Markaðssetning og bannskrá Þjóðskrár
Fyrirtækjum getur verið heimilt að hafa samband við þig en þú getur alltaf andmælt frekari samskiptum eða skráð þig á bannskrá Þjóðskrár.
Get ég hafnað því að fyrirtæki hafi samband við mig?
Ef þú vilt ekki að fyrirtæki hafi samband við þig standa tveir möguleikar til boða.
Annars vegar getur þú andmælt frekari samskiptum og þarf fyrirtækið þá að virða þá ósk þína. Þetta hentar betur í afmörkuðum tilvikum.
Hins vegar getur þú bæði skráð þig á bannskrá Þjóðskrár og/eða látið bannmerkja (x-merkja) þig í símaskrá (hjá já.is og 1819.is) en þeir sem starfa í beinni markaðssókn verða að bera sína lista saman við bannskrána. Bannskrá Þjóðskrár hentar betur ef þú vilt leggja almennt bann við því að haft sé samband við þig. Bannið nær einnig til valgreiðslukrafna í heimabanka.
Persónuvernd og Þjóðskrá hafa eftirlit með því að aðilar í markaðssetningu virði bannmerkingu í þjóðskrá. Eftirlit með bannmerkingu (x-merkingu) í símaskrá er í höndum Fjarskiptastofu. Virða verður bannmerkingu í símaskrá.
Almenna reglan er að bannað er að hringja, senda sms og tölvupóst við markaðssetningu, ef ekkert viðskiptasamband er á milli aðila. Þó viðskiptasamband sé fyrir hendi, átt þú alltaf rétt á að andmæla.
Ég er á bannskrá Þjóðskrár en fæ samt boð um að taka þátt í vísindarannsókn, má það?
Þar sem bannskráin nær eingöngu til markaðssetningar getur farið svo að þér berist m.a. beiðnir um að taka þátt í vísindarannsóknum, en þér er þó að sjálfsögðu frjálst að neita því að taka þátt slíkum rannsóknum.
Ég er á bannskrá Þjóðskrár en fæ samt áfram símtöl og markaðssetningarpóst, hvað á ég að gera?
Ef þú færð símtöl og markaðssetningarpóst þótt þú sért á bannskrá getur þú kvartað til viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar eða kvartað til Þjóðskrár. Þá er þér ávallt frjálst senda kvörtun til Persónuverndar.