Rétturinn til að gleymast
Þú getur átt rétt á því að gleymast á Netinu, að vissum skilyrðum uppfylltum.
Hvað felst í réttinum til að gleymast? Hvaðan kemur hann?
Í vissum tilvikum átt þú rétt á því að persónuupplýsingum um þig sé eytt, t.d. ef upplýsingarnar eru ekki lengur nauðsynlegar í þágu þess tilgangs sem þeirra var upphaflega aflað í. Þetta á líka við um upplýsingar sem finnast á Netinu.
Stundum eru ekki skilyrði til þess að eyða upplýsingum um þig af tilteknum vefsíðum en þá getur þú samt átt rétt á því að leitarvélar á Netinu afmái tilteknar leitarniðurstöður um þig, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og ef þær hafa neikvæð áhrif á friðhelgi einkalífs þíns.
Evrópudómstóllinn dæmdi, árið 2014 í máli varðandi Google á Spáni, að þeim sem reka leitarvélar á Netinu geti í ákveðnum tilvikum verið skylt að fjarlægja af lista leitarniðurstaðna, sem birtast við uppflettingu á nafni tiltekins einstaklings, tengla á vefsíður, sem birtar eru af þriðja aðila og hafa að geyma upplýsingar um einstaklinginn. Vefleitarvélum getur verið þetta skylt jafnvel þótt birting persónuupplýsinganna á vefsíðunni sé lögmæt og þótt upplýsingunum sé ekki eytt af vefsíðunni áður eða samtímis.
Í dóminum eru sett fram þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo unnt sé að fallast á að eyða beri tiltekinni leitarniðurstöðu. Fer það eftir mati á hagsmunum, annars vegar hagsmunum almennings af því að leitarniðurstaðan sé aðgengileg og hins vegar hagsmunum einstaklingsins, sem upplýsingarnar eru um, af því að svo sé ekki. Við það mat ber meðal annars að líta til eðlis upplýsinganna og hversu viðkvæmar þær eru fyrir einkalíf þess sem þær varða. Þrátt fyrir að persónuupplýsingar séu réttar og að vinnsla þeirra hafi í upphafi verið lögmæt þá getur vinnslan, með tímanum, orðið ólögmæt ef upplýsingarnar virðast ófullnægjandi, gagnslausar eða óhóflegar miðað við upphaflegan tilgang vinnslunnar og með hliðsjón af tímanum sem hefur liðið.
Almennt er réttur einstaklinga til friðhelgi einkalífs og verndar persónuupplýsinga um þá ríkari en fjárhagslegir hagsmunir vefleitarvéla og hagsmunir almennings af því að hafa aðgang að upplýsingunum, á grundvelli leitar að nafni viðkomandi á Netinu. Hins vegar geta hagsmunir almennings af slíku aðgengi að persónuupplýsingum verið ríkari í þeim tilvikum þegar upplýsingarnar varða almannahagsmuni.
Skýrt er kveðið á um það í dómi Evrópudómstólsins að einstaklingar eigi að geta leitað beint til vefleitarvéla með beiðni sína um að leitarniðurstöður verði afmáðar og að vefleitarvélum beri þá að meta hvert mál fyrir sig. Verði vefleitarvél ekki við beiðni einstaklings þar að lútandi skuli hann eiga þess kost að leita til eftirlitsaðila eða dómstóla í viðkomandi ríki.
Hver eru skilyrði þess almennt að persónuupplýsingum um mann verði eytt?
Meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort skilyrði séu fyrir því að persónuupplýsingum um mann verði eytt. Ef þú átt hins vegar rétt á því að persónuupplýsingum um þig verði eytt skal þeim eytt án ótilhlýðilegrar tafar. Skilyrði fyrir eyðingu persónuupplýsinga um mann geta verið eitt af eftirfarandi:
- Persónuupplýsingarnar eru ekki lengur nauðsynlegar í þágu þess tilgangs sem þeirra var upphaflega aflað í.
- Þú afturkallar samþykki þitt fyrir vinnslu persónuupplýsinganna.
- Þú andmælir vinnslu persónuupplýsinganna og engir lögmætir hagsmunir ganga því framar.
- Vinnsla persónuupplýsinganna er ólögmæt.
- Eyða ber persónuupplýsingunum í samræmi við lagaskyldu.
- Unnið er með persónuupplýsingar í tengslum við boð til barna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu.
Í tilteknum tilvikum gildir þessi réttur ekki og er þá hægt að neita þér um eyðingu upplýsinganna. Það á við að því marki sem vinnslan er nauðsynleg:
- til að neyta tjáningarfrelsis og upplýsingafrelsis.
- til að uppfylla lagaskyldu í þágu verkefnis sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds.
- Með skírskotun til almannahagsmuna á sviði lýðheilsu.
- vegna skjalavistunar í þágu almannahagsmuna, vísindarannsókna, sagnfræðilegra rannsókna og tölfræðivinnslu.
- til að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur.
Hver eru skilyrði þess að leitarniðurstöður verði afmáðar?
Eins og á við um réttinn til þess að persónuupplýsingum um mann verði eytt þá þarf einnig að meta í hverju tilviki fyrir sig hvort skilyrði séu fyrir því að leitarniðurstöður á Netinu verði afmáðar. Gilda þá sömu sjónarmið og um réttinn til að persónuupplýsingum um mann verði eytt en þó þannig að verið er að meta hvort réttmætt sé að upplýsingarnar séu aðgengilegar með þeim sérstaka hætti sem felst í því að fletta nafni einstaklings upp á vefleitarvél.
Þá þarf einnig að vega og meta:
a. hagsmuni einstaklings af friðhelgi einkalífs og vernd persónuupplýsinga um hann.
b. hagsmuni almennings af því að upplýsingarnar séu aðgengilegar með þessum hætti.
Við þetta mat þarf meðal annars að líta til þess:
- hversu viðkvæmar persónuupplýsingarnar eru sem um ræðir.
- hvort viðkomandi einstaklingur sé opinber persóna eða gegni hlutverki á opinberum vettvangi, svo áhrif hafi á einkalífsvernd viðkomandi.
- hvort viðkomandi einstaklingur er barn.
- hversu nákvæmar og áreiðanlegar upplýsingarnar eru.
- hverjir hagsmunir almennings eru af því að upplýsingarnar séu aðgengilegar.
- hversu hóflegar eða óhóflegar upplýsingarnar eru miðað við upphaflegan tilgang vinnslunnar.
- hversu mikil neikvæð áhrif þessi aðgangur að upplýsingunum hefur á einkalíf viðkomandi.
- hversu langur tími hefur liðið frá því að upphafleg vinnsla fór fram.
- hvaðan upplýsingarnar komu upphaflega, þ.e. frá viðkomandi einstaklingi sjálfum eða öðrum, og hvort ætlunin var að gera þær opinberar.
- hvort upplýsingarnar voru upphaflega gerðar opinberar sem liður í fréttaflutningi eða annarri fjölmiðlun.
- hvort sá sem upphaflega birti upplýsingarnar hafði lögbundna skyldu til þess að gera þær aðgengilegar.
Vert er að benda á að samkvæmt skilmálum Google[1] er leitarniðurstöðum eytt ef þær varða eftirfarandi persónuupplýsingar:
- Kennitölur eða önnur þess háttar persónuauðkenni.
- Númer bankareikninga.
- Kreditkortanúmer.
- Myndir af undirritunum.
- Nektarmyndir eða myndir af kynferðislegum toga sem settar hafa verið á Netið án samþykkis viðkomandi.
- Sjúkraskrár einstaklinga eða önnur gögn um heilsuhagi þeirra, sem bundin eru trúnaði.
Google eyðir almennt ekki leitarniðurstöðum varðandi eftirfarandi persónuupplýsingar:
- Fæðingardaga.
- Heimilisföng.
- Símanúmer.
Fram kemur í skilmálum Google að við mat á því hvort orðið verði við beiðni einstaklinga um að leitarniðurstöður verð afmáðar sé litið til þess hvort tilteknar persónuupplýsingar séu til þess fallnar að auka hættuna á auðkennaþjófnaði, fjársvikum eða öðrum skaða. Við það mat sé enn fremur horft til þess hvort tiltekin auðkennanúmer séu gefin út af hinu opinbera, hvort upplýsingarnar séu opinberar eða bundnar trúnaði, hvort þær geti almennt verið notaðar við tilfærslu fjármuna, hvort þær geti almennt verið notaðar til þess að afla frekari upplýsinga um tiltekinn einstakling, sem gætu leitt til auðkennaþjófnaðar eða fjárhagslegs skaða, og hvort unnt sé að auðkenna viðkomandi einstakling á nektarmynd eða mynd af kynferðislegum toga.
Almenna reglan, samkvæmt skilmálum Google, er að leitarniðurstöðum er ekki eytt ef þær varða persónuupplýsingar sem eru aðgengilegar almenningi á vefsíðum hins opinbera.
[1] Sjá upplýsingar á vefsvæði Google, sóttar 20. apríl 2018: https://support.google.com/websearch/answer/2744324
Ég vil láta eyða upplýsingum um mig, hvað á ég að gera?
Viljir þú að upplýsingum um þig sé eytt af tiltekinni vefsíðu á Netinu getur þú haft samband við ábyrgðaraðila vefsíðunnar og óskað eftir því að upplýsingunum verði eytt.
Verði vefstjóri ekki við beiðni um að eyða persónuupplýsingum af vefsíðu er hægt að senda Persónuvernd kvörtun ef:
- ábyrgðaraðili vefsíðunnar er með staðfestu hér á landi eða,
- hann hefur ekki staðfestu hér á landi en starfsemi vefsíðunnar tengist því að (i) bjóða einstaklingum innan EES-svæðisins vöru eða þjónustu, óháð því hvort það er gegn greiðslu eða ekki, eða (ii) hafa eftirlit með hegðun einstaklinga innan EES-svæðisins, og leysir Persónuvernd þá úr ágreiningi aðila.
Viljir þú að leitarniðurstöður um þig verði afmáðar úr vefleitarvélum getur þú:
- haft samband við leitarvélina og óskað eftir því að leitarniðurstaða verði afmáð.
- Ef þess er óskað að tilteknar leitarniðurstöðum verði afmáðar af Google er hægt að óska eftir því með því að fylla út beiðni þar að lútandi og senda hana til Google. Eyðublaðið má finna hér.
- Svipuð úrræði kunna að vera í boði á vefsíðum annarra vefleitarvéla, en ef svo er ekki þá er hægt að senda skilaboð á viðkomandi vefleitarvél og óska eftir því að tilteknar leitarniðurstöður verði afmáðar, með viðeigandi rökstuðningi.
- Verði vefleitarvél ekki við beiðni um að leitarniðurstaða verði afmáð er hægt að senda Persónuvernd kvörtun ef:
- vefleitarvélin er Google – Persónuvernd hefur þegar úrskurðað um að Google sé með staðfestu hér á landi,
- vefleitarvélin er rekin af aðila sem er með staðfestu hér á landi eða,
- vefleitarvélin er rekin af aðila sem hefur ekki staðfestu hér á landi en starfsemi vefsíðunnar tengist því að (i) bjóða einstaklingum innan EES-svæðisins vöru eða þjónustu, óháð því hvort það er gegn greiðslu eða ekki, eða (ii) hafa eftirlit með hegðun einstaklinga innan EES-svæðisins, og leysir Persónuvernd þá úr ágreiningi aðila.
Ef þú getur borið ágreining þinn undir Persónuvernd samkvæmt framangreindum skilyrðum getur þú einnig borið hann beint undir dómstóla.
Einnig er hægt að bera ákvarðanir Persónuverndar undir dómstóla.
Réttur til eyðingar persónuupplýsinga hjá stjórnvöldum (Rétturinn til að gleymast)
Réttur til eyðingar á almennt ekki við um vinnslu persónuupplýsinga hjá stjórnvöldum þar sem þau eru bundin að lögum til að varðveita allar upplýsingar sem þeim berast. Í persónuverndarlögum er sérstaklega tekið fram að réttur til eyðingar og til að gleymast eigi ekki við þegar lög mæla fyrir um að skjöl eða upplýsingar skuli varðveittar.