Allar spurningar og svör

Drónar

Þegar notaðir eru drónar til að taka myndir eða fylgjast með fólki þarf að gæta að persónuverndarlögum.

Hvað eru drónar og hvaða reglur gilda um þá?

Drónar eða ómönnuð loftför sem er fjarstýrt, þ.e. flogið með notkun fjarstýribúnaðar, verða sífellt algengari í notkun. Í auknum mæli hefur þessi tækni staðið einstaklingum til boða sem nota hana t.d. til myndatöku á stöðum sem myndavélar ná yfirleitt ekki til. 

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur sett reglugerð um starfrækslu fjarstýrðra loftfara nr.990/2017 , þar sem m.a. er fjallað nánar um öryggi, skráningu, notkun þeirra og takmarkanir á notkun. Gerður er greinarmunur á því hvort um sé að ræða notkun fjarstýrðra loftfara í tómstundaskyni eða atvinnuskyni.

Þá má sjá helstu atriði reglugerðarinnar ásamt veggspjöldum sem sýna reglur annars vegar um tómstundaflug og hins vegar um atvinnuflug á vef Samgöngustofu.

Í reglugerðinni segir að um heimildir til vinnslu persónuupplýsinga með notkun fjarstýrðra loftfara fari eftir lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá segir að um heimildir til flugs í grennd við íbúðarhúsnæði eða annars staðar þar sem fólk dvelst og á athafna­svæðum gildi almennar reglur um vernd eignarréttar, friðhelgi einkalífs og persónuverndar. 

Myndataka með drónum

Vinnsla persónuupplýsinga getur farið fram með notkun dróna, s.s. ef myndataka fer fram með notkun þeirra. Þá þarf að fara að persónuverndarlögum og reglum settum á grundvelli þeirra, einkum  reglur nr. 50/2023 um rafræna vöktun og meðferð persónuupplýsinga sem verða til við rafræna vöktun, ef myndatakan felur í sér eftirlit með einstaklingum og er viðvarandi eða endurtekin reglulega.

Atriði sem gæta ber að varðandi myndatöku með drónum:

Það er mikilvægt, sem endranær, að huga að sjónarmiðum tengdum persónuvernd og friðhelgi einkalífs þegar notast er við dróna. Þegar myndefni er tekið upp með dróna á almannafæri ber að gæta ýmissa atriða:

 

  • Ef myndatakan er einvörðungu til einkanota, fellur hún ekki undir persónuverndarlöggjöfina. Athuga skal þó að um leið og efni er birt opinberlega á Netinu, t.d. á samfélagsmiðlum, er almenna reglan sú að upptakan telst ekki lengur til einkanota.
  • Æskilegt væri að afla samþykkis þeirra einstaklinga sem koma fyrir á því myndefni sem verður til við notkun dróna og á það sérstaklega við ef andlit einstaklinganna eða aðrar persónugreinanlegar upplýsingar koma fyrir á myndefninu.
  • Þá er mikilvægt að taka tillit til þess umhverfis sem myndefnið er tekið upp í. Ef taka á myndir á almannafæri  eða þar sem einstaklingar telja sig eiga að njóta friðhelgi einkalífs ber að taka tillit til þess.
  • Ef birta á myndefnið, t.d. á Netinu, gilda um það sérstök sjónarmið sem mikilvægt er að kynna sér. Þá ber að gæta öryggi upplýsinganna, t.d. hvort myndefnið sé læst á einhvern hátt eða geymt á öruggum stað.

 



Var efnið hjálplegt? Nei