Markaðssetning og bannskrá Þjóðskrár
Fyrirtæki geta haft lögmæta hagsmuni af beinni markaðssetningu en einstaklingar geta andmælt því að fá markpóst eða símtöl.
Má nota lista með nöfnum, símanúmerum, heimilisföngum eða netföngum í markaðsstarfsemi?
Já, fyrirtæki geta haft lögmæta hagsmuni af því að stunda beina markaðssetningu. Einstaklingar geta hins vegar andmælt slíkri vinnslu og þarf þá að virða þau andmæli. Þá ber þeim sem starfa í beinni markaðssókn að bera lista sína saman við bannskrá Þjóðskrár áður en hafist er handa við markaðssetningu.
Hvað er bannskrá Þjóðskrár?
Um bannmerkingar í þjóðskrá gilda reglur nr. 36/2005 um skráningu einstaklinga, sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningu og notkun slíkrar skrár. Með markaðssetningu er átt við útsendingu dreifibréfa, happdrættismiða, gíróseðla, auglýsinga og kynningarefnis, símhringingar, útsendingu tölvupósts eða hliðstæðar aðferðir, sem varða kaup eða leigu á vöru eða þjónustu eða þátttöku í tiltekinni starfsemi, hvort sem hún er viðskiptalegs eðlis eða varðar tómstundir, afþreyingu, námskeið eða sambærilegt atferli.
Skyldan um samkeyrslu við bannskrá Þjóðskrár á ekki við ef eingöngu er notast við netföng, enda fer engin sérstök skráning um netföng einstaklinga fram hjá Þjóðskrá. Einnig er rétt að taka fram að Persónuvernd getur, í sérstökum tilvikum, heimilað undanþágu frá þeirri skyldu að samkeyra slíka lista við bannskrá Þjóðskrár. Óumbeðin fjarskipti, þ.m.t. markaðssetning í tölvupósti, fellur undir eftirlit Póst- og fjarskiptastofnunar og er fyrirtækjum og stofnunum því leiðbeint um að snúa sér þangað til að fá upplýsingar um markaðssetningu í tölvupósti.
Rétt er þó að taka fram að ávallt þarf að virða andmæli einstaklinga við frekari markpósti eða -símtölum hafi þeim verið komið á framfæri. Þannig þurfa fyrirtæki að halda utan um það þegar viðskiptavinir andmæla því að fá frekari markaðssetningarpóst og virða þau andmæli, óháð því hvort viðkomandi sé skráður á bannskrá Þjóðskrár.
Óumbeðin fjarskipti
Óumbeðin fjarskipti, þ.m.t. markaðssetning í tölvupósti, fellur undir eftirlit Fjarskiptastofu og er fyrirtækjum og stofnunum því leiðbeint um að snúa sér þangað til að fá upplýsingar um markaðssetningu í tölvupósti.
Rétt er þó að taka fram að ávallt þarf að virða andmæli einstaklinga við frekari markpósti eða símtölum hafi þeim verið komið á framfæri. Þannig þurfa fyrirtæki að halda utan um það þegar viðskiptavinir andmæla því að fá frekari markaðssetningarpóst og virða þau andmæli, óháð því hvort viðkomandi sé skráður á bannskrá Þjóðskrár.
Þarf að samkeyra þátttakendalista vísindarannsóknar við bannskrá Þjóðskrár?
Bannskráin nær eingöngu til markaðssetningar, en einstaklingum er þó að sjálfsögðu frjálst að neita því að taka þátt í slíkum rannsóknum auk þess sem virða þarf andmæli þeirra við frekari þátttöku.