Allar spurningar og svör

Minn réttur - börn og ungmenni

Við eigum öll rétt á að okkar einkamál séu einmitt það - einkamál. Semsagt að hver sem er má ekki hnýsast í þau - eða þú í einkamál annarra. Hér á eftir verður farið yfir hvaða rétt við eigum varðandi okkar einkamál og persónuupplýsingarnar okkar.

Hér getur þú lesið þér til um réttindi þín og fleira sem við vonum að sé gagnlegt þegar kemur að þínum einkamálum. 

 

Hvað eru persónuupplýsingar? 

Persónuupplýsingar eru upplýsingar sem hægt er að tengja við ákveðinn einstakling.

Þetta þýðir til dæmis

 

  • nafn þitt 
  • heimilisfang 
  • símanúmer 
  • netfang.
  • Mynd, þar sem hægt er að þekkja þig, eru líka persónuupplýsingar.

 

Þessar upplýsingar eru þínar. Ef einhver vill gera eitthvað við persónuupplýsingarnar þínar þarf hann venjulega leyfi frá foreldrum þínum. Í mörgum tilfellum ættir þú líka að hafa eitthvað um það að segja - sérstaklega þegar verið er að deila myndum af þér.

Hvað þýðir samþykki?

Það þýðir einfaldlega: Ef einhver vill nota myndir eða aðrar upplýsingar um þig verða þeir að biðja um leyfi fyrst og fá samþykki. Foreldrar þínir bera ábyrgð á að taka ákvarðanir fyrir þig þar til þú verður 13 ára en ef málið snýst um að deila einhverju á netinu, til dæmis á heimasíðu skólans, í tengslum við frístundastarf þitt eða á samfélagsmiðlum einhvers foreldra þinna, ættir þú alltaf að geta sagt til um hvort þú viljir það eða ekki.

Þá er gott að vita að þótt þú, eða foreldrar þínir, hafið samþykkt birtinguna áður, þá gætir þú séð eftir því seinna. Jafnvel þótt þú hafir samþykkt að deila myndum einn daginn geturðu hætt við það síðar. Ef það gerist, á sá sem deildi myndunum að fjarlægja þær þegar þú óskar eftir því.

Persónuvernd – af hverju er hún mikilvæg?

Það er alltaf eitthvað sem við viljum ekki deila með öðrum. Ekki af því að það er ólöglegt eða eitthvað sem við skömmumst okkur fyrir og viljum fela, heldur einfaldlega vegna þess að það er einkamál. Persónuvernd þýðir að þú átt rétt á þínum einkamálum, eða friðhelgi einkalífsins, - stundum líka frá foreldrum þínum.

Persónuvernd hjálpar okkur við að ráða yfir okkar eigin persónuupplýsingum. Þegar þú fæðist ráða foreldrar þínir yfir öllum þínum upplýsingum og hvernig má nota þær. Með aldrinum færð þú meira og meira að segja um þínar upplýsingar, eins og hverju þú vilt deila – og með hverjum.

Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er samningur nánast allra landa heims um réttindi barna. Þar segir að öll börn eigi rétt á friðhelgi einkalífs. Því eldri sem þú ert, því meira vægi hafa þínar skoðanir.

Þú hefur rétt á að láta í þér heyra

Sameinuðu þjóðirnar hafa sett lög um réttindi barna (Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins) þar sem segir m.a.

 

  • Börn eiga rétt á að segja sitt álit á öllu sem viðkemur þeim. Skoðanir barna eiga að gilda.
  • Börn ættu ekki að verða fyrir ólögmætum afskiptum af friðhelgi einkalífs þeirra. Börn eiga að njóta verndar gegn ólögmætum afskiptum af heiðri þeirra og mannorði.

 

Þetta þýðir að börn eiga að vera tekin alvarlega og að foreldrar eigi að hlusta á álit þeirra. Ef einhver vill, til dæmis, deila myndum eða upplýsingum af barninu sínu með öðrum á samfélagsmiðlum þá skiptir skoðun þess máli, jafnvel þótt það sé ekki fullorðinn. Þetta á sérstaklega við um þegar eitthvað er birt um þig sem lætur þig líta illa út eða sem þér líður ekki vel með. 

Þínar upplýsingar - þín einkamál – þinn réttur

Samfélagsmiðlar eru stór partur af lífi fólks. Twitter, Instagram, Snapchat og Facebook er eitthvað sem allflestir nota daglega. Kostirnir eru margir og síminn er aldrei langt í burtu. Flest notum við samfélagsmiðlana til afþreyingar, skemmtunar og til að slaka á og læra eitthvað nýtt og erum ekki mikið að pæla í áhættunni sem fylgir notkuninni. 

 

Vandamálið er að þetta umhverfi er síbreytilegt og maður þarf sífellt að fylgjast með og jafnvel læra leikreglunar upp á nýtt, eins og hvernig eigi eða eigi ekki að deila persónulegum upplýsingum. Það sem er einu sinni komið á netið verður þar alltaf. Jafnvel einkasamtöl, sem þú átt við vini og kunningja með skilaboðaforritum (Messenger/Whatsapp), er hægt að taka skjáskot af áður en þú nærð að eyða því. Stundum er það líka þannig að forritin fylgjast með því sem verið að segja í „einka“samtalinu. Það er því ekki alveg svo einfalt að samtal í skilaboðaforritum sé bara á milli einstaklinganna. 

       ALLT sem sett er á netið getur ratað fyrir augu óviðkomandi og þú hefur í raun enga stjórn á         því hver sér það. Hver sem er getur skoðað þig á netinu án þess að þú hafir hugmynd um             það – né hvað það er sem hann sér.

 

 

Það er ofur einfalt að fylgjast með aðgöngunum þínum og fá upplýsingar um þig, eins og hvaðan þú ert, hvaða vini þú átt og hvar þú gengur í skóla. Nánast hvaða fyrirtæki sem er getur skoðað hvað þú googlar og hvaða vefsíður þú skoðar. Þessi fyrirtæki þekkja þig út og inn – jafnvel betur en foreldrar þínir eða vinir. 

Maður veit þetta en spáir ekki mikið í því. Það er samt mikilvægt að gera sér grein fyrir að þetta eru þínar upplýsingar og að þú átt rétt á þínu einkalífi. Þú vilt örugglega ekki að hver sem er hnýsist í þín einkamál, hvort sem það er í símanum, tölvunni eða í herberginu þínu. Þú vilt heldur ekki að óþægilegar myndir séu af þér séu birtar á netinu eða sendar á vini og ættingja. Persónuvernd snýst ekki um að þú hafir eitthvað að fela, heldur að þú átt rétt að því að fá að vera í friði þegar þú svo kýst. 

Persónuvernd hjálpar þér að passa upp á þínar upplýsingar, að þú vitir hver er með hvaða upplýsingar og hvernig þær eru notaðar. Þú átt ýmis réttindi og þau helstu eru þess

   1. Rétturinn til að vita hvort verið sé að vinna með upplýsingarnar þínar

 

  • Hvað þýðir það?

Þú átt rétt á að vita ef einhver er að vinna upplýsingar um þig. Þegar fyrirtæki og stofnanir, til dæmis samfélagsmiðlar, öpp eða íþróttafélagið þitt tekur við upplýsingum um þig, á að láta þig vita: 

 

 

  • Af hverju þurfa þau upplýsingarnar?
  • Hvað gera þau við þær?
  • Hversu lengi þurfa þau upplýsingarnar?

Ef þú færð ekki þessar upplýsingar, veistu ekki að það er verið að vinna með þínar upplýsingar og hefur enga stjórn á því. 

 

 

  • Hvernig nýtir þú þennan rétt?

Þú átt ekki að þurfa að gera neitt. Þeir sem eru að nota upplýsingar um þig eiga að láta þig vita af því, án þess að þú þurfir að óska eftir því. 

 

 

  • Til hvers er þessi réttur?

Til þess að þú vitir hver er með upplýsingar um þig og til hvers. Þegar þú veist það, þá getur þú ákveðið hvort þér finnist í lagi að þessi aðili sé að nota upplýsingar um þig eða ekki. Ef þú veist það ekki, getur þú ekki haft skoðun á því né gert neitt í því.

 

Ef þér finnst ekki í lagi að einhver sé með þessar upplýsingar, þá getur þú kannski látið eyða þeim. 

    2. Rétturinn til að láta eyða upplýsingum um þig

  • Hvað þýðir það?

Ef þú til dæmis vilt ekki lengur vera á TikTok eða Instagram getur þú beðið um að myndböndunum þínum og öllum upplýsingum sem þú hefur gefið upp, t.d. nafn og aldur, verði eytt. 

 

Þessi réttur gildir þó ekki alveg alltaf. Þú getur t.d. ekki beðið um það í skólanum þínum að upplýsingunum um þig verði eytt þar. Skólinn hefur gilda ástæðu til að geyma þessar upplýsingar, eins og hvað þú heitir og hvar þú býrð og því þýðir ekkert að biðja hann að eyða þeim. 

 

  • Hvernig nýtir þú þennan rétt?

Þú getur annað hvort hringt eða sent póst og beðið um að gögnunum um þig verði eytt. Það er nóg að segja: 

 

 

 

 

Góðan daginn. 

Ég heiti Jón Jónsson og ég óska eftir að öllum persónuupplýsingum mínum sem þið hafið undir höndum verði eytt. 

Bestu kveðjur, Jón.

 

 

 

 


  •  Til hvers er þessi réttur?

Hann er til að hjálpa þér að ráða yfir þínum eigin upplýsingum. Ef þú vilt ekki að einhver sé að vinna með þínar upplýsingar er gott að vita að þú getur beðið hann um að hætta því og eyða því sem hann er með.

3. Rétturinn til að láta lagfæra upplýsingar um þig

  • Hvað þýðir það?

Ef þú heldur að fyrirtæki eða stofnun sé með rangar upplýsingar um þig getur þú beðið um að það verði lagað. Þetta geta t.d. verið nafnið þitt eða upplýsingar um í hvaða skóla þú gengur. 

 

Þetta á bara við um staðreyndir. Þú getur ekki látið breyta upplýsingum sem byggja á viðhorfi eða skoðunum, eins og til dæmis ef vinur þinn hefur skrifað einhvers staðar að þú sért „leiðinleg/ur“. Það er auðvitað særandi, en þetta er viðhorf eða tilfinningar þess sem skrifar þetta. Þú getur að sjálfsögðu beðið vin þinn um að breyta þessu og vonað það besta.

 

  • Hvernig nýtir þú þennan rétt?

Þú getur annað hvort hringt eða sent póst á fyrirtækið/stofnunina og beðið þau um að laga villuna. 

 

Það er nóg að segja: 

 

 

Góðan daginn. Ég heiti Jón Jónsson og ég óska eftir að þið lagið villuna um mig (netfangið, símanúmerið mitt) í gögnum ykkar. Rétt (netfang, símanúmer) er .......

Bestu kveðjur, Jón“.

 

 

Þú getur svo óskað eftir því að fá staðfestingu á því þegar það hefur verið gert til að vera alveg viss.

  • Til hvers er þessi réttur?

Hann hjálpar þér við að passa upp á að sá sem er að vinna með upplýsingarnar þínar sé að vinna með réttar upplýsingar. Þetta er liður í því að þú ræður yfir þínum upplýsingum.

   4. Rétturinn til að vita HVAÐA upplýsingar þetta eru

Þú átt rétt á að spyrja fyrirtækið eða stofnunina að því hvort þau séu með upplýsingar um þig. Ef svarið er já, áttu rétt á að vita hvaða upplýsingar, af hverju þau eru með þessar upplýsingar og hvað þau gera við þær. Þú getur beðið um afrit af öllum upplýsingunum með útskýringum á til hvers þær eru notaðar. 

 

 

  • Hvernig nýtir þú þennan rétt?

Þú getur hringt eða skrifað til þeirra og beðið þau að útskýra þetta fyrir þér.
Það er nóg að segja:

 

 

 

Góðan daginn. Ég heiti Jón Jónsson og ég óska eftir upplýsingum um hvort og þá hvaða persónuupplýsingar um mig þið eruð að vinna með. 

Bestu kveðjur, Jón“.

  • Til hvers er þessi réttur?

Þegar þú veist hvaða upplýsingar fyrirtæki eru með getur þú ákveðið hvort þér finnist það í lagi eða ekki. Ef þér finnst það ekki í lagi þá getur þú óskað eftir því að þeim verði eytt eða að þeim verði breytt ef þær eru ekki réttar.

Passaðu upp á upplýsingarnar þínar

Í símanum þínum, spjaldtölvunni og fartölvunni er mikið af persónulegum upplýsingum um bæði þig og vini þína. Ef einhver fær þessar upplýsingar um þig getur hann misnotað þær. Það er því mikilvægt að þú verjir upplýsingarnar eins vel og þú getur.

 

Nokkur ráð til að tryggja farsímann þinn:

 

  • Vertu með lás á skjánum (lykilorð, mynstur, andlits- eða fingrafara auðkenningu, PIN-númer eða álíka).
  • Spyrðu einhvern fullorðinn áður en þú halar niður nýjum smáforritum. Þeir geta hjálpað þér að athuga hvort forritið sé öruggt og að fara í gegnum skilmálana í byrjun.
  • Læstu alltaf skjánum ef þú skilur símann eftir.
  • Ekki nota sama lykilorð alls staðar. Hafðu þau mismunandi og ekki nota eitthvað sem auðvelt er að finna út, eins og afmælisdaginn þinn, uppáhalds íþróttaliðið þitt eða nafnið á gæludýrinu. Það er snjallt að búa til lykilorð úr setningu, til dæmis: „ÉgvarÍgulumkj0lÍgær1!“ eða „HundurinnMinnáAfmæli12.Mars“. Þetta getur verið setning úr lagi eða bíómynd eða titill á bók sem þú ert að lesa eða hvað sem er. Passaðu bara að hafa það nógu flókið. „Passw0rd123“ er til dæmis ekki gott leyniorð því það er auðvelt að finna það og það hefur verið notað margoft.
  • Ef þig grunar að einhver hafi komist inn í reikninginn þinn, skaltu breyta strax um lykilorð. Aldrei nota gamla lykilorðið aftur, því það er ekki lengur öruggt – og verður það aldrei. 

 

 

Aldurstakmörk

Hvenær ertu í raun nógu gamall til að stofna þinn eigin aðgang á samfélagsmiðlum?

Á Íslandi þurfa börn að vera orðin 13 ára til að mega skrá sig inn á samfélagsmiðla. Margir samfélagsmiðlar (eins og Snapchat, TikTok, Instagram og Facebook) eru með sama aldurstakmarkið til að búa til aðgang. Þessi mörk eru sett vegna þess að þú mátt ekki gefa upp persónuupplýsingar fyrr en þú verður 13 ára án samþykkis foreldra þinna. Þó að einhver samfélagsmiðill sé með lægra aldurstakmark fyrir sína notendur er það samt ólöglegt samkvæmt íslenskum lögum að skrá sig þar inn.

Þetta þýðir að fyrir 13 ára aldur verða foreldrar að samþykkja þetta fyrir þig. Í sumum tilfellum gæti verið leyfilegt að stofna aðgang ef foreldrar þínir samþykkja það. Samfélagsmiðillinn þarf að bjóða upp á lausn sem gerir foreldrum kleift að samþykkja. Það eru ekki allir samfélagsmiðlar með slíka lausn. Ef þú stofnar samt aðgang á miðli sem býður ekki á slíka lausn, þá halda allir að þú sért eldri en þú ert. Þá getur þú t.d. fengið tillögur að efni og auglýsingar sem hæfa ekki þínum aldri.

Farðu reglulega fyrir allar friðhelgisstillingar þínar.

  • Ertu með opinn eða lokaðan prófíl? Hver getur séð það sem þú deilir?
  • Hefur þú búið til vinalista eða hópa svo þú hafir betri stjórn á því hver sér hvað?
  • Veistu hverju vinir þínir geta deilt um þig? Geta þeir til dæmis merkt/merkt þig á myndum?

Samskipti á Netinu

Það er margt skemmtilegt hægt að gera á netinu. Það er hægt að spjalla eða spila við kunningja sem ókunnuga og deila myndum og myndböndum með öðrum. Þú getur líka skrifað athugasemdir og líkað við það sem aðrir hafa deilt.

 

Þú berð ábyrgð á öllu sem þú deilir á þínum miðlum.

Ef þú vilt deila myndum af vinum þínum á netinu þarftu fyrst að biðja þá um leyfi. Ef þú átt mynd af vini þínum í farsímanum þínum og vilt senda hana áfram til annarra, verður þú líka að spyrja vin þinn fyrst. Því jafnvel þó þér finnist myndin sæt eða fyndin gæti verið að vinur þinn sé ekki sáttur við að henni sé deilt með öðrum. Það er mikilvægt að sýna öðrum virðingu í öllum samskiptum á netinu.

Ekki deila öllu

Allir sem eiga farsíma vita hversu auðvelt það er að taka myndir og myndbönd á hann. EN - þú berð ábyrgð á að nota símann þinn rétt. Ef þú tekur myndir eða myndbönd af öðrum þarftu að biðja um leyfi áður en þú sendir þær áfram til vina þinna - því þeir gætu sent þær áfram til sinna vina og áður en þú veist af hefur allur bekkurinn eða jafnvel allur skólinn séð það sem þú vildir bara deila með einum. Aldrei taka upp myndbönd af fólki í laumi.

Ef þú býrð til aðgang á samfélagsmiðlum ættir þú að athuga hvaða stillingar þú getur valið fyrir hann. Viltu að foreldrar þínir, nágrannar og vinir sjái allt sem þú deilir þar? Hvort þú vilt hafa síðuna þína opna fyrir öllum eða velja hverjir fái að sjá það sem þú deilir á hana og myndirnar af þér? Hér gætir þú viljað fá aðstoð frá einhverjum fullorðnum.

Sumir deila lykilorðum sínum með nánustu vinum sínum. Það getur leitt til óheppilegra aðstæðna. Með því ertu að gefa þeim aðgang að síðunni þinni og þeir gætu skrifað eða sett inn hluti á síðuna þína sem þú hefðir aldrei gert, til dæmis ef þeir verða reiðir við þig eða þið hættið að vera vinir. Eða að þeir geta skoðað kannski öll einkaskilaboðin þín við aðra.

Mundu að þegar einhver veit lykilorðið þitt hefur hann aðgang að frekari persónulegum upplýsingum um þig. Það er því góður vani að skipta reglulega um lykilorð.

Við hvern ertu að tala - í raun og veru?! 

Ef þú kemur ekki fram undir fullu nafni á samfélagsmiðlinum þínum þá getur verið að það séu bara vinir þínir sem þekkja þig þar, af því að þeir þekkja notendanafnið þitt. Aðrir vita ekkert hver þú ert - hvorki þitt rétta nafn, aldur þinn né kyn þitt. Á sumum samfélagsmiðlum, eins og Facebook, er algengt að nota fullt nafn og ef til vill einnig að deila öðrum persónulegum upplýsingum. Á öðrum miðlum er algengt að vera nafnlaus.

Í sumum smáforritum og leikjum geturðu hitt margt spennandi, ókunnugt fólk. Langflestir sem þú hittir eru góðir og almennilegir. En sumir eru ekki alltaf heiðarlegir um hverjir þeir eru eða hvað þeir vilja. Sem betur fer eru fáir sem upplifa ógnvekjandi hluti á netinu en það er mikilvægt að vera meðvitaður um að það eru ekki allir þeir sem þeir þykjast vera.

Það er líka oft auðveldara að skrifa hluti sem þú myndir ekki segja augliti til auglitis ef þú ert að skrifa undir „dulnafni“. Góð regla er að skrifa ekki neitt á netinu sem þú gætir ekki sagt augliti til auglitis við viðkomandi.

Hagaðu þér skynsamlega!

Á netinu eru ýmsir hópar þar sem fólk með svipuð áhugamál eða vandamál deilir upplýsingum, skiptist á skoðunum og hjálpast að. Þar skapast oft líflegar umræður og hægt að spjalla saman í rauntíma.

Ekki gleyma því að þú sérð ekki líkamleg viðbrögð annarra og oft er hægt að misskilja það sem skrifað er. Oft geta viðkvæm, samfélagslega mikilvæg efni eins og innflytjendamál, loftslagsmál, jafnrétti og trúarbrögð, svo eitthvað sé nefnt, leitt til deilna og misskilnings. Þess vegna er mikilvægt að hugsa um hvernig aðrir skilja það sem þú skrifar. Reyndu að vera skýr til að forðast misskilning og útúrsnúning. 

 

Birtingar á Netinu

Ef þú vilt deila myndum af vinum þínum eða skrifa eitthvað um þá á samfélagsmiðlum, eins og Snapchat, Instagram eða TikTok, þarftu fyrst að spyrja þá leyfis. Ef þú ert með mynd af vini í farsímanum þínum og vilt senda hana til annarra, verður þú líka að spyrja fyrst. Því þó þér finnist myndin fyndin og algjörlega saklaus þá er ekki víst að vinur þinn sé sammála. Og vinir þínir eiga líka rétt á friðhelgi síns einkalífs, alveg eins og þú.

Ef þú ert í íþróttaliði eða leikhópi gæti verið að myndum af þér hafi verið deilt á vefsíðu félagsins eða á samfélagsmiðlum. Þú gætir jafnvel hafa verið í viðtali við dagblað og greininni verið deilt á Netinu. Sumir skólar setja líka myndir á heimasíðuna sína eða senda þær í fréttabréfum til allra foreldra. Og ertu kannski með blogg líka? Þá er gott að muna að hver sem er hefur aðgang að öllu sem birtist á Netinu. Það er hægt að hala efninu niður og geyma það um ókomna tíð.

Veist þú til dæmis hvað kemur upp ef nafnið þitt er slegið inn í leitarvél eins og Google? Ókunnugir geta myndað sér ákveðna skoðun á því hverskonar manneskja þú ert, byggt á því sem finnst um þig á netinu.

 

  • Hvernig týpa ertu? Ertu í útivist eða föndrari? Ertu listatýpa eða matgæðingur?
  • Það er hægt að finna út aldur þinn, í hvaða skóla þú gengur og hvar þú býrð.
  • Hvað þér líkar við á samfélagsmiðlum segir til um áhugamálin þín og líka það sem þú deilir á vegginn þinn.

 

Það má því segja að allir séu með opið skjalasafn um sig á netinu, sem allur heimurinn hefur aðgang að. Hefurðu hugsað um það? Hvað finnst þér í lagi að hægt sé að komast að um þig í þínu skjalasafni? Eða enn mikilvægara: Hvað viltu EKKI að sé hægt að finna út um þig? 

Tjáningarfrelsi/Málfrelsi

Tjáningarfrelsi (eða málfrelsi) eru mikilvæg mannréttindi. Tjáningarfrelsi er réttur þinn til að segja þína skoðun, tjá þig og framleiða eigið efni bæði munnlega, skriflega og með öðrum miðlum eins og myndlist eða myndböndum. Það sem við segjum, og birtist opinberlega, ætti samt alltaf að byggja á staðreyndum. Tjáningarfrelsi þýðir ekki að við höfum rétt til að móðga, áreita eða mismuna öðrum.

 

Að deila myndum: Ekki hika við að taka myndir og myndbönd af þér og vinum þínum, svo framarlega sem allir eru samþykkir því og það er ekki gert í laumi. Ef þú, hins vegar, vilt deila þessum myndum með öðrum, þá er mikilvægt að þekkja reglurnar.

Það eru tvær tegundir af myndum sem persónuvernd gerir greinarmun á:

     1. Myndir þar sem fólkið sem sést á þeim er aðalatriðið

Ef fólkið, sem sést á myndinni, er það sem þú ert aðallega að mynda, skaltu alltaf biðja um leyfi áður en myndunum er deilt eða þær áframsendar á þriðja aðila. Þetta á einnig við um hópmyndir, eins og bekkjarmyndir. Þangað til þú ert 13 ára eru það í raun og veru foreldrar þínir sem bera ábyrgð á að samþykkja slíka deilingu. Það er mikilvægt að þú segir þeim hvaða skoðun þú hefur á mynddeilingum svo þau viti hvað þér finnist um þær og geti virt þínar skoðanir.

     2. Myndir þar sem fólk er í bakgrunni (fólkið er þá aukaatriði)

Ef aðalatriðið á myndinni er mannlíf, starfsemi eða álíka, þar sem fólkið á myndinni er í bakgrunni, má yfirleitt deila myndunum án þess að biðja um leyfi. Það þarf auðvitað að passa að myndirnar sýni engan á niðrandi eða óþægilegan hátt. Dæmi um þetta geta verið mynd af bát í bryggjunni, Hallgrímskirkju eða hópmynd af áhorfendum á fótboltaleik.

ATHUGIÐ: Þú ættir að hafa það að reglu að biðja alltaf um leyfi áður en þú deilir myndum af öðrum og fá skýrt frá þeim sem á myndinni eru. Ef sá hinn sami skiptir um skoðun seinna, verður þú að fjarlægja myndina.

  • Hugsaðu um hverju þú deilir um sjálfan þig. En hugsaðu sérstaklega vel um hvaða upplýsingum þú miðlar um aðra og fáðu alltaf um leyfi fyrst.
  • Allt sem þú gerir á netinu er sýnilegt öðrum. Athugaðu persónuverndarstillingarnar þínar og veldu hvað þú vilt sýna hverjum.
  • Skoðaðu hvað þú finnur um þig á netinu. Leitaðu reglulega að nafni þínu og stýrðu því hvað aðrir fá að sjá um þig.

 

Netþrjótar

Við deilum persónuupplýsingum okkar með ótrúlega mörgum, eins og vinum, kennurum, bönkum, símafyrirtækjum og netverslunum. Mikilvægt er að deila þessum upplýsingum aðeins með fólki sem við treystum. Ef við erum ekki viss, ættum við alltaf að spyrja einhvern fullorðinn. 

 

Það eru nefnilega til aðilar sem vilja komast ólöglega yfir persónuupplýsingar okkar til að stela af okkur peningum eða kortanúmerum til dæmis. 

Persónuupplýsingar eru upplýsingar sem hægt er að tengja við ákveðinn einstakling, eins og

 

  • nafn
  • símanúmer
  • heilsufarsupplýsingar
  • ljósmynd

Hér eru leiðbeiningar til að hjálpa þér að þekkja og minnka áhættuna og hvað þú getur gert þegar þú kemst að því að einhver hafi notað persónuupplýsingar þínar í leyfisleysi.

 

 

  • Auðkennisþjófnaður

Auðkennisþjófnaður er leið til að nálgast persónuupplýsingar án leyfis. Netþrjótar nýta þessar upplýsingar til að þykjast vera þú, til dæmis til að:

  1. komast inn í netbankann þinn til að millifæra peningana þína inn á sinn eigin reikning
  2. komast yfir notendanafn og lykilorð fyrir netverslun og kaupa vörur sem þú borgar fyrir
  3. nota nafn þitt og ljósmynd til að búa til samfélagsmiðil í þínu nafni og birtir eitthvað bull í þínu nafni
  • Vefveiðar (e. phishing)

Fólk er með blekkt með tölvupósti, símtali eða textaskilaboðum frá einhverjum sem þú „þekkir“. Það er ætlast til að þú svarir póstinum eða hringir til baka og gefir upp greiðslukortaupplýsingar eða lykilorð. Oft er fólk beðið um að fara inn á hlekk og svoleiðis lendir það inn á falska vefsíðu. Þær eru yfirleitt mjög vel gerðar svo fólk fattar ekki að þetta er svindl. Þetta er mjög líklega svindl ef t.d.: 

 

   a)  Slóðin er mjög löng eða lítur út fyrir að vera bull (eins og t.d. uppFundid.fYrirtaeki.org)
   b)  Slóðin er öðruvísi en hún ætti að vera, t.d. í staðinn fyrir landspitali.is er notað landspitali.com.

  • Samskiptablekking (e. social engineering) er þegar tölvupósturinn virðist koma frá „þekktum“ aðilum eins og póstinum eða skólanum þínum. Hann getur verið mjög sannfærandi í útliti, með merki stofnunarinnar og á viðeigandi tungumáli. Þú mátt passa þig ef þér finnst:


   a) erindið óvenjulegt/undarlegt beiðni
   b) stafsetning eða orðalag póstsins vera furðulegt

 

Reyndu þá að hafa samband við aðilann á annan hátt, svo sem með símtali, til að staðfesta að þetta hafi í raun verið hann. 

 

  •  „Phishing“ textaskilaboð (einnig þekkt sem „Smishing“) eru svipuð og geta jafnvel virst vera svar við fyrra spjalli við stofnunina eða fyrirtækið sem skilaboðin eiga að koma frá.
  • Símasvik eða Raddveiðar ( e. Voice Phishing eða vishing) er það kallað þegar netþrjótar hringja í þig og þykjast vera frá raunverulegu fyrirtæki.

Ef þér finnst símtalið skrýtið skaltu skella á. Þú getur alltaf athugað símanúmerið á vefsíðu fyrirtækisins sem hringjandinn þykist vinna hjá. Þú getur líka skoðað ja.is/1819.is eða sent fyrirtækinu tölvupóst á netfang sem þú finnur á vefsíðu þess. 

 

Raunveruleg fyrirtæki hringja ekki í þig upp úr þurru til að biðja þig um persónuupplýsingar eða lykilorð (þau ættu að hafa þessar upplýsingar nú þegar og af hverju ættu þau að þurfa að nota þær ef þú hefur ekki haft samband fyrst?). 

Hvað ætti ég að gera varðandi vefveiðar?

Oftast er einfaldast að eyða tölvupóstinum eða textaskilaboðum. Áður en þú gerir það skaltu athuga hvort þú getir merkt skilaboðin sem „ruslpóst“ svo að þú fáir ekki fleiri skilaboð eða símtöl frá því númeri. 

Ef þú hefur orðið fyrir svikum, þjófnaði eða öðrum glæpum vegna vefveiða, ættir þú að tala við einhvern fullorðinn og fá aðstoð við að tilkynna brotið til lögreglunnar eða senda þeim tölvupóst á netfangið: abendingar@lrh.is   

Ekki gera þrjótunum auðveldara fyrir

Til að komast hjá svona svindlurum þá er ágætt að fylgja þessum punktum: 

 

  • Ekki nota sama lykilorðið á fleiri en einni vefsíðu.
  • Passaðu að lykilorðið að netfanginu þínu sé sérstaklega sterkt
  • Ekki byggja lykilorðin þín á einhverju sem hægt er að finna á samfélagsmiðlum þínum (t.d. afmælinu þínu, fótboltaliði eða nafni gæludýrsins þíns). Notaðu eitthvað sem aðeins þú veist. Reynum að velja langt lykilorð (12 eða fleiri stafir), en flækja það með tölum og sértáknum, eins og séríslenskum stöfum, kommum, bilum og punktum. Dæmi: „UppáhaldsLiturinnMinnErSvart&Hvítur17“, eða „egelskaSt#rðfr#ði9+1=10“.
  • Ef þér finnst erfitt að muna lykilorðin þín skaltu skoða lykilorðaþjónustur sem búa til og geyma einstök lykilorð fyrir þig, valin af handahófi. Dæmi um slíkar lykilorðaþjónustur .
  • Aldrei deila lykilorðum með öðrum eða skrifa þau niður þar sem einhver getur séð þau.
  • Breyttu lykilorði strax ef þig grunar að einhver gæti hafa fengið aðgang að reikningnum þínum. Ef þú hefur notað sama lykilorð fyrir aðra netreikninga, breyttu því líka þar – þetta lykilorð er ekki lengur öruggt, og verður það aldrei aftur!
  • Aldrei birta mynd af persónuskilríkjunum þínum á netinu, þ.m.t. samfélagsmiðlum.
  • Ekki geyma það sem ekki þarf að geyma. Það getur verið þægilegt að geyma kredit- eða debetkortaupplýsingar þínar á vefsíðu uppáhalds söluaðila þíns á netinu, en er það nauðsynlegt? Netþrjótar geta mjög auðveldlega notað kortið þitt.
  • Kynntu þér leiðbeiningar netöryggissveitarinnar (CERT-IS) um öryggi á samfélagsmiðlum .


Ef þú vilt vita meira um netþrjóta og vefveiðar getur þú skoðað meira á þessari slóð og kannski fengið einhvern fullorðinn til að fara yfir þetta með þér.

 

Það er verið að fylgjast með þér 

Netið er eins og opin dagbók

Þegar þú vafrar á vefnum vistast upplýsingar um hvaða vefsíður þú hefur heimsótt, hverju þú hefur hlaðið niður og hvaða lykilorð þú hefur vistað. Það getur verið auðvelt fyrir aðra að sjá þessar upplýsingar. Ef fleiri en þú nota sömu tölvuna til dæmis geta hinir notendurnir skoðað söguna þína og séð hvaða vefsíður þú skoðaðir.

Mismunandi smáforrit hafa mismunandi aðgangsstillingar. Til dæmis vilja sum smáforrit geyma upplýsingar um hvar mynd var tekin og önnur sýna kort með staðsetningu vina þinna (þetta er kallað staðsetningargögn). Það getur verið gaman að skoða staðina sem þú hefur komið á og tekið myndir, en þessar upplýsingar eru líka sýnilegar öðrum. Hver sem er getur séð þetta. Þér er kannski sama, svona oftast allavega, þó að aðrir viti hvar þú ert, en það geta komið dagar eða aðstæður þegar þú vilt það ekki.

Slóðin eða sporin sem við skiljum eftir okkur á netinu kallast stafræn fótspor. Það er mikilvægt að vita hvað smáforritin vista og hvaða aðgang þau hafa að upplýsingunum þínum, svo að þú vitir hvaða spor þú skilur eftir þig á netinu sem aðrir geta séð.

Taktu ákvörðun um hvort þú viljir virkilega deila þessum upplýsingum með öðrum (öllum heiminum). Lærðu á stillingarnar og hvernig hægt er að slökkva á þeim. Þú getur fengið aðstoð við að læra á þetta, t.d. frá foreldrum, vinum eða kennurum í skólanum.

Þetta snýst um að velja meðvitað og deila upplýsingum aðeins með þeim sem þú vilt og þegar þú vilt. 

Gerir þú þér grein fyrir því hversu miklu magni af upplýsingum um þig er safnað daglega?

Eðlilegur dagur í lífi venjulegrar manneskju gæti litið svona út:

  1. Þú vaknar við vekjaraklukkuna í símanum þínum eða snjallúrinu þínu:

 

  •  Skrollar 200 metra á Facebook
  •  Líkar við hitt og þetta, t.d. fréttir, stöðuuppfærslur, nýja vefverslun
  •  Skoðar tölvupóstinn þinn
  • Lest fréttir

 

Síminn/úrið skráir hvenær þú vaknar, hvað þér líkar við og hvaða fréttum þú hefur áhuga á

   2. Þú ferð á fætur

 

  • Hlustar á tónlist

 

Síminn skráir hvernig tónlistarsmekk þú ert með

   3. Þú ferð út

 

  • Þú labbar á áfangastað
  • Síminn hringir
  • Þú svarar og talar við mömmu þína í nokkrar mínútur

 

Síminn skráir hvaða leið þú labbaðir og á hvaða hraða, snjallúrið skráir hjartslátt og skrefafjölda.

Síminn skráir hver hringir, hvar þú varst þegar þú svaraðir og hvar þú varst þegar þú skelltir á.

   4. Þú ferð í skólann – nærð að skoða símann þinn 37 sinnum yfir daginn

Síminn skráir í hvaða skóla, hvaða skólastofu og á hvaða hæð þú ert og hvað þú varst að skoða – á hverju þú hefur áhuga.

   5. Þú ferð heim með strætó

 

  • Notar Strætóappið
  • Hlustar á hlaðvarp
  • Ferð á Google í Strætó og skoðar nýjan tölvuleik sem þig langar í

 

Síminn skráir hvaða leið þú ferð heim og klukkan hvað. Hann skráir hvaða hlaðvarp þú hlustar á og hvaða hlaðvarpi þú gætir haft áhuga á. Hann veit hvað þú ert að skoða á netinu og hann veit að þig langar í nýjan tölvuleik.

   6. Þú verslar í búðinni áður en þú ferð heim

 

  • Borgar með símanum þínum

 

Síminn þinn skráir staðsetningu þína og út frá því í hvaða búð þú fórst, klukkan hvað þú varst þar og hvað þú eyddir miklu.

   7. Þú ferð út að hlaupa

 

  • Hlustar á tónlist í símanum

 

Síminn skráir leiðina sem þú fórst, hvað þú varst lengi og á hvaða tónlist þú hlustaðir. Hann veit mögulega hversu erfið æfingin var þér miðað við hjartslátt. Ef þú ert með snjallúr getur það skráð hjartslátt, blóðsykur, súrefnismettun, lengd æfingar, tegund æfingar o.fl.

   8. Þú kemur heim

 

  • Eldar kvöldmat eftir uppskrift af netinu

 

Síminn skráir hvernig matarsmekk þú ert með

   9. Þú ferð að sofa

 

  • Skrollar síðustu 2 km. áður en þú slekkur ljósin með snjallljósinu þínu

 

Síminn skráir hvað þú ert að skoða og klukkan hvað þú ferð að sofa

Það sem síminn getur skráð um þig á einum degi eru upplýsingar um:

 

  • Staðsetningu þína 
  • Áhugamál þín 
  • Smekk þinn 
  • Það sem þú gerir yfir daginn 
  • Hvað þú borðar 
  • Heilsufarsupplýsingar

 

Í stuttu máli: ALLT um þig.

Margt af þessu vilt þú ekki að sé skráð. Margt af þessu veist þú ekki að er skráð.

Og einhversem þú veist ekkert hver er- er að fara að nota þessar upplýsingar um þig. Stundum er það gert til að bjóða þér vörur eða þjónustu en stundum til að hafa óæskileg áhrif á þig, t.d. með því að beina að þér falsfréttum og röngum upplýsingum.

Þú getur ráðið því sem þessi einhver -sem þú veist ekkert hver er- sér um þig með því að:

 

  • hugsa út í það sem þú segir „já“ við,
  • blokka kökur frá þriðju aðilum (s.s. samfélagsmiðlum)
  • leyfa smáforritum ekki að fylgjast með staðsetningu þinni.

 

Síminn þinn er gluggi að einkalífinu þínu.

Svona getur þú gert hann öruggari og hindrað að upplýsingarnar þínar falli í rangar hendur:

 

  • Lokaðu fyrir staðsetningu á þeim forritum sem ekki þurfa hana.
  • Ekki nota opin WIFI og slökktu á Bluetooth nema þegar þú ert að nota það.
  • Segðu nei við kökum.
  • Skoðaðu allar friðhelgisstillingar þínar í smáforritum og vöfrum.
  • Hugsaðu þig um áður en þú halar niður smáforriti.
  • Mundu: ef smáforrit er ókeypis þá greiðir þú líklega fyrir það með persónuupplýsingum þínum.
  • Þú getur vafrað sem „gestur“ (e. incognito).
  • Stilltu aðganginn að prófílnum þínum á samfélagsmiðlum eins og þú vilt hafa hann.
  • Farðu reglulega yfir friðhelgisstillingar þínar og skoðaðu hver getur séð hvað.
  • Notaðu tvöfalda auðkenningu á öllum forritum sem bjóða upp á slíkt. 

 

Spyrja frekar en snuðra ... 

Sumir foreldrar fylgjast með því hvaða vefsíður börn þeirra heimsækja og skoða símana þeirra til að lesa skilaboð sem þau hafa sent og fengið. Sumir foreldrar skoða símana með börnunum sínum og tala þá kannski við þau um hvernig samskipti barnsins á netinu eru. Ástæðan er oftast sú að foreldrarnir eru að vernda börn sín fyrir einhverju óþægilegu sem þau gætu séð eða upplifað á netinu. Öðrum foreldrum finnst ekki rétt að skoða tölvur né farsíma barna sinna og gera það ekki.

Stundum er nauðsynlegt fyrir foreldra að sýna aðgát. Þeir bera ábyrgð á því að þér líði vel. Á móti kemur að öll þurfum við stundum næði og einkalíf. Við viljum geta skrifað vinum okkar um hvernig okkur líður án þess að einhver óviðkomandi lesi það sem við skrifum, jafnvel foreldrar.

  • Vinir þínir eiga líka rétt á friðhelgi einkalífs. Ef foreldrar þínir lesa skilaboðin frá vinum þínum, skilaboð sem þeir treysta á að aðeins þú ættir að lesa, er það þá í lagi?

Í flestum skólum eru reglur um farsímanotkun á skólatíma. Margar fjölskyldur eru líka með slíkar reglur, eins og hvaða vefsíður eða smáforrit börn þeirra mega nota og hvaða leiki þau megi spila. Oft veita slíkar reglur öryggi. Því er mikilvægt að allir í fjölskyldunni tali saman og ákveði í sameiningu hvaða reglur eiga að gilda og hvaða vefsíður og smáforrit börnin mega nota. Með því að hafa góðar reglur, sem fjölskyldan er sammála um, finna allir fyrir öryggi – á sama tíma og friðhelgi einkalífsins er virt. Þá þurfa foreldrar ekki sífellt að fylgjast með því sem börnin gera og snuðra í þeirra einkamálum.

Hins vegar segir líka í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að foreldrar beri meginábyrgð á umönnun og þroska barnsins eftir því sem er barninu fyrir bestu. Foreldrar þínir eiga því að vernda þig ef þeir halda að eitthvað sé skaðlegt fyrir þig. Ef þá grunar að þú sért að gera eitthvað á netinu sem er skaðlegt eða hættulegt sjálfum þér eða öðrum er það skylda þeirra að setja takmörk fyrir því hvað þú mátt gera þar.

Ef þú rekst á efni á netinu sem er ólöglegt eða óviðeigandi skaltu sýna foreldrum þínum, eða öðrum fullorðnum sem þú treystir, það og senda inn tilkynningu á ábendingarlínu Barnaheilla: https://www.barnaheill.is/is/abendingalina

Umhugsunarefni

Segir þú allt sem þér finnst og hugsar við alla sem þú þekkir, eða er einhver sem þú segir meira við en aðra? Eru einhverjar hugsanir sem þú heldur alveg fyrir þig?

Hvað segirðu hverjum og hvers vegna segirðu meira við suma en aðra?

Heldurðu að það sé munur á því sem bekkjarfélagar þínir deila á samfélagsmiðlum? Ef svo er, hver er munurinn og hvers vegna heldurðu að það sé?

Hvenær finnst þér friðhelgi einkalífsins vera sérstaklega mikilvæg? Hvaða upplýsingum finnst þér sérstaklega mikilvægt að halda algjörlega fyrir þig?

Hefur þú upplifað að einhver hafi deilt myndum af þér eða sýnt einhverjum öðrum? Ef svo er, fannst þér það í lagi? Hvers vegna / hvers vegna ekki? Var fengið leyfi frá þér fyrst?

Hefur þú einhvern tíma upplifað að einhver hafi tekið myndir af þér sem þér finnst óþægilegar og að þú hafir verið hrædd/ur um að þeir myndu sýna öðrum þær? Af hverju fannst þér þetta óþægilegt?

Geturðu ímyndað þér tilvik þar sem einhver vill ekki eða ætti ekki að deila myndum eða öðrum upplýsingum um sjálfan sig?

Gott er að athuga af og til hvort myndir eða upplýsingar um þig finnist á leitarvélum á netinu. Kannski hefur einhver deilt einhverju um þig sem þú veist ekki um.

Leitaðu að þínu eigin nafni á Google. Ábending: Skrifaðu nafnið þitt innan gæsalappa (dæmi: "Jónína Jóna Jónsdóttir"). Fannstu eitthvað?

Kom eitthvað af því sem þú fannst þér á óvart?

Ert það þú eða einhver annar sem hefur deilt þessum upplýsingum? Ef svo er, spurðu þeir þig fyrst um leyfi?

Hvað heldurðu að sé hægt að gera til að losna við upplýsingarnar ef þú vilt ekki að það sé þarna?

Sumir telja að foreldrar hafi rétt á að vita allt um það sem börn þeirra gera á meðan aðrir telja að börn eigi rétt á friðhelgi einkalífs síns. Eru reglur heima hjá þér um hvernig þú mátt nota farsímann þinn og tölvuna? Ef svo er, samþykktir þú reglurnar og ertu sammála þeim reglum sem gilda um þig?

Hafa foreldrar þínir rétt á að vita allt sem þú gerir (hverjum þú ert með, hvað þú talar um og hvað þú gerir þegar þið eruð saman)?

Er einhver munur á því sem fullorðna fólkið ætti að vita um það sem börnin þeirra gera á samfélagsmiðlum og annars staðar í lífinu?

Hver heldurðu að sé ástæðan fyrir því að sumir foreldrar skoða söguna á tölvunni og skilaboðin í farsíma barna sinna? 

Hvert get ég leitað ef eitthvað kemur upp á? 

Ef þú rekst á efni á netinu sem er ólöglegt eða óviðeigandi skaltu sýna foreldrum þínum það. Svo skaltu tilkynna það svo að lögreglan geti rannsakað það og gripið til viðeigandi aðgerða. Þú getur til dæmis sent inn tilkynningu á ábendingarlínu Barnaheilla: https://www.barnaheill.is/is/abendingalina

Ef þú vilt tala við einhvern, en vilt ekki tala við foreldar þína er hægt að hringja í hjálparsíma Rauða krossins, sem er ókeypis, eða spjalla við einhvern þar í gegnum netspjallið. Þú getur talað um hvað sem er þar og fyllsta trúnaðar er heitið.

Síminn þeirra er 1717 og nánari upplýsingar og netspjallið þeirra finnur þú hér.

Umboðsmaður barna passar upp á réttindi, þarfir og hagsmuni barna og það er hægt að hringja í þá í síma 8005999 eða senda þeim línu á ub@barn.is

Til að kynna þér örugga tækninotkun bendum við þér á að skoða heimasíðu SAFT.is. Þar getur þú skoðað allskonar efni sem er flokkað eftir aldri svo þú finnur eitthvað við hæfi. Þar er okkur kennt hvernig æskilegt er að hegða sér á netinu og hvað ber að varast og hvernig við eigum að verja okkur á netinu.

Einnig er gagnlegt að horfa á þetta myndband frá SAFT

 

 

 

 

 

 

 

 



Var efnið hjálplegt? Nei