Andmælaréttur
Einstaklingum er almennt heimilt að andmæla vinnslu um sig sjálfa þegar vinnsla byggist á almannahagsmunum eða lögmætum hagsmunum þess sem vinnur með upplýsingarnar. Má þá ekki vinna upplýsingarnar frekar nema sýnt sé fram á mikilvægar lögmætar ástæður fyrir vinnslunni.
Getur hinn skráði andmælt vinnslu persónuupplýsinga?
Hinum skráða er almennt heimilt að andmæla vinnslu persónuupplýsinga um hann sjálfan þegar vinnsla byggist á almannahagsmunum eða lögmætum hagsmunum ábyrgðaraðilans (þess sem vinnur með upplýsingarnar).
Ábyrgðaraðili má í þeim tilfellum ekki vinna persónuupplýsingarnar frekar nema hann geti sýnt fram á mikilvægar lögmætar ástæður fyrir vinnslunni sem ganga framar hagsmunum, réttindum og frelsi hins skráða, eða hún sé nauðsynleg til að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur.
Eigi andmælin hins vegar rétt á sér er ábyrgðaraðila óheimil frekari vinnsla umræddra upplýsinga. Það er ávallt á hendi ábyrgðaraðila að sýna fram á að mikilvægir lögmætir hagsmunir hans gangi framar hagsmunum eða grundvallarréttindum og frelsi hins skráða í tengslum við andmælarétt hins síðarnefnda.
Geta einstaklingar andmælt því að haft sé samband við þá vegna markaðssetningar?
Þjóðskrá Íslands heldur skrá yfir þá sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningu.
Þegar fyrirhugað er að hafa samband við einstaklinga í þágu markaðssetningar þarf að bera úthringi- eða póstlistann saman við bannskrá Þjóðskrár, og bannmerkingu í símaskrá hjá ja.is og 1819.is, áður en hafist er handa við markaðssetninguna til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku.
Persónuvernd og Þjóðskrá hafa eftirlit með því að aðilar í markaðssetningu virði bannmerkingu í þjóðskrá. Eftirlit með bannmerkingu (x-merkingu) í símaskrá er í höndum Fjarskiptastofu.
Almenna reglan er að bannað er að hringja, senda sms og tölvupóst við markaðssetningu, ef ekkert viðskiptasamband er á milli aðila. Einstaklingar eiga alltaf rétt á að andmæla þó viðskiptasamband sé fyrir hendi.
Ábyrgðaraðili (sá sem vinnur með upplýsingarnar) getur afhent félaga-, nemenda-, starfsmanna- eða viðskiptamannaskrár til nota við beina markaðssetningu ef hann hefur áður gefið hinum skráðu kost á að andmæla því að nafn viðkomandi verði á skránni. Ábyrgðaraðila ber ennfremur að kanna hvort viðkomandi einstaklingur hafi með tilkynningu til Þjóðskrár andmælt notkun á nafni sínu við markaðssetningu. Auk þess má afhendingin ekki fara gegn félagssamþykktum eða starfsreglum sem eru í gildi hjá viðkomandi ábyrgðaraðila.
Persónuvernd hefur litið svo á í framkvæmd að ekki sé hægt að gera þá kröfu til sendanda markaðsefnis að bera saman við bannskrá þegar markaðssetningarefni er beint að starfsmanni fyrirtækis, og sendandinn er eingöngu með nafn viðkomandi starfsmanns undir höndum.