Þínar upplýsingar – Þín réttindi
Er verið að vinna með þínar persónuupplýsingar?
Þá átt þú rétt á að vita:
- Hver vinnur þær?
- Hvenær eru þær unnar?
- Hvers vegna?
Persónuupplýsingar
eru allar upplýsingar sem hægt er að rekja til þín sem einstaklings, t.d. nafn,
kennitala, staðsetningargögn, IP-tölur/netauðkenni eða ljósmynd.
Persónuupplýsingar eru upplýsingar um fólk, ekki fyrirtæki eða dýr.
Það er ekki skilyrði að unnið sé með upplýsingar sem er hægt að tengja beint við þig, einar og sér, heldur getur þetta verið samansafn upplýsinga sem saman leiða til þess að upplýsingarnar eiga eingöngu við um þig.
Með vinnslu er átt við aðgerð eða röð aðgerða þar sem persónuupplýsingarnar þínar eru unnar, hvort sem vinnslan er sjálfvirk eða ekki.
Vinnsla persónuupplýsinga getur til dæmis falist í söfnun, skráningu, varðveislu, skoðun, miðlun og eyðingu þeirra.
Þegar upplýsinga er aflað frá öðrum en þér sjálfum þarf ekki að veita fræðslu ef skýrt er mælt fyrir um öflun eða miðlun upplýsinganna í lögum.
Þú átt rétt á því að fá að vita hvaða upplýsingar er verið að vinna með um þig. Ef þú veist ekki hvaða upplýsingar er verið að vinna með um þig, þá getur þú ekki gætt annarra réttinda sem þú átt, t.d. með því að láta eyða upplýsingum eða leiðrétta þær.
Þú átt að fá þessar upplýsingar á hnitmiðuðu, skiljanlegu og aðgengilegu formi og á skýru og einföldu máli.
Fyrirtækinu eða stjórnvaldinu ber almennt að veita upplýsingarnar innan mánaðar frá því þú biður um þær. Þær má afhenda skriflega eða á annan hátt, t.d. rafrænt.
Vissar
takmarkanir geta átt við um aðgangsréttinn. Telji fyrirtækið eða stjórnvaldið
sig ekki geta afhent þér upplýsingarnar átt þú rétt á því að fá að vita hver
ástæða þess er.
Persónuvernd gætir hagsmuna almennings þannig að mannréttindi séu ekki brotin við meðferð og vinnslu persónuupplýsinga.
Allan ágreining um vinnslu persónuupplýsinga getur þú borið undir Persónuvernd. Einnig er öllum frjálst að bera ágreining af þessu tagi undir dómstóla.
Þessi bæklingur var fjármagnaður af Evrópusambandinu - The European Union's Rights, Equality and Citizenship Programme (2014-2020)
Efni þessa bæklings er unnið af Persónuvernd sem ber fulla ábyrgð á því. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber enga ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem hann hefur að geyma.