Allar spurningar og svör

Lífsýni, erfða- og lífkennaupplýsingar

Allt eru þetta viðkvæmar persónuupplýsingar sem má eingöngu vinna með í ákveðnum tilfellum, t.d. þegar samþykki liggur fyrir eða vegna verulegra almannahagsmuna, s.s. vegna vísindarannsókna, enda sé persónuvernd tryggð með ákveðnum ráðstöfunum.

Eru erfða- og lífkennaupplýsingar viðkvæmar persónuupplýsingar?

Erfðaupplýsingar eru viðkvæmar persónuupplýsingar. Nánar tiltekið er þá átt við upplýsingar sem varða arfgenga eða áunna erfðaeiginleika einstaklings sem varpa ljósi á lífeðlisfræði hans eða heilbrigði og fást einkum með greiningu á líffræðilegu sýni frá viðkomandi einstaklingi.

Hið sama gildir um lífkennaupplýsingar, þ.e. persónuupplýsingar sem fást með sérstakri tæknivinnslu og tengjast líkamlegum, lífeðlisfræðilegum eða atferlisfræðilegum eiginleikum einstak­lings og gera það kleift að greina eða staðfesta deili á einstaklingi með ótví­ræðum hætti, svo sem andlitsmyndir eða gögn um fingraför.

Hver eru helstu skilyrði þess að unnið sé með slíkar upplýsingar?

Vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga er óheimil nema uppfyllt sé eitthvert af skilyrðum persónuverndarlaga til vinnslu slíkra upplýsinga.

Má þar nefna samþykki og að vinnslan sé nauðsynleg til að verja brýna hagsmuni hins skráða eða annars einstaklings. Þá er vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga líka heimil sé hún nauðsynleg af ástæðum sem varða verulega almannahagsmuni og almannahagsmuni á sviði lýðheilsu, sem og vegna tölfræði-, sagnfræði- eða vísindarannsókna, enda sé persónu­vernd tryggð með tilteknum ráðstöfunum eftir því sem við á í samræmi við lög og fari fram á grundvelli laga sem kveða á um viðeigandi og sértækar ráðstafanir til að vernda grundvallarréttindi og hagsmuni hins skráða.



Var efnið hjálplegt? Nei