Allar spurningar og svör

Stjórnvöld og vinnsla þeirra á persónuupplýsingum

Stjórnvöld þurfa eins og aðrir að hafa heimild samkvæmt persónuverndarlögum til að mega vinna með persónuupplýsingar og fara að meginreglum laganna um hvernig megi vinna persónuupplýsingar.

Hvenær mega stjórnvöld vinna persónuupplýsingar?

Stjórnvöld þurfa eins og aðrir að hafa heimild samkvæmt persónuverndarlögum til að mega vinna með persónuupplýsingar og fara að meginreglum laganna um hvernig megi vinna persónuupplýsingar, m.a. að þær séu unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart þér og að þær séu nægilegar og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.

Í langflestum tilvikum vinna stjórnvöld persónuupplýsingar vegna þess að vinnslan er nauðsynleg til að fullnægja lagaskyldu sem hvílir á stjórnvaldinu og hins vegar að vinnslan sé nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem stjórnvaldið fer með.

Þá koma aðrar heimildir einnig til greina eins og t.d. að vinnslan sé nauðsynleg til að efna samning sem hinn skráði er aðili að, t.d. við ráðningu starfsmanna hjá stjórnvaldinu.

Stjórnvöld geta almennt ekki byggt á lögmætum hagsmunum við framkvæmd lögbundinna verkefna sinna.

Það er hvers stjórnvalds fyrir sig, að meta á hvaða heimild það byggir vinnslu hverra upplýsinga fyrir sig.

Ólíklegt er að stjórnvöld geti byggt heimild til vinnslu persónuupplýsinga á samþykki þegar þau starfa innan valdheimilda sinna þar sem þar er til staðar valdaójafnvægi á milli ábyrgðaraðila og hins skráða. Þó er ekki þar með sagt að stjórnvöld geti aldrei unnið með persónuupplýsingar á grundvelli samþykkis hins skráða.

Réttur til eyðingar persónuupplýsinga hjá stjórnvöldum (Rétturinn til að gleymast)

Réttur til eyðingar á almennt ekki við um vinnslu persónuupplýsinga hjá stjórnvöldum þar sem þau eru bundin að lögum til að varðveita allar upplýsingar sem þeim berast. Í persónuverndarlögum er sérstaklega tekið fram að réttur til eyðingar og til að gleymast eigi ekki við þegar lög mæla fyrir um að skjöl eða upplýsingar skuli varðveittar. 



Var efnið hjálplegt? Nei