Einkamál ungmenna

Útgefnir bæklingar

Hver eru þín einkamál?

Til umhugsunar fyrir 13-17 ára

Við ráðum því sjálf hverju við viljum deila með öðrum. Þú vilt örugglega ekki að óþægilegar myndir af þér séu birtar á Netinu, eða sendar til vina þinna, kennara eða foreldra. Enginn vill að aðrir hnýsist í einkamálefni sín, hvort sem það er í símanum, tölvunni eða heima hjá okkur. 

Til þess að vernda einkalíf okkar hafa verið settar reglur um það hvernig annað fólk má nota persónuupplýsingarnar þínar, og hvernig þú mátt nota persónuupplýsingar annarra.


  • Allir eiga rétt á sínu einkalífi – sérstaklega unglingar!
  • Skoðanir þínar skipta meira máli eftir því sem þú verður eldri og þroskaðri.
  • Það er enginn nafnlaus á Netinu! Hugsaðu um hvað þú vilt að aðrir viti um þig.
  • Ef þú notar samfélagsmiðla þarftu að ákveða hverjir mega sjá prófílinn þinn og stilla aðganginn að honum.
  • Það getur verið lögbrot að deila viðkvæmum upplýsingum eða myndum af öðrum án samþykkis. Máttu deila því sem þú ert að deila?

Hvað eru persónuupplýsingar?

Persónuupplýsingar eru allar upplýsingar sem hægt er að tengja við þig, t.d. nafn, kennitala, heimilisfang, ljósmynd eða upptaka af þér. Persónuupplýsingar eru upplýsingar um fólk, ekki fyrirtæki eða dýr.

Persónuupplýsingarnar þínar og réttur þinn til einkalífs njóta verndar samkvæmt persónuverndarlögum, stjórnarskránni og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

 

Þú átt rétt á að vita:


  • hvort fyrirtæki, stofnanir eða aðrir safna eða nota persónuupplýsingar um þig
  • hvaða upplýsingar um þig eru notaðar og í hvaða tilgangi
  • hvaðan upplýsingarnar komu, ef þær komu ekki frá þér
  • hvort upplýsingunum verður deilt með einhverjum öðrum – og þá hverjum

Nafnlaus á Netinu?

Hefur þú velt því fyrir þér hversu mikið af upplýsingum er skráð um þig á hverjum degi og hvað verður um þær?

Persónuupplýsingarnar okkar eru verðmæt söluvara. Næstum allar þær upplýsingar sem við setjum sjálf á Netið eru skráðar og geymdar. Svo eru líka til ýmiss konar upplýsingar um okkur annars staðar, til dæmis hjá stjórnvöldum. Hvað gerist þegar alls konar upplýsingum um okkur er safnað saman og þær eru notaðar í allt öðrum tilgangi en við gerðum ráð fyrir í byrjun?

Þegar við sitjum ein fyrir framan tölvuskjá getur verið auðvelt að trúa því að enginn fylgist með því sem við erum að gera og að enginn viti hver við erum eða hvar við erum. En það er ekki rétt. Tæknin gerir fyrirtækjum og einstaklingum mögulegt að nálgast mikið af upplýsingum um þig og netvenjur þínar. Þessar upplýsingar eru svo til dæmis notaðar til þess að senda þér auglýsingar í gegnum samfélagsmiðla, sem eru líklegar til að hafa áhrif á þig, eða stýra því hvaða niðurstöður birtast þegar þú notar leitarvélar á Netinu.

 

Þú berð líka ábyrgð!

Þegar þú deilir myndum eða öðrum upplýsingum á Netinu, þá berð þú ábyrgð á því. Áður en þú birtir nokkuð á Netinu er því alltaf rétt að huga að því:

  • hvaða áhrif birtingin hefur á þig – ertu að deila upplýsingum um þig með of mörgum?
  • hvaða áhrif birtingin hefur á annað fólk – ertu að deila upplýsingum um vini þína eða aðra, sem þeir vilja ekki að þú birtir?

Hvað með samfélagsmiðlana?

Það er auðvelt að búa til prófíl á samfélagsmiðlum og það getur verið gaman að nota þá til að deila myndum og upptökum og spjalla við aðra. En veist þú hverjir geta skoðað prófílinn þinn?

Flestir samfélagsmiðlar leyfa notendum sínum að ákveða sjálfir hverjir fá að skoða prófílinn þeirra.

Ef þú hefur aldrei skoðað friðhelgisstillingarnar þínar er líklegt að prófíllinn þinn sé opinn fyrir öllum – ekki bara vinum þínum – og að ókunnugt fólk geti skoðað myndirnar þínar og annað efni sem þú hefur deilt.

 

Sumir samfélagsmiðlar eru auk þess tengdir við leitarvélar á Netinu, þannig að þegar nafnið þitt er slegið inn í leitarvélina birtist tenging á prófílinn þinn.


  • Þú ræður hvort prófíllinn þinn er opinn öllum eða aðeins vinum þínum.
  • Passaðu að aðgangurinn að prófílnum þínum sé stilltur eins og þú vilt.
  • Farðu reglulega yfir friðhelgisstillingarnar þínar og skoðaðu hverjir geta séð hvað.

Öpp – smáforrit

Flestir nota smáforrit/öpp eða leiki í sínu daglega lífi. Þegar þú sækir smáforrit eða öpp þarftu yfirleitt að samþykkja skilmála, sem leyfa forritinu að safna ákveðnum upplýsingum um þig og vini þína. Stundum eru þessar upplýsingar nauðsynlegar til þess að forritið virki eins og það á að gera en í öðrum tilvikum ekki. Sum þessara forrita eru jafnvel beinlínis hönnuð í þeim tilgangi að safna eins miklum upplýsingum um þig og hægt er.

Það er því alltaf góð regla, þegar þú sækir svona forrit, að skoða hvaða upplýsingum er óskað eftir og velta fyrir þér hvers vegna þarf að veita þessar upplýsingar. Forrit, sem notar andlitsmynd af þér til að segja þér hverjum þú líkist, þarf til dæmis ekki aðgang að hljóðnemanum í símanum þínum, eða hvað?

Samþykki

Almenna reglan er sú að aðrir mega ekki nota persónuupplýsingarnar þínar – til dæmis með því að skrá þær eða  láta aðra hafa þær – nema þú hafir samþykkt það fyrst. Samþykkið er ekki gilt ef þú varst þvinguð/þvingaður til að gefa það. Þú getur líka alltaf tekið samþykkið til baka ef þú vilt.

Í flestum tilvikum eru það foreldrar/forráðamenn þínir sem geta samþykkt vinnslu persónuupplýsinga um þig fram að 18 ára aldri. Foreldrar þínir eiga samt alltaf að hafa samráð við þig áður en þau taka ákvörðun. Skoðanir þínar eiga að skipta meira máli eftir því sem þú verður eldri. Það á líka við þegar það eru foreldrar þínir sem birta myndir af þér á Netinu, svo dæmi sé nefnt.

Í sumum tilvikum þarf þó ekki samþykki frá þér eða foreldrum þínum til þess að vinna persónuupplýsingar um þig. Það á til dæmis við þegar stjórnvöld skrá upplýsingar um þig í tengslum við starfsemi sína. Skólar þurfa alltaf að skrá tilteknar upplýsingar um nemendur sína og ef þú ferð til læknis skráir hann upplýsingar um þig í sjúkraskrána þína.

Að deila

Þegar þú setur myndir og aðrar upplýsingar á Netið þá getur stundum verið erfitt eða ómögulegt að eyða þeim. Jafnvel þótt þú fjarlægir þær þá getur verið að einhver hafi tekið skjáskot og deilt því með öðrum. Þegar þú sendir vinum þínum myndir eða myndbönd í símanum getur þú ekki tekið það til baka þótt þú sjáir eftir því seinna.

Það getur því verið gott að setja sig í spor annarra áður en maður deilir mynd eða upptöku af þeim með öðrum. Ef þetta værir þú á myndinni, myndir þú þá vilja að henni væri deilt? Það er alltaf best að fá samþykki fyrst.

Mundu líka að það getur verið lögbrot, sem þú berð ábyrgð á, ef þú deilir viðkvæmum upplýsingum eða myndum af öðrum án samþykkis þeirra.

Hér má nálgast bæklinginn á PDF-formi.

Fáni Evrópusambandsins Þessi bæklingur var fjármagnaður af Evrópusambandinu - The European Union's Rights, Equality and Citizenship Programme (2014-2020)

Efni þessa bæklings er unnið af Persónuvernd sem ber fulla ábyrgð á því. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber enga ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem hann hefur að geyma.



Var efnið hjálplegt? Nei