Allar spurningar og svör

Viðgerðarsaga bíla

Með miðlun upplýsinga um þjónustu- og viðgerðarsögu bifreiða getur átt sér stað vinnsla persónuupplýsinga sem þarf að styðjast við heimild í persónuverndarlögum.

Eru upplýsingar um þjónustu- og viðgerðarsögu bifreiða persónuupplýsingar?

Skilyrði þess að persónuverndarlögin gildi er að vinnsla persónuupplýsinga hafi átt sér stað. Með persónuupplýsingum er átt við upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling („skráðan einstakling“). Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að bera kennsl á hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða fleiri þætti sem einkenna hann.

Bifreiðar eru skráðar í ökutækjaskrá sem Samgöngustofa annast. Í ökutækjaskrá skal færa upplýsingar um ökutæki, eiganda þess og eftir atvikum umráðamann. Sjá nánar starfsreglur Samgöngustofu um upplýsingamiðlun úr ökutækjaskrá .

 Verk unnin á skráðum bifreiðum fylgja því umræddu ökutækjanúmeri og geta með því móti verið persónugreinanlegar upplýsingar.

Hvaða reglur gilda um afhendingu upplýsinga um þjónustu- og viðgerðarsögu bifreiðar til nýs bifreiðareiganda?

Öll vinnsla persónuupplýsinga, svo sem miðlun þeirra frá Samgöngustofu, tryggingafélögum, bifreiðaumboðum eða verkstæðum, þarf að fara fram á grundvelli heimildar í persónuverndarlögum. Yfirlit yfir þær heimildir sem koma til greina má nálgast hér.

Sú heimild sem hér gæti einkum komið til skoðunar er sú að vinnslan sé heimil á grundvelli þess að hún teljist nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili (t.d. þjónustuverkstæði eða bifreiðaumboð) eða þriðji maður (t.d. nýr eigandi bifreiðar) gætir. Í úrskurði Persónuverndar frá 25. júní 2017, í máli nr. 2016/1262, sem kveðinn var upp í gildistíð eldri persónuverndarlaga, var á því byggt að bifreiðaumboði hefði verið heimilt að fletta upp og miðla upplýsingum um þjónustusögu bifreiðar til annarrar bílasölu, í því skyni að verja hagsmuni fyrirtækisins og mögulegs nýs eiganda.

Það er á ábyrgð ábyrgðaraðila (þ.e. þess sem miðlar upplýsingunum) að meta hvort og þá hvaða heimild til miðlunarinnar er til staðar, og þar með hvort bifreiðareiganda er unnt að óska eftir viðgerðar- og þjónustusögu bíls, en það mat getur sætt endurskoðun Persónuverndar, berist stofnuninni formleg kvörtun.

Við alla vinnslu persónuupplýsinga þarf einnig að gæta að meginreglum persónuverndarlaga og þarf ábyrgðaraðili að auki að geta sýnt fram á hvernig það er gert. Framangreindar meginreglur lúta m.a. að því að ekki sé gengið lengra en þörf er á við vinnslu persónuupplýsinga og að vinnslan sé sanngjörn, gagnsæ, áreiðanleg og örugg.


Fáni EvrópusambandsinsVinnsla þessara spurninga og svara var styrkt af Evrópusambandinu - The European Union's Rights, Equality and Citizenship Programme (2014-2020)

Spurningarnar og svörin eru unnin af Persónuvernd sem ber fulla ábyrgð á þeim. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber enga ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem svörin hafa að geyma.


Var efnið hjálplegt? Nei