Áframhaldandi samstarf norrænna persónuverndarstofnana
Norrænu persónuverndarstofnanirnar hittust á fundi í Helsinki dagana 13.-14. október. Á fundinum undirrituðu forstjóri Persónuverndar og forstjórar systurstofnana á Norðurlöndum með sér yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf.
Tilgangur yfirlýsingarinnar er að styrkja enn frekar norræna samvinnu, meðal annars með því að vinna saman að stefnumótun á sviði eftirlitsaðgerða og auka upplýsingaskipti á milli stofnananna.
Norrænu persónuverndarstofnanirnar hafa lengi haft með sér samvinnu en norrænir fundir hafa verið skipulagðir síðan 1988. Á fundi ársins var m.a. ákveðið að verndun persónuupplýsinga barna verði forgangsmál og samskipti á milli norræna eftirlitsstofnana verði bætt, meðal annars með því að stofnanirnar deili þeim verkfærum sem þær nýta við úrlausn mála. Yfirlýsingin var undirrituð sem fyrr segir á árlegum fundi norrænna persónuverndarstofnana, sem í ár var skipulagður af finnsku persónuverndarstofnunni og fór fram í Helskinki.
Norrænu persónuverndarstofnanirnar samþykktu eftirfarandi samstarf og markmið:
- Norrænu persónuverndarstofnanirnar munu halda áfram nánu samstarfi sem byggir á norrænum gildum. Eftirlitsyfirvöldin deila því sameiginlega markmiði að gera stafrænt umhverfi öruggara og ábyrgara.
- Persónuverndarstofnanirnar sem eru innan EES samþykktu að að leggja sitt af mörkum til Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) hvað varðar samræmda beitingu evrópskrar persónuverndarlöggjafar (GDPR). Stofnanirnar samþykktu einnig að styrkja enn frekar samstarf sitt og deila upplýsingum er varða upplýsingafrelsi.
- Verndun persónuupplýsinga barna verði forgangsmál norrænna persónuverndarstofnanna. Ákveðið var að setja á laggirnar óformlegan vinnuhóp tengdan börnum og tölvuleikjum á netinu til að skiptast á upplýsingum. Upphafsverkefni hópsins yrði vitundarvakning hvað þetta varðar og þar á eftir að greina möguleikann á sameiginlegum leiðbeiningum og eftirfylgni.
- Rætt var um tillögu Evrópusambandsins um sameiginlegt svæði heilbrigðisupplýsinga (e. European Health Data Space) og ákváðu nánara samstarf vegna þeirrar sérstöðu Norðurlandanna hvað varðar vistun umfangsmikilla innlendra heilbrigðisskráa.
- Stofnanirnar viðurkenna skörun á milli evrópsku persónuverndarlöggjafarinnar og stafræns pakka Evrópusambandsins (e. digital package) og undirstrika mikilvægi þess að forðast óæskilega sundurleitt eftirlit og nauðsyn þess að tryggja samræmt eftirlit með umræddri löggjöf. Stofnanirnar leggja einnig áherslu á að persónuverndarstofnunum sé tryggt nægilegt fjármagn ef þeim eru falin ný verkefni.
- Stofnanirnar ákváðu að stofna stafrænan norrænan vinnuhóp til að skiptast á upplýsingum og samstarfi sérfræðinga á sviði upplýsingaöryggis.
- Norrænu persónuverndarstofnanirnar hafa þróað með sér öflug verkfæri við úrlausn mála. Stofnanirnar samþykktu að deila þessum verkfærum sín á milli og verður það skipulagt af vinnuhópum innanhúss.
Helsinkisyfirlýsingin á pdf-sniði
Forstjórar persónuverndarstofnanna á Norðurlöndum