Leiðrétting og eyðing persónuupplýsinga
Einstaklingar eiga rétt á því að óáreiðanlegar persónuupplýsingar um þá séu leiðréttar án tafar. Þá eiga einstaklingar einnig rétt á að persónuupplýsingum þeirra sé eytt í ákveðnum tilvikum.
Hvenær ber að leiðrétta upplýsingar?
Einstaklingur á rétt á að fá óáreiðanlegar persónuupplýsingar sem varða hann sjálfan leiðréttar án ótilhlýðilegrar tafar. Hinn skráði á einnig rétt á því, að teknu tilliti til tilgangs vinnslunnar, að láta fullgera ófullkomnar persónuupplýsingar, þ.m.t. með því að leggja fram yfirlýsingu til viðbótar við þær. Við vinnslu persónuupplýsinga ber að gæta að því að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum. Persónuupplýsingum sem eru óáreiðanlegar eða ófullkomnar, miðað við tilgang vinnslu þeirra, skal eyða eða leiðrétta þær án tafar.
Hvenær ber að eyða upplýsingum? (Rétturinn til að gleymast)
Þeim sem vinna með persónuupplýsingar (ábyrgðaraðilum) ber í vissum aðstæðum að eyða upplýsingum um einstaklinga. Ef einhver eftirtalinna ástæðna á við er ábyrgðaraðila skylt að eyða persónuupplýsingum án ótilhlýðilegar tafar:
- Persónuupplýsingarnar eru ekki lengur nauðsynlegar í þeim tilgangi sem lá að baki söfnun þeirra eða vinnslu þeirra.
- Ef vinnsla persónuupplýsinga er byggð á samþykki einstaklingsins og hann dregur samþykki sitt til baka, og ekki er annar lagagrundvöllur fyrir vinnslunni.
- Einstaklingurinn andmælir vinnslunni og ekki eru fyrir hendi lögmætar ástæður fyrir henni sem ganga framar.
- Vinnsla persónuupplýsinganna var ólögmæt.
- Eyða þarf persónuupplýsingunum til að uppfylla lagaskyldu.
- Persónuupplýsingunum var safnað saman í tengslum við það þegar barni var boðin þjónusta í upplýsingasamfélaginu.
Hvenær er EKKI til staðar réttur til að fá upplýsingum eytt?
Skylda ábyrgðaraðila, þ.e. þess sem vinnur með persónuupplýsingarnar, til eyðingar persónuupplýsinga gildir ekki að því marki sem vinnsla er nauðsynleg:
- Til að neyta réttarins til tjáningar- og upplýsingafrelsis.
- Til að uppfylla lagaskyldu, eða vegna verkefnis sem er unnið í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðilinn fer með.
- Vegna almannahagsmuna á sviði lýðheilsu.
- Vegna skjalavistunar í þágu almannahagsmuna, rannsókna á sviði vísinda, sagnfræði eða í tölfræðilegum tilgangi.
- Til að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur.