Allar spurningar og svör

Ökuritar og annar rafrænn staðsetningarbúnaður

Þeir sem sæta vöktun með slíkum búnaði eiga ávallt rétt á fræðslu um tilgang, nauðsyn og réttindi einstaklingsins.

Er vinnuveitanda heimilt að setja ökurita eða annan staðsetningarbúnað í bíla á vegum fyrirtækisins? Hvaða reglur gilda um slíkt?

Vinnuveitandi má almennt setja ökurita eða annan staðsetningarbúnað í bíla á vegum fyrirtækisins sé persónuverndarlöggjöfinni fylgt. Fyrst og fremst þarf hann að hafa til þess sérstaka heimild, t.d. lögmæta hagsmuni og fræða starfsfólk með fullnægjandi hætti.

Til að heimilt sé að setja ökurita eða rafrænan staðsetningarbúnað í bifreiðar, t.d. í vinnubíla, í þeim tilgangi að fylgjast með ferðum einstaklinga, þarf til þess að vera sérstök þörf til að ná lögmætum og málefnalegum tilgangi.

Ef í ökutæki sem heimilt er að nota í einkaerindum er ökuriti eða staðsetningarbúnaður skal vera unnt að slökkva á búnaðinum. Skal hinn skráði upplýstur um það með sannanlegum hætti.

Sá sem ber ábyrgð á vöktuninni, s.s. vinnuveitandinn, þarf að skilgreina í hvaða tilgangi hann viðhefur vöktunina. Dæmi um það getur verið til að fylgjast með notkun á stórum bílaflota fyrirtækis, tryggja öryggi ökumanna og draga úr kostnaði við akstur.

Óheimilt er að nýta það efni sem safnast við vöktunina í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. Sem dæmi má nefna að ef upphaflegur tilgangur var til að tryggja öryggi bifreiðanna þá er óheimilt að nota efnið í öðrum tilgangi án þess að starfsmenn séu fræddir um breyttan tilgang áður.

Fyrirtækið sem viðhefur vöktunina, þarf jafnframt að gæta þess að ganga ekki lengra en þörf krefur við vöktunina. Því ber einnig að forðast óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra sem sæta vöktuninni.

Sá sem ber ábyrgð á vöktuninni skal fræða þá einstaklinga sem nota ökutækið um vöktunina.

Að hverju þarf sérstaklega að huga?

Öll vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal vöktun með ökuritum og annars konar rafrænum staðsetningarbúnaði, þarf að styðjast við einhverja þeirra heimilda sem tilgreindar eru í persónuverndarlögum. Sú heimild sem helst kemur til greina eru lögmætir hagsmunir fyrirtækis sem viðhefur vöktunina en þá þarf fyrirtækið að láta fara fram skjalfest hagsmunamat á því hvort þeir hagsmunir vegi þyngra en persónuvernd starfsmanna. Samþykki starfsmanna á vinnustað verður sjaldnast talið nægja þar sem ekki er hægt að líta svo á að það sé gefið af fúsum og frjálsum vilja.

Við mat á hvort lögmætir hagsmunir fyrirtækis skuli vega þyngra skiptir máli með hvaða hætti þeim sem sæta vöktuninni hefur verið gerð grein fyrir fyrirhugaðri vöktun, hvort mælingar með ökuritunum munu standa yfir utan vinnutíma og hvernig aðgangur að skráðum upplýsingum og varðveislutími verður takmarkaður. Það getur líka skipt máli hvort kveðið sé sérstaklega á um ráðstöfunarrétt starfsmanna yfir bifreið í ráðningarsamningi vinnuveitanda við starfsmann, t.d. hvort starfsmaður hafi bíl til umráða við vinnu sína og hvort vinnuveitandi geti veitt honum heimild til að fara á honum heim að vinnudegi loknum.

Ef þú hefur fengið bíl til umráða á vinnustað, sem þér er heimilt að nota í einkaerindum, skal vera hægt að slökkva á búnaðinum.

Einnig er nauðsynlegt að fræða þá sem sæta vöktuninni, svo sem starfsmenn, um vöktunina, tilgang hennar, hverjir hafi eða kunni að fá aðgang að upplýsingum sem safnast og hversu lengi þær eru varðveittar, auk þess að veita aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að viðkomandi einstaklingar geti gætt hagsmuna sinna.

Á ég rétt á að fá að skoða gögnin sem verða til um mig?

Já, ef þú hefur sætt vöktun áttu rétt á að skoða gögn sem verða til um hann við vöktunina, en slíka beiðni má hvort sem heldur setja fram munnlega eða skriflega. Þetta á þó ekki við ef réttur þinn til að fá að skoða gögnin þykir eiga að víkja að nokkru eða öllu fyrir hagsmunum annarra eða þíns eigin. 



Var efnið hjálplegt? Nei