr. laganna. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur hins vegar fram að stofnunin getur fjallað um mál að eigin frumkvæði, en af því leiðir að kvörtun frá skráðum einstaklingi er ekki forsenda þess að fjallað sé um vinnslu persónuupplýsinga í einstökum tilvikum. Til þess er að líta í því sambandi að í kjölfar þeirrar eftirlitsheimsóknar hjá Móður Jörð ehf., sem varð tilefni máls þessa, birti AFL Starfsgreinafélag ljósmyndir af starfsmönnum og sjálfboðaliðum hjá fyrirtækinu á vefsíðu sinni og í fréttabréfi sem meðal annars var birt þar. Ljósmyndir, þar sem greina má tiltekna einstaklinga, teljast til persónuupplýsinga og birting sem þessi til vinnslu slíkra upplýsinga. Af því leiðir að birtingin fellur undir hina almennu afmörkun fyrrnefnds ákvæðis 1. mgr. 3. gr. laga nr. 77/2000 á gildissviði laganna og þar með undir valdsvið Persónuverndar, enda eigi ekki við undantekningar frá gildissviðsákvæðinu, en AFL Starfsgreinafélag hefur vísað til 5. gr. laganna í því sambandi. Hefur Persónuvernd samkvæmt þessu ákveðið að veita álit um birtinguna, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000, þ.e. um hvort umrætt ákvæði 5. gr. þeirra laga hafi átt við og, í samræmi við niðurstöður umfjöllunar þar að lútandi, hvernig birtingin hafi horft við heimildarákvæðum 8. gr. laganna og kröfu 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna um sanngirni við vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 2. kafla hér á eftir.
Sá sem ber ábyrgð á að vinnsla persónuupplýsinga samrýmist lögum nr. 77/2000 er nefndur ábyrgðaraðili. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna er þar átt við þann sem ákveður tilgang vinnslu persónuupplýsinga, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna. Eins og hér háttar til telst AFL Starfsgreinafélag vera ábyrgðaraðili að umræddri vinnslu.
2.
Forsendur
Af hálfu AFLs Starfsgreinafélags hefur því verið haldið fram að hér eigi við undantekning frá fyrrnefndu gildissviðsákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000, þ.e. 5. gr. sömu laga þar sem gildissvið þeirra er takmarkað í ljósi grunnreglu 73. gr. stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Nánar tiltekið segir í umræddu ákvæði laganna að víkja megi frá ákvæðum þeirra, í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta, að því marki sem það sé nauðsynlegt til að samrýma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar. Þá gildi eingöngu tiltekin ákvæði laganna þegar persónuupplýsingar séu eingöngu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi.
Við mat á því hvort framangreint ákvæði 5. gr. laga nr. 77/2000 geti átt við um birtingu upplýsinga geta aðstæður við öflun þeirra skipt máli. Eitt af því sem þar hefur vægi er hvort sá aðili, sem birti upplýsingarnar, aflaði þeirra samhliða beitingu stjórnsýsluheimilda eða annars konar sambærilegra heimilda að lögum. Í því sambandi er til þess að líta að þær ljósmyndir af starfsmönnum og sjálfboðaliðum hjá Móður Jörð ehf., sem hér um ræðir og sem AFL Starfsgreinafélag birti, voru teknar í eftirlitsheimsókn hjá fyrirtækinu sem félagið tók þátt í á þeim grundvelli að það hefði til þess lagalegar heimildir. Einkum verður talið, eins og hér háttar til, að þar geti átt við heimildir samkvæmt 4. gr. laga nr. 42/2010 um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, en af hálfu AFLs Stéttarfélags hefur þeim skilningi verið lýst að aðrar lagalegar heimildir komi hér einnig til álita án þess þó að tilgreind hafi verið sérstaklega ákvæði í lögum, eða eftir atvikum kjarasamningum, þar að lútandi.
Þegar um ræðir aðila, sem vinnur með upplýsingar á grundvelli slíkra heimilda og hér um ræðir, verða skráðir einstaklingar taldir hafa réttmætar væntingar til þess að öll meðferð hlutaðeigandi aðila á upplýsingunum verði innan þess ramma sem heimildirnar afmarka. Ekki verður litið svo á að 5. gr. laga nr. 77/2000 geti þá átt við þannig að með vísan til tjáningarfrelsis megi birta upplýsingar um einstaklinga umfram það sem ella væri heimilt. Lögin teljast því gilda án takmörkunar gagnvart viðkomandi ábyrgðaraðila að vinnslu persónuupplýsinga, í þessu tilviki AFLi Starfsgreinafélagi, þ.e. þeim sem ákveður tilgang vinnslunnar, þann búnað sem notaður er, aðferð við vinnsluna og aðra ráðstöfun upplýsinganna, sbr. 4. tölul. 2. gr. laganna.
Samkvæmt framangreindu telst sú vinnsla AFLs Starfsgreinafélags á persónuupplýsingum, sem fólst í umræddri birtingu þess á ljósmyndum af einstaklingum, hafa þurft að falla undir einhverja af heimildum 8. gr. laga nr. 77/2000 sem vinnsla persónuupplýsinga endranær. Þegar um ræðir vinnslu persónuupplýsinga sambærilega þeirri sem hér um ræðir, þ.e. í tengslum við stjórnsýsluheimildir eða heimildir sem jafna má til þeirra, koma einkum til álita 3., 5. og 6. tölul. þeirrar greinar, þ.e. um að vinna má með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila, vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds. Ekki verður séð að umrædd birting hafi fallið undir neina þessara heimilda. Þá verður ekki séð að birtingin hafi átt stoð í 8. gr. laganna að öðru leyti og því verið heimil samkvæmt lögunum.
Að auki er til þess að líta að við vinnslu persónuupplýsinga verður ávallt að fara að meðal annars þeirri grunnkröfu 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 að þess skuli gætt að unnið sé með persónuupplýsingar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti slíkra upplýsinga. Í því sambandi skiptir hér máli að umræddar upplýsingar voru birtar í samhengi sem telja má harkalegt í garð viðkomandi einstaklinga án þess að sjónarmið um hlutlægni, sem ljóst er að gæta verður að við eftirlit eins og hér um ræðir, teljist hafa kallað á slíkt. Nánar tiltekið er þá vísað til þess að ljósmyndir af umræddum einstaklingum voru birtar í tengslum við neikvæð ummæli um þann hóp sem skilja mátti sem svo að þeir tilheyrðu, en meðal annars var gefið til kynna að þar ræddi um „lífsþreytta millistéttarunglinga“ sem „hefðu lítið fyrir stafni“ og gengju „blygðunarlaust“ í tiltekin störf. Í ljósi samhengis birtingar myndanna við gildishlaðin ummæli sem þessi, sem og þeirra væntinga sem einstaklingar mega hafa við öflun upplýsinga um þá á grundvelli eftirlitsheimilda, verður ekki séð að hún hafi samrýmst umræddri kröfu 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um sanngirni við vinnslu persónuupplýsinga.
Að lokum skal tekið fram, af tilefni athugasemdar Sóknar Lögmannsstofu ehf. þess efnis að hún hafi búist við sérstakri tilkynningu um frumkvæðisathugun á birtingu umræddra ljósmynda, að í bréfi til lögmannsstofunnar, dags. 2. október 2017, lét Persónuvernd glögglega í ljós að ágreiningur í málinu kynni að falla utan valdsviðs stofnunarinnar til að úrskurða í ágreiningsmálum en að hún kynni hins vegar að fjalla um lögmæti birtingarinnar að eigin frumkvæði. Að auki voru í bréfinu rakin lagaleg sjónarmið sem stofnunin taldi hafa vægi við úrlausn málsins og lögmannsstofunni í lok bréfsins veitt færi á að tjá sig um málið að nýju með vísan til alls þess sem í bréfinu var rakið. Lítur Persónuvernd svo á að í ljósi þessa hafi frekari tilkynning um ráðgerða umfjöllun að eigin frumkvæði stofnunarinnar verið óþörf.
3.
Samandregin niðurstaða
Ekki verður séð að birting AFLs Starfsgreinafélags á vefsíðu sinni á ljósmyndum, teknum af starfsmönnum og sjálfboðaliðum hjá Móður Jörð ehf. í eftirlitsheimsókn hjá fyrirtækinu hinn 9. júní 2016, hafi verið heimil samkvæmt lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 8. þeirra laga, og samrýmst kröfu 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laganna um sanngirni við vinnslu slíkra upplýsinga.
Meðferð máls þessa hefur dregist vegna mikilla anna hjá Persónuvernd.