Allar spurningar og svör

Upplýsingaréttur

Þú átt rétt á því að fá að vita hvaða upplýsingar er verið að vinna með um þig. Ástæðan er einföld: Ef þú veist ekki hvaða upplýsingar er verið að vinna með um þig, þá getur þú ekki gætt annarra réttinda sem þú átt, t.d. að láta eyða upplýsingum eða leiðrétta þær. 

Hvað er upplýsingaréttur?

Einn helsti þáttur persónuverndarinnar er upplýsingarétturinn. Ástæðan er einföld: Ef þú veist ekki hvaða upplýsingar er verið að vinna með um þig, þá getur þú ekki gætt annarra réttinda sem þú átt samkvæmt löggjöfinni, t.d. með því að láta eyða upplýsingum eða leiðrétta þær. 

Á sama hátt hvílir fræðsluskylda á fyrirtækjum og stjórnvöldum. Fræðsluskyldan er einn þáttur í ábyrgðarskyldu þeirra samkvæmt persónuverndarlögum.

Hvaða fræðslu á að veita?  

Þú átt rétt á því að vera upplýst/upplýstur ef verið er að vinna með persónuupplýsingar um þig.  Veita skal eftirfarandi upplýsingar:

 

  • hvers vegna er verið að vinna með upplýsingarnar
  • hvaða tegundir upplýsinga eru notaðar
  • upplýsa um hvort miðla eigi upplýsingunum til þriðja aðila, þar á meðal nöfn þeirra og ástæður fyrir miðluninni
  • upplýsa um hvort flytja eigi upplýsingarnar úr landi, þar á meðal hvert og hvað gera eigi við upplýsingarnar
  • upplýsingar um rétt þinn
  • hvaðan upplýsingarnar koma
  • hvort nota eigi upplýsingarnar við gerð persónusniðs
  • hvernig hafa megi samband við fyrirtækið
  • upplýsa á um rétt þinn til að kvarta til Persónuverndar.

 

Þessa fræðslu á að veita þegar upplýsinganna er aflað. Ef upplýsinganna er aflað hjá öðrum en þér skal veita fræðsluna innan mánaðar. Þetta má til að mynda gera í persónuverndarstefnu fyrirtækisins eða stjórnvaldsins sem í hlut á.

Eru undantekningar frá fræðsluskyldunni?

Almennt séð verða fyrirtæki og stjórnvöld að veita þér fræðslu þegar unnið er með persónuupplýsingar um þig, en í tilteknum tilvikum þurfa þau þess þó ekki. Þessi tilvik eru:

 

  • ef einstaklingurinn hefur þegar fengið upplýsingarnar og þær eru óbreyttar,
  • ef ekki er hægt að veita upplýsingarnar, eða það myndi kosta óhóflega fyrirhöfn, eða
  • þegar persónuupplýsingar eru bundnar trúnaði.

 

Rétt er að túlka framangreindar undanþágur þröngt.

Af hverju skiptir fræðsluskyldan máli?

Fræðsluskyldan er grundvallaratriði í persónuverndarlöggjöfinni. Ef þú veist ekki hvaða upplýsingar er verið að vinna með um þig, þá er erfitt fyrir þig að gæta réttinda þinna. Einfaldasta dæmið er að fá leiðréttingu á ranglega skráðum upplýsingum. Hvers kyns vinnsla persónuupplýsinga á að vera lögmæt og sanngjörn. Þér ætti því að vera ljóst þegar persónuupplýsingum um þig er safnað, þær notaðar, skoðaðar eða unnar á annan hátt og að hvaða marki persónuupplýsingar eru eða munu verða unnar.

Meginreglan um gagnsæi krefst þess að hvers kyns upplýsingar og samskipti, sem tengjast vinnslu þessara persónuupplýsinga, séu auðveldlega aðgengileg og á skýru og einföldu máli.

Þegar upplýsingarnar eru veittar ætti þér að vera gerð grein fyrir áhættu, reglum, verndarráðstöfunum og réttindum í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og hvernig þú getur neytt réttar þíns í tengslum við slíka vinnslu. Einkum ætti tilgangurinn með vinnslu persónuupplýsinganna að vera skýr og liggja fyrir við söfnun þeirra.

Hvernig á sá sem ber ábyrgð á vinnslu persónuupplýsinga að haga fræðslu?

Fræðslan skal á skiljanlegu og aðgengilegu formi. Þá skal hún vera á skýru og einföldu máli. Hún þarf líka að vera aðskilin frá öðrum atriðum, t.d. almennum samningsskilmálum.

Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða upplýsingar sem beint er sérstaklega til barns.

Upplýsingarnar skulu veittar skriflega eða á annan hátt, þ.m.t., eftir því sem við á, á rafrænu formi. Þá skulu upplýsingarnar veittar hinum skráða að kostnaðarlausu. 



Var efnið hjálplegt? Nei